https://www.xxzza1.com

Valur segir hipp hopp-senuna þurfa að líta í eigin barm: „Stelpur eru óvelkomnar í strákaklúbbinn“

Valur Grettison, ritstjóri Grapevine, segir að hipp hopp-senan á Íslandi þurfi að líta í eigin barm áður en fjölmiðlar eru gagnrýndir fyrir að fjalla ekki um konur innan tónlistarstefnunnar. Í pistli í nýjasta tölublaði Grapvine segir hann að vinsælustu rapparar landsins í dag, Emmsjé Gauti og hljómsveitin Úlfur Úlfur, hafi mikil völd innan senunnar og að þeir hafi tekið upp tónlist með mörgum, ungum karlkyns röppurum en ekki einni konu.

Sjá einnig: Gagnrýna fjarveru kvenna í umfjöllun um nýliða í hipp hoppi: „Hvað áttum við að gera, búa þær til?“

Fjarvera kvenna í úttekt um hipp hopp-senuna á Íslandi í síðasta tölublaði Grapevine var harðlega gagnrýnd á Twitter. Rappararnir í hljómsveitinni Úlfur Úlfur sögðu að það sick að horfa gjörsamlega framhjá framlagi kvenna til senunnar en höfundur greinarinnar sagði að um misskilning væri að ræða; greinin fjalli aðeins um nýja listamenn undir tvítugu og að hún hafi hreinlega ekki fundið neinar konur á þeim aldri sem eru að gera hipp hopp.

Valur segir í pistli sínum að það taki ekki langan tíma að uppgötva að stelpur séu óvelkomnar í strákaklúbbinn sem hipp hopp-senan er. „Það er skiljanlegt að senan kenni fjölmiðlum um í stað þess að horfast í augu við sannleikann. Það er auðveldara,“ skrifar hann.

Hann tekur málið upp á Facebook-síðu sinni og segir þau á Grapevine verulega hugsi yfir þeirri gagnrýni sem blaðið fékk sökum umfjöllunar um nýliða í hipp hopp-tónlist. „Við vorum kannski helst undrandi á því hversu letileg umræðan var, og blaðið notað sem einhverskonar blóraböggull fyrir alvarlegt vandamál sem herjar á þessa tónlistargrein,“ segir hann.

Við erum að auki orðin ansi þreytt á siðfárum á internetinu þar sem fólk öskrar á hvort annað í sitthvoru horninu og engin virðist vilja ræða hinn raunverulega vanda.

Valur segir Grapevine ætla að bregðast við gagnrýninni með því að efna til málþings í fundarsalnum á Kex Hostel á mánudaginn klukkan 20. Þar fara fram umræður fara fram um stöðu mála á mánudaginn. „Því það er alveg ljóst að vandinn við bága stöðu kvenna í Hip hopi er ekki bundin við menningarumfjöllun Grapevine. Vandamálið ristir dýpra,“ segir hann.

Á meðal fundarmanna verða Lára Rúnarsdóttir, formaður Kítón og Vigdís Howser, rappari í Reykjavíkurdætrum. „Það hefur hinsvegar reynst þrautinni þyngri að fá karlmann til þess að tala á málþinginu. Og raunar konur einnig,“ segir Valur.

„Allnokkrar sem við höfum talað við hafa beðist undan að tala um málefnið, sökum eðlis þess, ein krafðist þess að fá borgað fyrir að tala – nokkuð sem okkur finnst óboðlegt í ljósi þess að við erum að sinna samfélagslegri skyldu okkar, auk þess sem við stöndun straum af skipulagningu og sal.“

Auglýsing

læk

Instagram