Hulunni svipt af einstaklingum í Epstein-skjölunum: „Clinton vill þær ungar“

Dómstóll í New York í Bandaríkjunum birti í gær nöfn þeirra einstaklinga sem höfðu notið nafnleyndar í rannsókn stjórnvalda á mansalshring athafnamannsins og níðingsins Jeffrey Epstein. Um er að ræða 187 nöfn sem dómari á Manhattan-eyju leit svo á að ekki þyrfti að halda leyndum lengur. Dómskjölin innihalda meðal annars vitnisburð Johanna Sjoberg sem var ráðin af Epstein til þess að starfa sem nuddari þegar hún var tvítug að aldri.

„Clinton vill þær ungar,“ sagði Sjoberg í vitnisburði sínum árið 2016 og á hún þar við fyrrum forseta Bandaríkjanna, Bill Clinton. Nafn fyrrum forsetans kemur fram fimmtíu sinnum í umræddum skjölum en talsmaður Clinton sagði í viðtali við CNN í gær að hann hafi ekkert vitað um „hræðilega glæpi“ Epstein þegar þeir voru vinir.

Hawking ekki í kynsvalli

Í sömu skjölum kemur líka fram að Ghislane Maxwell, fyrrum kærasta og hægri hönd Epstein, hafi neitað því í vitnaleiðslum að Clinton hafi nokkurn tímann heimsótt hina frægu eyju Epstein í Karabíska-hafinu en viðurkenndi þó að hann hafi nokkrum sinnum nýtt einkaþotu níðingsins.

Maxwell er sú eina sem hefur verið dæmd fyrir glæpi Epstein en hún hlaut tuttugu ára fangelsinsdóm í Bandaríkjunum fyrir mansal. Þá bregður nafni Stephen Hawking einnig fyrir í umræddum dómsskjölum, sem nú er búið að svipta hulunni af, en í þeim má sjá tölvupóst frá Epstein til Maxwell þar sem hann virðist ítreka við hana að Hawking, sem nú er látinn en var einn þekktasti vísindamaður Bretlands, hafi ekki tekið þátt í kynsvalli með ólögráða unglingum árið 2006.

Trump, Jackson og Copperfield

Hawking, sem var bundinn við hjólastól og dó í mars árið 2018 – þá 76 ára að aldri, var einn af gestum í grillveislu sem var haldin samhliða ráðstefnu á hinni margfrægu níðingseyju Little St. James – ráðstefnu sem Epstein greiddi brúsann fyrir.

Andrews Bretaprins er einnig nefndur á nafn í skjölunum í tengslum við ásakanir um kynferðislega áreitni. Aðra fræga má nefna Donald Trump, Michael Jackson og David Copperfield en þeir eru sagðir hafa ýmist heimsótt Epstein eða átt samskipti við hann.

Erlendir miðlar hafa fjallað ítarlega um málið í gær og í nótt – þar á meðal CNN, DailyMail, FOX News og BBC News.

Auglýsing

læk

Instagram