Óvíst hvort Rita Ora komi fram á Secret Solstice: „Þetta er bara ömurlegt“

Tónlistarkonan Rita Ora hefur verið auglýst sem eitt stærsta nafn Secret Solstice hátíðarinnar í ár en nú er óvíst hvort hún muni koma fram á hátíðinni vegna veikinda. Aðstandendur hátíðarinnar fréttu nýlega af veikindum söngkonunnar en nafn hennar er enn hluti af auglýsingum fyrir hátíðina. Þetta kemur fram á vef DV í dag.

Sjá einnig: Töluverð breyting á fyrirkomulagi Secret Solstice – Strangari reglur

Jón Bjarni Steinsson, fjölmiðlafulltrúi Secret Solstice, segir í samtali við DV að enn sé ekki útilokað að söngkonan komi fram á hátíðinni og að engin formleg tilkynning hafi borist frá fulltrúum hennar um að hún muni ekki koma fram. Í morgun birtist auglýsing á Facebook-síðu hátíðarinnar þar sem Rita Ora er enn auglýst sem atriði á hátíðinni.

Aðspurður hvort honum finnist hátíðin vera að selja miða undir fölsku flaggi, segir Jón Bjarni í svari sínu til DV að þau hafi bara verið að fá upplýsingarnar sjálf og séu að bíða eftir yfirlýsingu frá henni.

„Við ætlum að láta vita bara í dag. Þetta er bara ömurlegt, við vildum helst láta vita hver kæmi í staðinn á sama tíma,“ segir hann. Nú eru í gangi viðræður við aðra tónlistarmenn sem gætu komið í stað hennar.

 

Auglýsing

læk

Instagram