Maðurinn í Eyjum grunaður um stórfellda líkamsárás og nauðgun, vitni lýsa skelfilegu ofbeldi

Maður sem er grunaður um stórfellda líkamsárás, hættubrot og kynferðisbrot gagnvart konu í Vestmannaeyjum aðfaranótt laugardags hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 24. september. Þetta kemur fram á Facebook-síðu lögreglunnar í Vestmannaeyjum.

Stundin greindi frá því að kona á fimmtugsaldri hefði verið flutt í skyndi með sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur á laugardagsmorgun. Samkvæmt heimildum Stundarinnar fannst konan meðvitundarlaus í húsagarði rétt hjá öldurhúsi í bænum. Konan er sögð hafa fundist nakin og með mikla áverka, meðal annars á höfði.

RÚV greinir frá því að maðurinn neiti sök. RÚV fjallar um greinargerð lögreglustjórans í Vestmannaeyjum um málið en þar er vísað í áverkavottorð læknis sem tók á móti konunni.

Þar kemur fram að hiti konunnar hafi mælst 35,3 gráður og að hún hafi verið með mikla áverka í andliti, svo mikla að hún hafi verið afmynduð í framan og getað opnað augun.

Í greinargerðinni kemur fram að vitni hafi verið vakandi heima hjá sér og heyrt öskur og grát í konu. Vitnið fór út í glugga og sá konuna liggja nakta á jörðinni og dökkklæddan mann standa yfir henni og ganga svo í burtu.

Annað vitni segist hafa komið að manninum þar sem hann hélt andliti konunnar ofan í steyptum öskubakka fyrir utan skemmtistað í bænum. Vitnuð segir konuna hafa verið á hnjánum og að maðurinn hafi haldið höndum hennar fyrir aftan bak. Vitnið segist hafa sagt manninum að láta konuna í friði.

Í frétt RÚV kemur fram að myndbandsupptökur séu til af átökum mannsins og konunnar og að þær sýni manninn ýta henni niður tröppur við inngang staðarins.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að maðurinn segist hafa verið að verja mann gegn meintum dólgslátum konunnar. Hann segist hafa haldið henni upp við vegg og þegar hún hafi sparkað í hann hafi hann sett konuna niður í keng og sleppt henni þegar dyraverðir komið að.  Hann segist hafa farið heim eftir það og hafnar því að hafa átt í frekari samskiptum við konuna.

Auglýsing

læk

Instagram