Auglýsing

Óveðrið skellur á í dag: Gangið frá lausamunum, forðist tjón og sýnið aðgát!

Óveðrinu sem Veðurstofa Íslands spáði og varaði við í gær er sagt ganga yfir landið í dag. Samkvæmt upplýsingum frá veðurstofunni er spáð norðan 10-18 metrum á sekúndu, hvassast nyrst og vestast á svæðinu. Þá segir að búast megi við snörpum vindhviðum á Kjalarnesi.

„Lausamunir geta fokið, fólk er hvatt til að sýna aðgát og ganga frá lausum munum til að forðast tjón,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands sem ætlað er íbúum höfuðborgarsvæðisins.

Ef litið er á veðurhorfur á öðrum stöðum á landinu þá kemur í ljós að þær eru ekkert skárri. Norðan og norðvestan 13-23 í dag og á morgun, hvassast austantil. Slydda eða rigning nærri sjávarmáli fyrir norðan og austan, annars snjókoma. Hiti 0 til 4 stig. Úrkomulítið sunnantil og við vesturströndina með hita að 9 stigum yfir daginn.

Hugleiðingar veðurfræðings

Djúp lægð norðaustur af landinu beinir til okkar kaldri norðlægri átt og nú síðdegis fer veður ört versnandi á Norður- og Austurlandi. Í kvöld má búast við norðvestan hvassviðri eða stormi á þeim slóðum með slyddu eða snjókomu.

Ekki er útlit fyrir mikilli breytingu í veðri næstu daga, norðan óveður á landinu með ýmist rigningu, slyddu eða snjókomu norðan- og austanlands, en lengst af úrkomulítið sunnantil. Hiti frá frostmarki norðanlands að 10 stigum syðst.

Samkvæmt nýjustu spám mun veðrið standa fram á aðfaranótt föstudags, en skánar þá talsvert gangi spár eftir.

Gefnar hafa verið út viðvaranir og þeir sem eiga eitthvað undir veðri eru hvattir til að kynna sér þær og fylgjast vel með veðurspám og veðurathugunum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing