Barninu hans Hugins var RÆNT með aðstoð yfirvalda – „Á Íslandi er barnaræningi verðlaunaður“ – MYND

Rithöfundurinn Huginn Thor Grétarsson opnaði sig um vægast sagt erfitt mál í Facebook færslunni hér fyrir neðan.

Barninu hans var nefnilega rænt með aðstoð yfirvalda og það eitt að lesa um málið er átakanlegt – hvað þá að þurfa að ganga í gegnum þetta.

Barnsrán – með aðstoð yfirvalda

Það er koldimm nótt og ég hrökk upp við þá skelfilegu martröð að barnsmóðir mín væri að reyna að stela barninu mínu! Hún dröslaðist með það undir handarkrikanum og aftur og aftur þurfti ég að stöðva hana en hún lét ekki segjast. Ég hef hrokkið svona upp síðasta eitt og hálft árið eða síðan hún hóf í alvörunni að reyna að ræna barninu mínu …

En þegar ég sest hérna við tölvuna þá þarf ég að kyngja þeirri þjáningu að martröð mína lifi ég bæði á næturnar og þegar ég vaki. Barnsmóðir mín reyndi aftur og aftur að stela barninu mínu, og tókst það að endingu, meðal annars vegna þess að fulltrúi sýslumanns braut visvítandi lög til að aðstoða hana við að halda barninu frá lögheimili sínu, föður og systur, og vegna þess að settur dómari málsins braut ítrekað lög og handstýrði málinu að þeirri niðurstöðu sem hann ákvað löngu áður en málið var flutt. Stjórnsýsla, fjölmiðlar, kvennaathvarfið og dómstólar rústuðu réttarstöðu minni, aðstoðuðu barnaræningja og ofbeldismanneskju með að ljúka barnsráni … bara af því að hún er kona.

Þann 4. ágúst 2017 var barnsmóðir mín dæmd í Finnlandi fyrir að halda syni mínu þar ólöglega. Hún var send til baka til Íslands með lögregluvaldi.
Mánuðirnir áður höfðu verið hreint helvíti. Ég hafði engst af áhyggjum yfir því að henni tækist að ræna barninu. Forsagan er sú að við bjuggum bæði á Íslandi þegar veikindi hennar byrjuðu og sambandið versnaði hratt. Á meðgöngu og eftir fæðingu fór hún að missa stjórn á skapi sínu og lét það bitna á mér og það sem verra var, á dóttur minni. Gekk þetta svo langt að hún sagðist ítrekað hata dóttur mína (til skriflega) og missti stjórn á skapi sínu svo að endingu leitaði hún til læknis og fékk ávísuðum þunglyndislyfjum. Eftir þetta byrjaði hún að hóta mér í hvert skipti þegar eitthvað bjátaði á, að ef ég leyfði henni ekki að flytja í burtu með barnið okkar myndi hún fara í hatrammt stríð við mig.
Í fyrsta ferðalagi með barnið til Finnlands fékk ég skriflegar hótanir um að hún kæmi þá bara ekkert aftur með barnið, fyrr en ég myndi skrifa undir samning um að hún fengi að flytja með það út. Undir svona hótunum og ofbeldi sat ég uns hálfu ári síðar að hún stóð við stóru orðin þegar hún var stödd í ferðalagi í Finnlandi. Þá lauk sambandinu okkar og hún ákvað upp á sitt einsdæmi að snúa ekki aftur með barnið til Íslands. Þá byrjuðu andvökunæturnar og sálarkvalir sem enginn þekkir nema þeir sem hafa lent í sambærilegu.
Skv. barnsmóður minni átti ég að hitta son minn 1-2 á ári og eftir hennar hentugsemi. Hún tók sér alræðisvald í málefnum barnsins eins og vill oft verða í þessum málum. Hún öskraði í hljóðupptökum sem ég á til að ef ég sættist ekki á þvingað samkomulag hennar, sæi ég aldrei barnið mitt aftur! Hún myndi stökkva á flótta o.s.frv.
Þið getið ímyndað ykkur þær þjáningar sem foreldri upplifir þegar það situr undir svona ofbeldi.
Grundvallarréttur barns er að njóta beggja foreldra sinna. Það hafði barnið á Íslandi og stríðir það gegn allri réttlætiskennd hjá mér að annað foreldri barns geti rifið það í burtu með þessum hætti.

