Samfés breytir sexting-myndbandinu: „Ætlunin var ekki að skella skuldinni á fórnarlömb“

Áherslur í myndbandi sem Samfés, samtök félagsmiðstöðva á Íslandi, birtu á Facebook voru gagnrýnd af ýmsum í dag. Myndbandið fjallar um sexting og var áhersla lögð á að þau sem senda slíkar myndir frá sér í stað þeirra sem dreifa myndunum í leyfisleysi.

Sexting er þegar send eru skilaboð eða mynd sem gefur eitthvað kynferðislegt til kynna. Victor Berg Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samfés, segir að myndbandinu verði breytt og að ætlunin hafi ekki verið að skella skuldinni á brotaþola.

Sjá einnig: Áherslur í myndbandi Samfés gagnrýndar: „Það er ekki sá sem sendir myndina sem á að skammast sín“

Victor segir að dreifing á kynferðislegu efni sé grafalvarlegt mál og geti verið brot á hegningarlögum. „Mikilvægt er að ungt fólk geri sér grein fyrir því,“ segir hann.

„Með myndbandinu var ekki ætlunin að skella skuldinni á fórnarlömb heldur vekja áhorfendur til umhugsunar í byrjun hvers námskeiðs. Við hjá Samfés erum þakklát fyrir allar ábendingar og tökum þær alvarlega og munum bregðast við með því að breyta áherslum í myndbandinu.“

Hann segir að í ljósi þess að kynferðisleg skilaboð hafi verið talsvert til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarna daga hafi Samfés deilt myndbandi sem er hluti af jafningjafræðslunámskeiði sem Ungmennaráð Samfés hefur undirbúið og hefur farið fram í fjölmörgum félagsmiðstöðvum landsins.

Hann segir að myndbandið sé inngangurinn að rúmlega þriggja klukkustunda jafningjafræðslunámskeiði, þar sem ungt fólk fræðir ungt fólk og er byggt upp á fræðslu, umræðum og leikjum.

Á námskeiðinu fá þátttakendur tækifæri til að setja sig í spor annarra og tjá skoðanir sínar með rökstuðningi og ungmennaráð leggur ríka áherslu á að ræða málefnið hlutlaust og án fordóma.

Hann segir umræðuspurningar fylgja myndbandinu á námskeiðinu og að myndbandinu hafi því aldrei verið ætlað að segja alla söguna.

„Í umræðunum er einmitt farið ríkulega ofan í þetta að sá sem áframsendir efni er sá sem er í leyfisleysi. Í handbók fyrir jafningjafræðslunámskeiðið, sem er samtals 14 bls., eru skilaboðin einmitt skýr strax í inngangi: „Það má þó að gefnu tilefni nefna að sá sem sendir mynd á einstakling sem hann treystir er ekki sekur ef myndin kemst í dreifingu. Sá sem dreifir er alltaf sá sem á sökina.“

 

Auglýsing

læk

Instagram