Gæðablóðið Keith Flint

Keith Flint var söngvari hljómsveitarinnar The Prodigy frá árinu 1996, en byrjaði sem dansari sveitarinnar. Hann söng inn á lagið „Firestarter“ sem sló í gegn og myndbandið við lagið sýndi Flint, með sitt sérstaka útlit og sviðsframkomu, ganga af göflunum í drungalegum göngum. Poppheimurinn varð aldrei samur og The Prodigy hafa verið ein þekktasta danstónlistarsveit í heimi síðan og gefið út sjö plötur sem hafa komist í efsta sæti breskra metsölulista, sú síðasta í nóvember. Hann var auk þess söngvari sveitarinnar Flint og eigandi mótorhjólakappakstursliðsins Team Traction Control.

Tók þátt í fimm kílómetra hlaupi tveimur dögum fyrir dauða sinn

Flint, sem var 49 ára, fannst látinn heima hjá sér á mánudagsmorgun. Félagi hans úr Prodigy, Liam Howlet, staðfesti síðar að Flint hefði svipt sig lífi. Á vef Independent kemur fram að tveimur dögum áður tók Flint þátt í fimm kílómetra hlaupi í borginni Chelmsford í Englandi og náði persónulegum mettíma, 21:22. Aðstandendur hlaupsins sögðu að hann væri einn af nýjustu hlaupurunum þeirra og að þeir vildu óska þess að hann hefði getað verið hluti af hlaupasamfélaginu áfram.

Margir samferðamenn Flints úr tónlistargeiranum hafa vottað honum virðingu sína og sagt frá ánægjulegum samskiptum við hann. Félagar hans úr The Prodigy kölluðu hann „sannan brautryðjanda, frumkvöðul og goðsögn“ og sögðu að hann væri bróðir þeirra og besti vinur og yrði saknað að eilífu.

Grammy-verðlaun fyrir góðmennsku

James Blunt birti hjartnæma frásögn á Twitter af kynnum sínum af Flint, sem sýndi honum góðvild þegar maður aðrir tónlistarmenn gerðu það ekki. „Á Q verðlaununum fyrir mörgum árum, þegar Noel Gallagher var að segja að hann ætlaði að fara frá Ibiza af því að ég hefði flutt þangað og Damon Albarn neitaði að vera með mér á mynd og Paul Weller sagði að hann vildi frekar éta sinn eigin skít en að vinna með mér, kom Keith Flint til mín, faðmaði mig og sagði mér hvað hann væri ánægður með velgengni mína. Keith, ég hitti þig bara einu sinni, en ég felldi tár þegar ég frétti af dauða þínum. Í okkar bransa eru engin verðlaun gefin fyrir manngæsku, en ef svo væri, fengir þú þau Grammy-verðlaun.“

Elskaði Queen

Brian May úr Queen birti sögu af Flint á Instagram. May hitti Flint baksviðs og bjóst við að Flint myndi hata Queen, þannig að hann kinkaði bara kolli af virðingu þegar hann sá Flint hinum megin við sviðið. En Flint hljóp beint til hans og grínaðist með að hneigja sig fyrir honum eins og í Wayne‘s World og „eyddi svo góðum fimm mínútum í að segja mér af mikilli hlýju frá því hvað hann elskaði tónlistina okkar mikið og hvað hún hefði veitt honum mikinn innblástur alla sína ævi“. May segir að hann hafi séð hann með öðrum augum eftir þetta og notið tónlistar The Prodigy ennþá meira fyrir vikið.

View this post on Instagram

Very sad to hear of the death of Keith Flint. I was backstage when Prodigy were playing a festival soon after ‘Firestarter’ came out. I was knocked out their records and the intensity of their show was awesome. But, feeling a lot of anger in Keith’s delivery, I somehow assumed he would hate us – Queen, etc. So I just nodded in respect when I saw him at the other side of the stage while the gear was being changed over. He ran straight over and did that Wayne’s World tongue in cheek bowing thing, and then spent a good five minutes telling me very warmly how much he loved our music and had been inspired by it in his life. After that, I perceived him very differently. And I enjoyed their records even more ! But that’s the only conversation we ever had. How horribly sad that he got to the point of taking his own life at an age when he was still so potent. A tragedy of modern life. RIP Keith. Bri

A post shared by Brian Harold May (@brianmayforreal) on

Gladdi aðdáendur með fötlun

Tónlistarmiðillinn NME gróf líka upp myndband af Flint frá árinu 2016 frá tónleikum The Prodigy á Qstock hátíðinni sem sýnir manngæsku hans. Þá klifraði Flint af sviðinu og yfir málmgirðingar til að komast til hóps fatlaðra aðdáenda sem voru á tónleikunum. Flint gaf þeim fimmur og faðmaði þá og þeim þótti athyglin ekki leiðinleg.

Í útvarpsþættinum Interstella var farið yfir tónlist og sögu The Prodigy .

Við minnum á netspjall Rauða krossins og Hjálparsímann 1717 fyrir alla sem glíma við andlega erfiðleika. Ekkert vandamál er of stórt eða lítið fyrir Hjálparsímann 1717 og netspjall Rauða krossins. Hægt er að hafa samband vegna alls þess sem þér liggur á hjarta og fá sálrænan stuðning, ráðgjöf, hlustun og upplýsingar um þau úrræði sem í boði eru í íslensku samfélagi. Fullum trúnaði og nafnleynd er heitið. 

Auglýsing

læk

Instagram