Hvítar útfellingar í innisundlaug vekja óhug foreldra: „Það er óþægilegt að vita af barninu mínu synda innan um þetta“

„Ég var að bíða eftir því að barnið mitt væri búið í skólasundi í gær og ætlaði að fá mér sæti þarna við gluggann en þá sé ég þessa hvítu froðu í öllum gluggum, þetta leit út eins og ógeðsleg mygla,“ sagði áhyggjufullt foreldri sem Nútíminn ræddi við í gær.

Myndirnar sem birtar eru með þessari umfjöllun voru teknar í lok skólasunds í innilaug Akurskóla í Reykjanesbæ – bæjarfélagi sem hefur þurft að loka stórum svæðum í grunnskólum bæjarfélagsins vegna myglu. Akurskóli, sem var byggður árið 2005 og því aðeins 19 ára gamall, er ekki einn þeirra fjölmörgu skóla sem nú er verið að taka í gegn í bæjarfélaginu vegna myglu en ef ekkert verður að gert mun hann að öllum líkindum bætast í hóp þeirra. Nú þegar hafa rakaskemmdir fundist í tveimur grunnskólum og þremur leikskólum.

„Það eru klárlega vandamál þarna“

Þeir foreldrar sem Nútíminn ræddu við gagnrýndu Reykjanesbæ fyrir að leyfa húsnæðinu að grotna svona niður – sérstaklega í ljósi þess að útlit er fyrir að stór hluti útsvars þeirra fer nú í að laga aðrar byggingar sveitarfélagsins sem glíma við „öfgakennda útgáfu“ myglu eins og ónefndur starfsmaður bæjarins komst að orði við Nútímann.

Hvítar útfellingar líta út eins og mygla fyrir þá sem þekkja ekki til en ljósmyndin hefur vakið athygli líffræðings sem sérhæfir sig í myglumyndun.

Heilbrigðiseftirlitið gengur í málið

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja ætlar að skoða málið í dag en um er að ræða útvegg í innisundlaug grunnskólans en þær hvítu útfellingar sem sjást á myndunum eru í öllum gluggum sundlaugarinnar sem er viðbygging við Akurskóla og er notuð á hverjum degi af grunnskólabörnum á öllum aldri.

„Já, þetta þurfum við klárlega að skoða. Við fyrstu sýn mætti draga þá ályktun að ekki sé hugsað nógu vel um húsnæðið,“ segir Ásmundur E. Þorkelsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Þar á bæ eru ábendingar sem þessar teknar mjög alvarlega.

Rannsaka þurfi hvítu útfellingarnar

„Það eru klárlega vandamál þarna,“ segir Svavar Guðmundsson, líffræðingur og sérfræðingur í myglu hjá Eflu, þekkingarfyrirtæki sem veitir fjölbreytta þjónustu á öllum helstu sviðum verkfræðinnar – þar á meðal ráðgjöf og verkefni er snúa að myglumyndum í fasteignum.

„Þetta er allavega ekki eðlilegt ástand og þarna þarf að grípa til aðgerða“

„Myglan þarf eitthvað æti og því er oft myglumyndun í timbri og pappa á gifsplötum en þarna er ál og því ætti ekki að vera mikið æti. Ofan á löminni er kominn einhver þörungavöxtur og mögulega bakteríumyndun og svo er steinteppi þarna á gólfinu. Ég er ekki viss um að þetta sé mygla en þessar hvítu útfellingar eru eitthvað sem ég myndi vilja skoða betur – skoða hvort þéttingarnar séu í lagi og hvað sé að valda þessu,“ segir Svavar sem bendir á að þarna þurfi að þurrka þessi svæði á hverjum degi og þrífa – sérstaklega þegar jafn snörp skil eru í hitastigi á þessum tíma árs.

Útveggur innisundlaugarinnar er allur í þessum hvítu útfellingum sem sjást á þessari mynd.

Ekki eðilegt ástand

„Þetta er allavega ekki eðlilegt ástand og þarna þarf að grípa til aðgerða – ef ekkert er gert að þá eyðilegst þetta og það kostar þá bara meira að gera við þetta. Þessar hvítu útfellingar eru mjög áhugaverðar því myglan er yfirleitt með dökk grænan lit, dökkan og grænan vöxt. Myglan þrífst nefnilega ekki í 100% raka, hún vill hafa þetta aðeins minna og þarf ætið. Ég fann til dæmis enga myglu í mígandi blautri gifsplötu en þegar ég tók sýni þar sem platan var aðeins minna rök kom í ljós mikil mygla,“ segir Svavar sem vonar að starfsmenn Reykjanesbæjar hafi samband svo hægt sé að rannsaka þetta betur.

…víða væri pottur brotinn þegar það kemur að daglegri umhirðu skólabygginga

Hreinn Ágúst Kristinsson, deildarstjóri eignaumsýslu hjá Reykjanesbæ, segist ekki hafa vitað af þessum hvítu útfellingum en vill þó taka það fram að bilun í loka á loftræstikerfi í Akurskóla hafi komið í ljós við reglubundið eftirlit – eftirlit sem framkvæmt er tvisvar sinnum á ári. Hann segir að bæjarfélagið standi nú í miklum lagfæringum og breytingum á skólahúsnæðum Reykjanesbæjar í kjölfar þess að mygla lét gera vart við sig – breytingar sem verða öllum til góðs til framtíðar, bæði starfsfólki og nemendum. Þá muni starfsmenn sveitarfélagsins fara í Akurskóla í dag til þess að skoða aðstæður.

Ljóst er að Reykjanesbær þarf að taka til í hendinni – ekki bara í þeim skólahúsnæðum sem nú þegar glíma við myglu heldur einnig í þeim byggingum þar sem mygla hefur ekki greinst. Sérfræðingur í þrifum sem Nútíminn ræddi við sagði að víða væri pottur brotinn þegar það kemur að daglegri umhirðu skólabygginga hér á Íslandi og ljóst væri miðað við ljósmyndirnar að Akurskóli væri þar engin undantekning.

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja ætlar að bregðast við þessum ábendingum í dag.

Auglýsing

læk

Instagram