Sveitarfélag á suðurlandi hótar að drepa hunda í haldi

Tveimur hundum var í dag bjargað úr klóm Sveitarfélagsins Grímsnes- og Grafningshrepps og þar með úr bráðum lífsháska, þegar eigendur þeirra sóttu þá til hundafangara sveitarfélagsins. Sveitarfélagið setti á facebook síðu sína í dag færslu þar sem lýst er eftir eigendum hundanna tveggja og gaf sveitarstjórnin eigendum hundanna frest til 15. júlí til að vitja dýranna, að öðrum kosti yrðu hundarnir aflífaðir.

Með textanum, sem útlistaði möguleg örlög hundanna, voru settar myndir af þeim sem óhætt er að segja að séu í allra minnsta lagi ótrúlega krúttlegar.

Eins og gefur að skilja voru athugasemdir við færsluna margar og augljóst að þetta fór illilega fyrir brjóstið á flestum. Margir biðluðu til Dýrahjálpar að koma hundunum til bjargar og aðrir bentu á að báðir hundar hafi borið ólar um hálsinn þar sem hægt hafi verið að sjá símanúmer eigenda. Sumir tóku jafnvel svo djúpt í árinni að réttara væri að aflífa starfsmenn sveitarfélagsins.

Í athugasemd sem skrifuð er í nafni sveitarfélagsins á umræddum þræði er tekið fram að hundarnir hafi „oftar en ekki gengið lausir í sveitarfélaginu“ og oft hafi verið kvartað yfir þeim.

Í frétt Vísis um málið kemur fram að blessunarlega hafi hundarnir verið sóttir eftir að færslan birtist.

Auglýsing

læk

Instagram