Skuldinni skellt á ranga menn: „Vinnslustöðin stóð sig ekki í viðhaldinu“

Bilun í vélbúnaði olli því að akkeri Hugins frá Vestmannaeyjum seig niður og stórskemmdi ljósleiðara Vodafone og vatnslögn Eyjamanna föstudagskvöldið 17. nóvember en ekki mannleg mistök. Þetta fullyrða heimildarmenn Nútímans. Skipið var að koma að innsiglingunni við höfnina í Vestmannaeyjum þegar það stöðvaðist skyndilega. Við það snérist skipið og stefndi í átt að fjöru og mátti litlu muna að það hefði strandað. Samkvæmt sömu heimildum má þakka snörum handtökum þeirra sem í brúnni stóðu að ekki fór verr.

„Þetta er augljóslega gert til þess að fría Vinnslustöðina af allri ábyrgð.“

Það fer ekki heim og saman með frétt Morgunblaðsins en heimildir miðilsins hermdu að röð mistaka hafi átt sér stað með fyrrgreindum afleiðingum. Því ber að halda til haga að Morgunblaðið hefur verið þekkt fyrir að stunda hagsmunagæslu fyrir kvótagreifa á Íslandi. Því ættu þessar „heimildir“ Morgunblaðsins ekki að koma á óvart.

Heimildarmenn Nútímans segja uppsögn skipstjóra og stýrimanns Hugins VE, í kjölfar óhappsins, með algjörum ólíkindum. Þarna liggi annarlegar ástæður að baki.

Ekki staðið sig í viðhaldi lengi

„Skuldinni er skellt á þessa tvo menn sem hafa hingað til staðið sig frábærlega þegar það kemur að stjórnun skipsins og veiðum á því ef út í það er farið. Þetta er augljóslega gert til þess að fría Vinnslustöðina af allri ábyrgð. Ábyrgðin er hinsvegar fyrirtækisins. Vinnslustöðin stóð sig ekki í viðhaldinu og hefur ekki staðið sig í viðhaldi sinna skipa um langa hríð. Það er engum blöðum um það að fletta og það vita allir sjómenn sem þekkja skip fyrirtækisins,“ segir einn heimildarmaður Nútímans sem benti á ástand Ísleifs VE máli sínu til stuðnings.

„Hvernig stendur á því að Huginn er eins og nýtt skip en Ísleif á að rífa í brotajárn?“

„Huginn og Ísleifur eru smíðaðir á sama tíma, á sama stað og með sama stálinu en nú er í pípunum að dæma Ísleif ónýtan. Af hverju ætli það sé? Hvernig stendur á því að Huginn er eins og nýtt skip en Ísleif á að rífa í brotajárn?“

Hér sést hinn gríðarlegi munur á ástandi skipanna Hugins og Ísleifs. SAMSETT MYND / Huginn: Eyjar.net – Ísleifur: Jói Myndó

Byrjaði að síga á leiðinni í höfn

Þá segja heimildarmenn Nútímans að akkeri Hugins hafi byrjað að síga þegar skipið sigldi með fullfermi af Kolmunna til Vestmannaeyja. Enginn hafi þó tekið eftir því þar sem spilið á skipinu á að halda því uppi og bremsan á spilinu eigi að virka – það hafi augljóslega ekki virkað í þessu tilfelli. Það sé ekki við skipstjóra og stýrimann skipsins að sakast heldur Vinnslustöðina. Hún beri ábyrgð á ástandi skipsins.

„…þeir ættu í raun og veru að fá mikið hrós fyrir að afstýra enn frekari hörmungum sem hefði þá verið strand í fjörunni við Vestmannaeyjar.“

„Auðvitað reyna menn að klína þessu á þá sem stjórna skipinu. Þeir taka fallið á meðan þeir ættu í raun og veru að fá mikið hrós fyrir að afstýra enn frekari hörmungum sem hefði þá verið strand í fjörunni við Vestmannaeyjar.“

Útgerðin Huginn seldi skipið til Vinnslustöðvarinnar árið 2021 en þeir höfðu átt rúman 40% hlut í félaginu sem gerði það út. Meirihlutann áttu systkini frá Vestmannaeyjum – Gylfi Viðar, Guðmundur Huginn, Páll Þór og Bryndís Anna Guðmundsbörn. Salan á félaginu sem átti Huginn þýddi þó ekki að þau systkini lyku afskiptum sínum af skipinu með öllu. Gylfi Viðar og Guðmundur Ingi, sonur Guðmundar Hugins, voru skipstjóri og stýrimaður í brúnni daginn örlagaríka. Þeir standa uppi með stöðu sakbornings í dag.

Fullkomið tækifæri til að slíta tengsl

Heimildarmenn Nútímans segja að það hafi lengi staðið til hjá Vinnslustöðinni að slíta öll tengsl við fjölskylduna og að óhappið í innsiglingunni í Vestmannaeyjum hafi verið hið fullkomna tækifæri til þess.

Miklar skemmdir urðu á vatnslögn Eyjamanna við óhappið.

„Auðvitað nýttu þeir sér tækifærið,“ segir einn heimildarmaður Nútímans og tekur fram að margir Eyjamenn hafi vitað um ósættið á milli fyrirtækisins og fjölskyldunnar, sem eitt sinn átti meirihlutann í þessu tignarlega skipi.

„Auðvitað var hann að ljúga því. Það sér hver maður.“

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, fullyrti það hinsvegar í samtali við Vísi að uppsögnin kæmi ekki til vegna þess að verið væri að losa sig við síðustu leifar Huginsmanna: „Nei, það er ekkert til í því. Það er ekki svoleiðis.“

„Meira helvítis bullið“

Heimildarmenn Nútímans eru því ósammála en einn þeirra orðaði það svona:

„Auðvitað var hann að ljúga því. Það sér hver maður. Ég veit ekki hvern hann Sigurgeir Brynjar hélt að hann væri að plata. Þetta hörmulega óhapp gerist og þeir fá reisupassann korteri eftir það? Meira helvítis bullið. Það hafa ekki einu sinni farið fram sjópróf. Þeir vita ekkert hvað gerðist. Út í hött.“

„…þá mun þetta springa í andlitið á Vinnslustöðinni.“

Fyrirtaka í málinu mun fara fram í desember og sjópróf í janúar en þá mun sannleikurinn líta dagsins ljós – sannleikurinn um það hvað gerðist um borð í Huginn þetta örlagaríka föstudagskvöld.

„Já, þá mun þetta springa í andlitið á Vinnslustöðinni. Ég er sannfærður um það,“ segir heimildarmaður Nútímans.

Auglýsing

læk

Instagram