„Heyrði að næstum því hálf þjóðin horfi á Neighbours“

„Ég vona að ég fái að sjá norðurljósin. Mest hlakka ég bara til að koma til Íslands. Það verður hápunktur lífs míns að koma til Íslands,“ segir leikarinn Alan Fletcher, sem leikurinn lækninn geðþekka Karl Kennedy í sápuóperunni Nágrönnum, í samtali við Fréttablaðið.

Nútíminn greindi fyrstur fjölmiðla frá komu Fletcher í október. Fréttin vakti gríðarlega athygli og fleiri en 4.000 manns deildu henni á Facebook.

Fletcher kemur til landsins í byrjun næsta árs og heldur tónleika á skemmtistaðnum Spot í Kópavogi 9. janúar ásamt hljómsveit sinni, The X-Rays. Miðasala á tónleikana og sérstakan hitting fyrir tónleikana hefst á morgun. Hann segir í viðtali í Fréttablaðinu að þetta verði fyrsta ferð hans til Íslands.

En það hefur lengi verið á listanum yfir þá hluti sem ég þarf að gera áður en ég dey. Ég hef heyrt að þetta sé eitt fallegasta land í heimi og ég varð að komast þangað. Tónleikarnir voru gott tækifæri til þess.

Nágrannar njóta talsverðra vinsælda hér á landi. Þættirnir eru þó ekki eins vinsælir og Fletcher telur. „Það sem hvatti mig til að koma til Íslands var að ég heyrði að næstum því hálf þjóðin horfi á Neighbours,“ segir hann í Fréttablaðinu.

„Ég er búinn að vera að kynna mér Ísland því ég er mjög áhugasamur ljósmyndari og ég elska að taka landslagsmyndir. Ég hef eytt fáránlega miklum tíma á internetinu að skoða jökla og aðra áhugaverða staði á Íslandi. Ég á líka vini sem hafa búið á Íslandi þannig að ég er nokkuð vel að mér þegar kemur að landinu. Ég á líka Facebook-vini frá Íslandi sem hafa gefið mér upplýsingar um landið.“

Loks segir Fletcher frá þremur Nágrannaaðdáendum sem heimsóttu tökustaðinn í Ástralíu á dögunum og gáfu honum brennvín.

„Það var áhugaverð lífsreynsla,“ segir hann. „Ég verð að prófa það aftur en ég held að maður verði að drekka það í hófi. Mér fannst bragðið gott en ég held að ég myndi lenda í tómu tjóni ef ég fengi mér of mikið“

Leikarinn ætlar að dvelja á Íslandi í fimm daga og ferðast um landið.

Fylgdu Nútímanum á Facebook og Twitter og þú missir ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram