Rekinn frá 365 eftir að hafa kvartað undan einelti, aðalritstjóri reifst við blaðamenn á fundi

Pjetri Sigurðssyni, yfirmanni á ljósmyndadeild 365 var sagt upp störfum í morgun. Þetta kemur fram á Kjarnanum. Hann hafði verið í leyfi frá störfum um margra mánaða skeið eftir að hafa kvartað undan einelti Kristínar Þorsteinsdóttur, aðalritstjóra fyrirtækisins.

Fréttatíminn greindi fyrst frá eineltismálinu í maí. Þá kom fram að mannauðsstjóri 365 hafi sett í gang formlega athugun eftir að Pjetur kvartaði undan meintu einelti Kristínar. Fréttatíminn greindi síðar frá því að mannauðsstjórinn hafi látið af störfum hjá fyrirtækinu.

Samkvæmt heimildum Nútímans boðaði Kristín til fundar á ritstjórn 365 í morgun til útskýra sína hlið málsins. Þar sagði hún frá samskiptaörðuleikum sínum og Pjeturs og kvartaði undan samstarfinu við hann. Þá herma heimildir Nútímans að hún hafi sakað Pjetur og mannauðsstjórann, sem nú er hættur, um að vera í herferð gegn sér.

Talsverð ólga er á meðal blaðamanna 365 vegna málsins, sem töldu ómaklegt af Kristínu að tala á þennan hátt um Pjetur án þess að hans hlið fengi að heyrast. Heimildir Nútímans herma að Kristín og starfsmaður fyrirtækisins hafi rifist á fundinum eftir að hann benti á að Pjetur hafi starfað hjá fyrirtækinu í 13 ár undir sjö ritstjórum án þess að nokkurt í líkingu við þetta hafi komið upp.

Auglýsing

læk

Instagram