Ég sá son minn ekki næstu mánuðina. Ég höfðaði Haag mál sem var flutt í Finnlandi. Í Haag málum er sérstaklega skoðað hvort ofbeldi hverskonar geti ógnað öryggi barns og þá komið í veg fyrir að það sé sent aftur til heimalands síns. En barnsmóðir mín skrifaði til mín stuttu áður en dómsmálið var flutt og sagði að ég væri jú frábær pabbi og hún ætlaði bara að berjast og fara í stríð fyrir rétti sínum um að fara með barnið og búa í Finnlandi. Það væri allt of sumt. Engar ofbeldislygar á þeim tímapunkti. Hún reyndar hótaði mér því, að hún myndi gera HVAÐ SEM ER til að ná því markmiði sínu að hrifsa barnið í burtu, sem kom svo í ljós síðar að voru ekki innantóm orð.

Eftir að hún var dæmd fyrir að halda barninu mínu ólöglega í Finnlandi, stóð ég í trú um að nú gæti ég hitt barnið mitt aftur. Hún var flutt með lögregluvaldi til Íslands og ég sendi henni friðsamleg bréf þar sem ég vonaðist til að við gætum haldið barninu fyrir utan þetta og deilt uppeldishlutverkinu. Það höfðum við áður verið sammála um, að ef við myndum hætta saman, þá myndi barnið njóta jafns tíma með foreldrum sínum (til skriflega).
En barnsmóðir mín hélt lögbrotunum áfram. Síbrotamanneskja með einbeittan brotavilja. Eftir martröð undangenginna mánaða hélt kvölin áfram. Hún lét ekki segjast, þó hún væri nýdæmd, og fór huldu höfði með son minn á Íslandi. Ég sá hann ekki næstu dagana og vikurnar. Enginn gat gert neitt. Sýslumaður, barnavernd, lögreglan. Það eru engin úrræði á Íslandi gegn svona ofbeldi! Þrátt fyrir að hún væri nýdæmd fyrir að halda barninu ólöglega frá heimili sínu á Íslandi gat enginn aðstoðað mig. Ég er jú bara karlmaður. Barninu var áfram haldið ólöglega frá lögheimili sínu. Enn leið ég algjörar vítiskvalir, vissi ekkert fyrst um sinn hvar barninu mínu væri haldið. Síðan reyndi hún að ginna mig til að valda usla, lak því út að hún væri í Kvennaathvarfinu en hótaði því svo stuttu síðar að ef ég kæmi þangað, yrði ég handtekinn! Þar hafði hún fundið bandamenn í þessum brotum sínum, sem áttu síðar eftir að taka þátt í árásum gagnvart mér í fjölmiðlum og rústa mannorði mínu. Skömm sé starfsfólki kvennathvarfsins, enda ekki hlutverk þeirra að setja sig í dómarasæti og taka þátt í svona aðför að einstaklingi!

