Sónar slítur samstarfinu við Björn Steinbekk

Tónlistarhátíðin Sónar og móðurfélag þess, Advanced Music SL, hafa slitið samstarfssamningi við fyrirtækið Sónar Reykjavík ehf. sem athafnamaðurinn Björn Steinbekk er í forsvari fyrir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hátíðinni.

Björn Steinbekk seldi fjölmörgum Íslendingum miða á leiki á EM í fótbolta í Frakklandi. Margir sem keyptu miða á leik Íslands gegn Frakklandi fengu miðana afhenta eftir að leikurinn hófst eða alls ekki.

Síðar kom í ljós að Björn bað þau sem keyptu miða af honum greiða inn á reikning Sónar Reykjavík. Björn hefur nú verið kærður til lögreglu.

Í tilkynningunni frá hátíðinni kemur fram að Björn hafi engin tengsl lengur við Sónar Festival eða vörumerkið Sónar. Þá sver hátíðin af sér öll tengsl við viðskiptahætti Björns.

Stefnt er að því að halda Sónar í Reykjavík á næsta ári og unnið er nú að því að tryggja framtíð hátíðarinnar hér á landi. Loks kemur fram í tilkynningunni að þau sem eiga miða á hátíðina á næsta ári þurfi ekkert að óttast. Miðarnir eru í gildi.

Auglýsing

læk

Instagram