Susy vildi ekki vera allsber í sturtu í sundi og fékk að heyra það: „Afsakaðu, en hversu dónalegt!?“

Lesendabréf í Grapevine frá konu í Kansas hefur vakið talsverða athygli. Konan sem kallar sig Susy segist vera nýkominn úr dásamlegri ferð til Íslands fyrir utan eitt átakanlegt augnablik: Hún var skömmuð fyrir að vera ekki allsber í sturtu í sundi.

„Þegar ég fór í sund og var elt uppi af í sturtunni af verði sem lét mig heyra það fyrir að vera ekki allsber,“ skrifar hún. „Afsakaðu, en hversu dónalegt!? Þetta myndi aldrei gerast í Bandaríkjunum. Ég stjórna líkama mínum og ákveð hverjum ég sýni hann. Kannski ættuð þið að taka meira tillit til ferðamanna og koma betur fram við þá, þar sem þið þurfið eiginlega að reiða ykkur á okkur.“

Valur Grettisson, ritstjóri Grapevine, segir á Facebook-síðu sinni algengt að lesendur blaðsins kvarti undan reglunum. „Það er raunar skemmtilegt að segja frá því að Grapevine fær ótrúlega oft pósta frá ólíklegasta fólki utan úr heimi,“ segir hann.

Og fjölmargir þeirra sem senda okkur bréf eru mjög viðkvæmir fyrir nektinni í sundlaugunum.

Markaðsátakið Inspired By Iceland setti í fyrra fjögur kennslumyndbönd á Youtube þar sem erlendum ferðamönnum er meðal annars kennt að þrífa sig áður en þeir fara í sund. Myndbandið er hluti af Iceland Academy þar sem ferðamönnum er kennt að umgangast land og þjóð á skemmtilegan hátt.

Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason tekur málið upp á bloggi sínu og segir að útlendingar megi vita að Íslendingar gefi sig ekki fyrr en í fulla hnefana með nektina í sturtunum.

„Þar skulu allir vera allsberir, háir og lágir, feitir og mjóir, konur og karlar – enginn kemst undan. Þetta er eitt af því sem gerir okkur að Íslendingum, stór þáttur í þjóðarkarakter okkar. Þótt kannski væri ekki stórkostleg hætta á ferðum þótt sett væru upp snyrtileg hengi sumsstaðar, svona fyrir hina ofurviðkvæmu,“ skrifar hann.

Auglýsing

læk

Instagram