Netflix vill halda áfram framleiðslu á Master of None þrátt fyrir að Aziz Ansari hafi verið ásakaður um kynferðislega áreitni

Auglýsing

Netflix vill halda áfram framleiðslu á þáttum grínistans og leikarans Aziz Ansari „Master of None“ en hann var ásakaður um kynferðislega áreitni í byrjun þessa árs. Aðstoðarforstjóri framleiðslu hjá Netflix, Cindy Holland, staðfesti þetta á árlegum fjölmiðlafundi samtaka sjónvarpsgagnrýnenda, Television Critics Association.

„Við höfum velt þessu fyrir okkur lengi og myndum glöð vilja gera aðra þáttaröð af „Master of None“ með Aziz,“ sagði Holland þegar hún var spurt hvort Netflix myndi vilja halda áfram að framleiða þættina.

Sjá einnig: Aziz Ansari sakaður um kynferðisofbeldi á stefnumóti

Þetta er í fyrsta skipti sem framleiðslurisinn lýsir yfir stuðningi við Ansari en hann var í janúar sakaður um kynferðislega áreitni í langri grein sem birtist á vefsíðunni Babe.net. Þar sagði kona frá því þegar hún fór á stefnumót með Ansari sem hún lýsir sem „versta kvöldi lífs míns.“ Konan, sem er kölluð „Grace“ í greininni, lýsir því þegar hún hitti grínistan í veislu eftir Emmy-verðlaunahátíðina þar sem Ansari vann verðlaun fyrir „Master of None“ en hann er höfundur þáttanna vinsælu. Þau skiptust á símanúmerum og fóru saman á stefnumót viku síðar.

Auglýsing

Stefnumótið byrjaði eðlilega en þróaðist til verri vegar þegar þau komu í íbúð Ansari eftir að hafa farið út að borða. Þar hafi hann verið ágengur við hana og suðað í henni að stunda með sér kynlíf. Hún hafi samþykkt það því henni fannst vera pressa á henni að gera það en eftir á hafi henni liðið illa.

Sjá einnig: Aziz Ansari sendir frá sér yfirlýsingu eftir að hafa verið sakaður um kynferðisofbeldi á stefnumóti

Í yfirlýsingu eftir að greinin kom út staðfesti Ansari að þau hafi stundað kynlíf en hann hafi haldið að það hafi verið með fullu samþykki hennar. Hann hafi ekki áttað sig á því að að hún hafi ekki viljað það og baðst afsökunar í kjölfarið. Hann sagðist að lokum áfram styðja þá endurskoðun sem samfélagið sé í og á þar við metoo-byltinguna en hann er yfirlýstur femínisti.

Síðan í janúar hefur Ansari látið lítið fyrir sér fara opinberlega og eins og áður sagði hefur Netflix ekki tjáð sig um málið fyrr en nú. Holland sagðist á fjölmiðlafundinum ekki hafa talað við Ansari eftir að greinin birtist í janúar en að vilji sé fyrir því að halda áfram framleiðslu á þáttunum hans.

Stutt er síðan Netflix rak Kevin Spacey úr þáttunum House of Cards eftir að leikarinn var ásakaður um kynferðislega áreitni gegn ungum drengjum sem virtist hafa viðgengist svo árum skipti.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram