Sjaldgæfasta plata Íslandssögunnar fannst fyrir tilviljun

Prufuútgáfa af plötunni Geislavirkir með Utangarðsmönnum á ensku fannst á skransölu á Skemmuvegi á dögunum. Það er því um að ræða plötuna Radioactive með The Outsiders. Platan kom aldrei út en dr. Gunni segir frá þessum sögulega fundi á bloggsíðu sinni.

Dr. Gunni kallar plötuna sjaldgæfustu plötu Íslandssögunnar og segir á blogginu að um sögulegan fund sé að ræða, enda kom platan aldrei út:

Steinar Berg reyndi á sínum tíma að koma þessu út hjá CBS og kannski fleiri merkjum, en ég vissi ekki að það hafi farið svo langt að platan væri skorin í prufuplast.

Platan er svokölluð „test pressa“ sem Gunni segir að sé nokkuð velþekkt fyrirbæri meðal plötu-safnara.

„Þetta eru prufu-plötur sem eru það fyrsta sem kemur úr vinýl-pressum. Oftast með hvítum miða og ekki í umslagi, heldur bara plein hvítum poka,“ segir hann.

„Dularfullu plöturnar úr Notað og nýtt eru einmitt í hvítum „nærbuxum“. Þær virðist hafa komið til Íslands með einhverjum frá Svíþjóð því önnur þeirra er merkt „Provskiva fran Grammoplast Spanga 08/761 7060″ – sem sagt plöturnar eiga uppruna sinn í Grammoplast plötupressunni í Spanga, sem er úthverfi í Stokkhólmi.“

Hin platan sem fannst er einnig sjaldgæf: As Above með Þey – enska útgáfan sem kom út hjá enska smámerkinu Shout 1982. Þetta er hins vegar test pressa af sænskri útgáfu sem kom aldrei út.

Plöturnar seljast hæstbjóðanda. Nánari upplýsingar og Hiroshima með Utangarðsmönnum á ensku má finna á bloggi dr. Gunna.

Auglýsing

læk

Instagram