Verjandi Thomasar vill leggja fram gögn úr farsímum á svæðinu þar sem lík Birnu fannst

Verjandi Thomasar Möller Olsen vill fá að leggja fram gögn úr farsímamöstrum á þeim slóðum þar sem lík Birnu Brjánsdóttur fannst áður en aðalmeðferð hófst í málinu. Þetta kemur fram á Vísi en þar segir einnig að gögnin séu úr farsímamöstrum við Suðurstrandarvegi frá klukkan sex að morgni 14. janúar, morguninn sem Birna hvarf og þangað til sólarhring síðar. Lík Birnu fannst við Selvogsvita á Reykjanesi 25. janúar.

Sjá einnig: Ætlar að reyna að sýna fram á að Thomas hafi verið líkamlega ófær um að bana Birnu

Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar, lagði kröfuna fram við fyrirtöku í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, mótmælti þessu og sagði að þetta væri þarfalaus gagnaöflun.

Í frétt Vísis kemur fram að lögreglan hafi ekki þessi gögn og þurfi því að afla þeirra hjá fjarskiptafyrirtækjum. Fulltrúar fyrirtækjanna koma fyrir dómara við næstu fyrirtöku í málinu, 15. júní. Tímasetning aðalmeðferðar málsins var ekki ákveðin í dag líkt og til stóð.

Fréttablaðið hefur áður greint frá því að verjandi Thomasar ætli að reyna að sýna fram á að Thomas hafi ekki verið líkamlega fær um að bana Birnu við aðalmeðferð málsins.

Auglýsing

læk

Instagram