MS notaði gríska ímynd til að selja fetaost en sakar Arla um að stela íslenskri ímynd til að selja skyr

Mjólkursamsalan skýtur föstum skotum á danska mjólkurrisann Arla í nýrri auglýsingu sem var birt á Youtube í gær. Auglýsingin birtist í kjölfarið á því að Arla tengir skyr sitt við Ísland í breskum auglýsingum sem hafa vakið talsverða athygli.

Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá MS, hefur gagnrýnt Arla fyrir auglýsingarnar og sagði viðtali í Reykjavík síðdegis á dögunum að það væri „púkalegt af Arla að stela íslenskri ímynd í hagnaðarskyni.“

Það sem þeir gerðu nýtt í Bretlandi sem okkur finnst svolítið sérstakt er þessi sterka Íslandstenging í auglýsingunni þar sem þeir gefa hálfpartinn í skyn að varan sé frá Íslandi.

Þetta skýtur skökku við það sem MS gerði nákvæmlega það sama og Arla árið 2008 í markaðssetningu á fetaosti.

MS notaði tengingu við Grikkland, upprunaland fetaostsins, í auglýsingunum. Hinn gríski Stepaponopolis var í aðalhlutverki og slagorðið var: „Komdu smá Grikkja í þig.“

Auglýsinguna má sjá hér fyrir neðan.

Í auglýsingunni eru grískar súlur í íslenskri sveit og talað er um að fetaosturinn sé gömul, grísk fjölskylduuppskrift. Á gamansaman hátt þó, rétt eins og húmorinn í forgrunni í auglýsingum Arla.

Jón Axel sagði í Reykjavík síðdegis að það væri „fúlt að þeir [Arla] ætli að stela íslensku náttúrunni, íslensku ímynd sem þeir eiga ekkert með að gera.“

Eitthvað sem Mjólkursamsalan gerði sjálf árið 2008.

Auglýsing

læk

Instagram