Sex ára barn lést í íbúð á Nýbýlavegi í morgun: Kona handtekin og í haldi lögreglu – Faðir drengsins harmi sleginn

Andlát sex ára barns í Kópavogi er til rannsóknar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en tilkynning um málið barst embættinu um hálfáttaleytið í morgun.

Lögreglan hélt þegar á vettvang, en barnið var látið þegar að var komið. Einn einstaklingur er í haldi vegna málsins.

„Rannsókn málsins er á frumstigi og ekki verða veittar frekari upplýsingar að svo stöddu,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Fréttin verður uppfærð.

Uppfært 15:18: DV greindi frá lögregluaðgerð sem átti sér stað fyrir framan íbúðahús við Nýbýlaveg í Kópavogi um hálfáttaleytið í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá heimildarmanni DV voru sex lögreglubílar á vettvangi, fjórir ómerktir og tveir merktir, og vettvangur var innsiglaður með gulum borða.

Málið fór fljótt inn á borð rannsóknarsviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Fulltrúi hjá lögreglustöð 3 sagðist í samtali við miðilinn ekki hafa upplýsingar um málið.

DV náði sambandi við Grím Grímsson hjá rannsóknarsviði sem sagði: „Ég ætla ekki að fara neitt út í það hvað þarna er á ferðinni. En það er mál sem tengist Nýbýlavegi. Það er ekkert sem ég vil segja á þessari stundu um það.“

Uppfært 15:20: Í samtali við fréttastofu Vísis staðfestir Eiríkur Valberg, lögreglufulltrúi hjá miðlægri deild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, að umfangsmiklar aðgerðir hafi átt sér stað um klukkan átta í morgun. Hann segist í samtali við miðilinn ekkert geta gefið upp um hvers konar aðgerðir var að ræða en málið sé afar viðkvæmt og miklir rannsóknarhagsmunir undir.

Uppfært 16:21: Kona er í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt fréttastofu RÚV og mun hún gangast undir geðmat í dag.

Uppfært 18:40: DV greinir frá því að harmi sleginn faðir drengsins hafi birt kveðju til látins sonar síns á samfélagsmiðlum í dag þar sem hann bað æðri máttavöld um að miskunna syni sínum. Faðirinn er skráður til heimilis í húsinu. Hann er rétt tæplega fimmtugur að aldri að sögn DV.

Auglýsing

læk

Instagram