Steinunn Ólína um æfingarnar í kvennafangelsinu í Kópavogi: „Beinlínis skelfilegt að koma þarna inn“

Leikkonan Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir segir í færslu á Facebook að það hafi verið skelfilegt að koma inn í kvennafangelsið í Kópavogi og spyr hvaða skipulagsfræðingi hafi dottið staðsetningin í hug.

Sjá einnig: Twitter kallar eftir annarri seríu af Föngum, áhorfendur tengdu nautahakkið við Sigmund Davíð

Steinunn Ólína fór á kostum í Föngum á RÚV en lokaþátturinn var á dagskrá í gærkvöldi. Kvennafangelsinu í Kópavogi var lokað í maí árið 2015 en konur afplána núna í nýja fangelsinu á Hólmsheiði. Steinunn rifjar upp stundirnar í kvennafangelsinu þegar æfingar á Föngum stóðu yfir.

„Það var beinlínis skelfilegt að koma þarna inn og vita til þess að aðeins fáeinum mánuðum áður hafði fólk búið þarna mánuðum og árum saman – í þessu viðbjóðslega niðurgrotnaða húsi, þar sem sorgin og sársaukinn lak af veggjunum og harmurinn lá yfir öllu. Mannabústaður – langt í frá,“ segir Steinunn Ólína.

Að koma inn í ógeðslega skítuga og fábrotna klefana og horfa út um gluggana, á einbýlishúsin handan götunnar, bíla sem í voru manneskjur sem maður stundum þekkti, gangbraut með hjólreiðafólki og gangandi vegfarendum aðeins 20-30 metra handan glersins.

Steinunn Ólína spyr hvaða skipulagssérfræðingi datt í hug að þetta hús hentaði föngum en fangelsið var staðsett við hliðina á barnaheimli.  „Þar sem barnskliður ómar alla daga og með útsýni yfir Líknardeildina, áfangastað okkar allra,“ segir hún.

„Með ólíkindum mikill skepnuskapur eða/og alvarlegt dómgreindarleysi. Megi Kvennafangelsið í Kópavogi fá það hlutverk að segja sögur jaðarsettra einstaklinga á Íslandi áfram í meiri FÖNGUM – ef ekki ætti að jafna þennan viðbjóðshjall við jörðu.“

Auglýsing

læk

Instagram