Auglýsing

Mikill meirihluti landsmanna segir #MeToo umræðuna jákvæða fyrir samfélagið

Mikill meirihluti landsmanna segir umræðuna um #MeToo hreyfinguna, sem hefur átt sér stað undanfarna mánuði, vera jákvæða fyrir íslenskt samfélag. Þetta eru niðurstöður könnunnar sem MMR framkvæmdi dagana 16. til 22. maí 2018.

Tæplega 71 prósent svarenda sögðu umræðuna vera jákvæða fyrir íslenskt samfélag og af þeim sögðu tæplega 37 prósent hana mjög jákvæða. Tæplega 13 prósent svarenda sögðu umræðuna neikvæða og af þeim sögðu fimm prósent hana vera mjög neikvæða en 17 prósent sögðu umræðuna hvorki jákvæða né neikvæða.

Nokkurn mun er að sjá á afstöðu kynjanna á málefninu en konur voru líklegri en karlar til að telja umræðuna jákvæða. 82 prósent kvenna voru þeirrar skoðun en 60 prósent karla. Þar af taldi nær helmingur kvenna eða 46 prósent umræðuna mjög jákvæða fyrir íslensk samfélag en aðeins rúmlega fjórðungur karla eða 27 prósent.

Karlar voru hins vegar mun líklegri en konur til að telja umræðuna neikvæða en um 18 prósent karla voru þeirrar skoðunar en aðeins 7 prósent kvenna. Átta prósent karla töldu umræðuna mjög neikvæða fyrir samfélagið.

Sé litið til aldurs svarenda sést að jákvæðni gagnvart umræðunni var mest hjá yngsta (75 prósent) og elsta aldurshópnum (76 prósent). Svarendur á aldrinum 18 til 29 ára voru líklegri en aðrir til að telja umræðuna mjög jákvæða en 45 prósent þeirra voru á þeirri skoðun.

Þeir sem voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu voru líklegri til að segjast jákvæðir gagnvart umræðunni heldur en þeir af landsbyggðinni. Jákvæðni gagnvart #MeToo umræðunni jókst einnig með aukinni menntun og heimilistekjum.

Einnig mátti sjá talsverðan mun á afstöðu svarenda eftir stjórnmálaskoðun þeirra. Stuðningsfólk Samfylkingarinnar og Vinstri grænna voru líklegust allra til að telja umræðuna jákvæða eða annars vegar 87 prósent og hins vegar 91 prósent. Þar af sögðu 56 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar og 53 prósent stuðningsfólks Vinstri grænna umræðuna mjög jákvæða.

Stuðningsfólk Miðflokksins (32 prósent), Sjálfstæðisflokksins (22 prósent) og Flokks fólksins (16 prósent) var hins vegar líklegast til að telja umræðuna neikvæða fyrir samfélagið en tæp 17 prósent stuðningsfólks Miðflokksins sögðu umræðuna mjög neikvæða.

Könnunin var framkvæmd dagana 16. til 22. maí og var heildarfjöldi svarenda 929 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing