Auglýsing

Lögreglan á Norðurlandi eystra rannsakar líkamsárás á Akureyri sem tilraun til manndráps

Lögreglan á Norðurlandi eystra rannsakar nú tvær alvarlega líkamsárásir sem áttu sér stað seinnipartinn í gær, laugardaginn 3. nóvember. Önnur þeirra gerðist á Akureyri og er rannsökuð sem tilraun til manndráps þar sem hnífi var beitt eftir að áflog brutust út á milli tveggja manna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Vitni að atburðinum kölluðu til lögreglu en gerandinn yfirgaf vettvang áður en lögreglan kom að. Hann var handtekinn skömmu síðar. Þolandinn var fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri þar sem hann fór í aðgerð. Hann er ekki talinn í lífshættu.

„Vitni voru yfirheyrð í gærkvöldi og húsleit framkvæmd á dvalarstað geranda, þar sem blóðugur hnífur fannst falinn. Lögregla hefur þess að auki kallað eftir gögnum úr eftirlitsmyndavélakerfum í nærumhverfi brotavettvangs. Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir manninum á grundvelli almannahagsmuna síðar í dag,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Hin líkamsárásin átti sér stað á milli tveggja starfsmanna í vistarverum PCC á Bakka við Húsavík. Báðir aðilar voru fluttir með tveimur sjúkrabílum á Sjúkrahús Akureyrar. Þeir voru báðir handteknir eftir dvöl á sjúkrahúsi.

„Báðir mennirnir eru grunaðir um líkamsárás á hvorn annan, þar sem hættulegri verknaðaraðferð var beitt. Skýrslutökur af mönnunum eru fyrirhugaðar í dag. Ekki er búið að taka ákvarðanir um þvingunaraðgerðir á borð við gæsluvarðhald eða farbann,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Lögreglan getur ekki veitt frekari upplýsingar að svo komnu, en mun koma upplýsingum á framfæri síðar þegar rannsóknarhagsmunir leyfa og efni standa til.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing