Miðlunartillaga ríkissáttasemjara samþykkt í deilu ljósmæðra

Auglýsing

Miðlunartillaga ríkissáttasemjara í máli Ljósmæðrafélags Íslands og Fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs var samþykkt með 95,1 prósent atkvæða Ljósmæðrafélagsins.

Fjármála og efnahagsráðherra samþykkti einnig miðlunartillöguna og því nýr kjarasamningur kominn á sem mun gilda til 31. mars 2019. Þetta kemur fram í frétt á vef Ríkissáttasemjara en Vísir greinir frá.

Alls voru 247 á kjörskrá hjá Ljósmæðrafélaginu en 224 greiddu atkvæði eða 91 prósent félagsmanna.

Kjaradeila ljósmæðra og ríkisins hefur varað lengi en ljósmæður höfðu verið samningslausar í tæpt ár eða síðan í ágúst á síðasta ári. Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara í febrúar og tókust samningar í lok maí en ljósmæður felldu hann í atkvæðagreiðslu í byrjun júní.

Auglýsing

Samningar náðust loksins síðastliðinn laugardag þegar samninganefndir samþykktu miðlunartillögu ríkissáttasemjara en ljósmæður höfðu verið í yfirvinnubanni síðan um miðjan júlí og tugir þeirra hafa sagt upp störfum.

Í frétt RÚV kemur fram að samninganefnd Ljósmæðrafélags Íslands hafi ekki vitað af niðurstöðum kosningarinnar og sagði Katrín Sif Sigurgeirsdóttir formaður samninganefndarinnar það setja punktinn yfir i-ið í samskiptum þeirra við ríkið.

Samninganefndin hafi haldið að það ætti að kynna þeim niðurstöðurnar klukkan tvö í dag og hún sé afar ósátt með að ríkissáttasemjari hafi birt niðurstöðurnar á vefsíðu sinni án þess að upplýsa samninganefndina um úrslitin.

Samkvæmt frétt Vísis felur miðlunartillagan í sér sambærilegar hækkanir og samningurinn frá því í maí en að gerðardómur skeri úr um það hvort og með hvaða hætti menntun, álag og inntak starfs ljósmæðra eigi að hafa frekari áhrif á launasetningu stéttarinnar. Um þá hluti ríki djúpstæður ágreiningur milli samningsaðila.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram