Þrúgandi andrúmsloft hjá 365, bakvið tjöldin í stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins

Þegar Kristín Þorsteinsdóttir, yfirritstjóri 365, boðaði til starfsmannafundar síðasta föstudag bjóst hún væntanlega ekki við atburðarásinni sem fór stað í kjölfarið. Nútíminn sagði frá fundinum sem var boðaður eftir að Pjetri Sigurðssyni, yfirmanni ljósmyndadeildar fyrirtækisins, var sagt upp störfum.

Starfsmenn 365 sendu frá sér yfirlýsingu í dag þar sem yfirstjórn fyrirtækisins var harðlega gagnrýnd fyrir hvernig staðið var að uppsögn Pjeturs. Hann hefur þriggja áratuga reynslu sem blaðaljósmyndari — þar af þrettán ára starfsferil hjá Fréttablaðinu og Vísi. Í yfirlýsingu starfsmanna kom fram að hann eigi að baki farsælan feril og að hann hafi reynst góður samstarfsmaður.

Pjetur hafði verið í leyfi frá störfum um margra mánaða skeið eftir að hafa kvartað undan einelti Kristínar Þorsteinsdóttur, aðalritstjóra fyrirtækisins. Fréttatíminn greindi fyrst frá eineltismálinu í maí. Þá kom fram að mannauðsstjóri 365 hafi sett í gang formlega athugun eftir að Pjetur kvartaði undan meintu einelti Kristínar. Fréttatíminn greindi síðar frá því að mannauðsstjórinn hafi látið af störfum hjá fyrirtækinu.

Yfirlýsing starfsmanna var afdráttarlaus. Þar var uppsögn Pjeturs mótmælt harðlega ásamt því að „óásættanleg vinnubrögð“ aðalritstjóra og yfirstjórnar í aðdraganda uppsagnar hans og við kynningu á henni til samstarfsmanna var hörmuð.

Við beinum því til stjórnar og stjórnenda 365 að tryggja að slík framganga, sem grefur undan faglegum grunni og trúverðugleika fréttastofunnar, geti ekki endurtekið sig.

Loks telja starfsmenn að öll meðferð málsins hafi skaðað alvarlega það traust sem þeir segja að verði að ríkja innan ritstjórnarinnar.

Starfsmenn sem Nútíminn ræddi við í dag tala um að stemningin hafi verið skrýtin á 365 í kjölfar yfirlýsingarinnar og andrúmsloftið þrúgandi. Heimildir Nútímans herma að Jón Ásgeir Jóhannesson, sem sést ekki oft á svæðinu, hafi strunsað um ganga fyrirtækisins í símanum.

Enginn af heimildarmönnum Nútímans vildi láta nafns síns getið.

Skömmu eftir hádegi bárust svo fréttir af því að Fanney Birna Jónsdóttir, aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, hafi sagt upp störfum. Í samtali við Kjarnann vildi hún ekkert tjá sig um málið.

Blaðamaðurinn Jón Hákon Halldórsson sendi yfirlýsinguna fyrir hönd starfsmanna Fréttablaðsins og Vísis. Yfirlýsingin var samþykkt einróma á fundi starfsmanna á mánudagskvöld. Samkvæmt heimildum Nútímans var hann kallaður á teppið hjá helstu stjórnendum 365 í dag.

Dagurinn endaði svo á því að Ingibjörg Pálmadóttir, stjórnarformaður og aðaleigandi 365, sendi starfsmönnum bréf þar sem hún sagði 365 eins og önnur fyr­ir­tæki standa oft frammi fyrir því að þurfa að segja upp starfs­mönn­um. Kjarninn birtir bréfið.

„Að baki því kunna að liggja ýmsar ástæður hverju sinni. Í til­felli Pjet­urs var uppi fag­legur ágrein­ingur milli und­ir­manns og yfirmanns, sem endaði með uppsögn,“ segir hún.

„Slíkt ger­ist því miður í öllum fyr­ir­tækjum hvar sem er í heim­inum og er alltaf erfitt. Eigendur og yfirstjórn 365 hafa aðeins eitt að markmiði að standa að vandaðri fjölmiðlum og afþreyingu og reka gott fyr­ir­tæki.“

Ingibjörg sagði mik­il­vægt starfsmenn standi saman sem ein liðs­heild, tali saman og geri góða frétta­stofu og fyr­ir­tækið enn betra. „Rétt er að fram komi vegna umfjöll­unar um upp­sögn Fann­eyjar Birnu Jóns­dótt­ur, aðstoð­ar­rit­stjóra Frétta­blaðs­ins, að hún sagði sjálf upp störfum 30. júní sl. Ástæður upp­sagn­ar­innar voru per­sónu­legs eðlis,“ sagði hún.

Að lokum vildi hún taka fram að 365 sé fjöl­skyldu­fyr­ir­tæki. „Von mín er að við stöndum saman sem ein fjöl­skylda.“

Starfsfólk Fréttablaðsins og Vísis ætlar samkvæmt heimildum Nútímans að hittast í kvöld „og knúsast eftir daginn“, eins og heimildarmaður Nútímans orðar það.

Alls ekki slæm hugmynd.

Auglýsing

læk

Instagram