today-is-a-good-day

Rætist úr veðri víðast hvar á landinu um Verslunarmannahelgina

Veðurútlit fyrir Verslunarmannahelgina er ágætt ef marka má veðurspá fyrir vikuna. Milt veður verður í vikunni en á föstudag kemur lægð að landinu úr vestri með sunnanátt og vætu en hún á að vera komin austur yfir landið á laugardag. Líkur eru á því að það rætist úr veðri víðast hvar á landinu um helgina.

Daníel Þorláksson veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir í samtali við Vísi að spáin sé ekki orðin fastnegld en útlit sé fyrir rigningu með köflum um mest allt land en þó síst norðaustantil á föstudeginum. Á laugardaginn verði stöku skúrir Norðanlands en það stytti upp fyrir sunnan. Á sunnudag og mánudag er gert ráð fyrir hægum vindi og björtu veðri um mest allt land, allavega eins og spáin líti út núna.

Samkvæmt veðurhorfum næstu daga á vefsíðu Veðurstofu Íslands verður suðvestan fimm til 10 og rigning með köflum á föstudag en úrkomulítið norðaustantil. Hiti verður 10 til 15 stig en á laugardag og sunnudag verður hæg norðlægt eða breytileg átt og bjart verður með köflum. Stöku skúrir verða norðanlands og hiti frá 10 að 17 stigum að deginum og hlýjast verður sunnantil.

Fjölmargar útihátíðir verða um Verslunarmannahelgina, meðal annars Neistaflug á Neskaupstað, Mýrarboltinn á Ísafirði, Innipúkinn í Reykjavík, Sæludagar í Vatnaskógi, Flúðir um Versló, Ein með öllu á Akureyri og Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.

Auglýsing

læk

Instagram