Huldufugl tilnefnd til verðlauna á Raindance Festival

Fyrr í dag tilkynnti hin virta kvikmyndahátíð Raindance Film Festival þau atriði sem verða á dagskrá í ár, en hún fer fram í 27. sinn dagana 18.-29. september í Lundúnaborg. Auk kvikmynda sýnir hátíðin heimildarmyndir, tónlistarmyndbönd, stuttmyndir, vefseríur og verk í sýndarveruleika.
Íslensk/breski listhópurinn Huldufugl er hluti af opinberri dagskrá hátíðarinnar í ár með verkið Kassinn, sem útleggst sem A Box In The Desert á ensku. Verkið er leikverk sem fer fram í sýndarveruleika fyrir einn áhorfanda í einu, en leikari fer með hlutverk innan sýndarveruleikans í rauntíma.
Sýningin hefur einnig verið tilnefnd til verðlauna á hátíðinni, og keppir um Best Interactive Narrative Experience á móti 3 öðrum verkum frá Taívan, Spáni og Grikklandi.
Dómnefndin er ekki af lakara taginu en m.a. er hún skipuð af leikstjóranum David Yates, leikaranum Billy Zane og söngkonunni Emeli Sandé.
Kassinn hefur nú þegar farið sigurför um heiminn þar sem það hefur verið sýnt í Stokkhólmi, Berlín, London, Brighton, Los Angeles og San Diego fyrir fullu húsi eftir að hafa verið frumsýnt á Reykjavík Fringe Festival á síðastliðnu ári. Hefur sýningin hlotið verðlaun í Stokkhólmi (Innovation in Performance), Berlín (Most Amazing Game Award) og San Diego (Outstanding USA Premiere) nú þegar.
Íslenskir gestir fengu svo tækifæri til að sjá verkið í Iðnó og í Gallerí Fold á Reykjavík Fringe í ár, en í ár var verkið frumflutt á íslensku og hefur þróast og breyst töluvert milli ára.
Aðstandendur Huldufugls eru leikkonan Nanna Gunnars og stafræni listamaðurinn Owen Hindley. Nanna og leikarinn Ástþór Ágústsson skipta með sér hlutverkum sýningarinnar, tónlist er í höndum Írisar Thorarins og Alexander Dan hjálpaði til við handritsgerð.
Á vefsíðu Raindance má sjá tilkynningu um dagskrá hátíðarinnar.
Auglýsing

læk

Instagram