En ekki nóg með að enginn vildi aðstoðað mig heldur fann hún nú bæði sálfræðing og fulltrúa hjá Sýslumanni til að brjóta lög og tryggja að barnaræninginn gæti haldið barninu áfram frá heimili sínu. Ég óskaði eftir sáttameðferð hjá Sýslumanni og úrskurði um umgengni, sem getur að hámarki verið 7 dagar af 14 til handa umgengnisforeldri, sem var móðirin. Til að komast hjá sáttameðferð reyndi móðirin fyrst að fá sjálfstætt starfandi sálfræðing til að þvinga mig í sáttameðferð, sem hafði þann eina tilgang að loka henni jafnskjótt og hún hæfist. Ég hafnaði þessu. Viðkomandi sálfræðingur fór gegn lögum og reglum. Þarna er á ferð einstaklingur sem á að gæta hlutleysis og vera fagaðili, sem er engu að síður tilbúinn að brjóta lög. Sálfræðingurinn gerðist meðal annars brotlegur við reglur um ráðgjöf og sáttameðferð Dómsmálaráðuneytisins, 21.gr. þar sem ég leitaði til Sýslumanns með sáttameðferð og var viðkomandi aðila því skilt að hætta að reyna að þvinga mig til sáttameðferðar hjá sér. En það gerði viðkomandi sálfræðingur áfram, og hótaði mér að ella gæfi hún (kvk) út vottorð um árangurslausa sáttameðferð, semsagt, móðirin gæti komist strax í dómsmál og reynt að spila inn á að hún héldi barninu hjá sér. Dómstólar hafa nefnilega verðlaunað foreldra fyrir tálmanir með yfirskriftinni „stöðugleiki“. Þessi sálfræðingur var tilbúinn að brjóta áfram lög og veittist að mér í dómsal fyrir að hafa ekki látið þvinga mig ólöglega í sáttameðferð hjá sér, en viðurkenndi þó að hún þekkti ekki lög og reglur er lúta að þessu. Þvílíkt og annað eins frá svokölluðum fagaðilum, sem taka afgerandi afstöðu með kvenmönnum í svona málum. Ég tek það fram, að ég hitti viðkomandi manneskju aldrei. En þrátt fyrir að hún hefði lýst yfir hlutleysi og ég væri skjólstæðingur hennar í sáttameðferð (bæði í símtali og með bréfi), deildi hún persónulegum samskiptum mínum við hana ítrekað með lögfræðingi barnsmóður minnar. Þetta stangast ekki bara á við reglur um sáttameðferð (6gr.) heldur eru þetta klár brot á siðferðisreglum sálfræðinga. En þetta staðfestir því miður að sumir sálfræðingar eru tilbúnir að brjóta lög, í krafti kynbundis misréttis, … (og umræddur sálfræðingur er vinur hið minnsta eins dómarans sem dæmdi málið).

Þegar barnsmóðir mín hafði haldið barninu frá mér í 3 langar vikur, áttum við fund hjá Sýslumanni. Þar voru mér settir úrslitakostir. Ef ég ætlaði að hitta barnið mitt þá yrði ég að sættast á mjög takmarkaðan tíma með því. Þetta er algjörlega fráleitt, enda ég lögheimilisforeldri barnsins. Að það skuli virkilega vera liðið að nýdæmdur barnaræningi skuli komast upp með þetta, er mér algjörlega óskiljanlegt. Þessu hafnaði ég, en í ljósi þess að Sýslumaður myndi fljótlega úrskurða um umgengni, eða að hámarki 7 af 14 dögum til móður, gekkst ég tilneyddur (þvingaður) að tímabundnu fyrirkomulagi fram að fyrsta sáttafundi. Ég var örvæntingafullur. Ég vildi bara hitta son minn!

En þá halda áfram ljót réttindabrot. 65gr. Stjórnarskrár Íslands virðist í engu virt hjá stjórnsýslunni og skv. samtölum mínum við feður er ljóst að kynbundið misrétti er svæsið á Íslandi.
Ég varð harkalega fyrir misrétti stjórnvalda, þar sem réttarstöðu minni er rústað á grundvelli kyns míns. Sáttameðferð er lögbundin. Hún er til að tryggja að allt sé reynt áður en farið er í kostnaðarsamt dómsmál. Foreldrar geta ekki samið sig frá slíkri meðferð. En augljóslega á þetta ekki við ef foreldrið er kona, og hefur nýlega framið barnsrán. Fulltrúi Sýslumanns hringir í mig og segir mér að hún ætli að sleppa sáttameðferð. Ég tilkynni henni að þetta sé gegn lögum, og ég sé að bíða eftir úrskurði um umgengni o.s.frv. En hún lætur ekki segjast. Ég sendi henni tölvupóst og tek skýrt fram, að ef hún ætli ekki að virða lög, óski ég eftir andmælarétti. Hún virðir það að vettugi, hleypur til og gefur út sáttavottorð. Þetta eru hrein og klár lögbrot og viðurkennir héraðsdómari í dómsúrskurðum sínum að viðkomandi starfsmaður fari ekki að barnalögum. Afleiðingar þessa eru þær að Sýslumaður kemst hjá því að úrskurða um umgengni til handa barnsmóðurinni og hún getur áfram haldið barninu frá lögheimili sínu.

Til eru dómafordæmi þar sem um er að ræða smávægilega ágalla á sáttavottorðum, og hefur héraðsdómur og hæstirréttur vísað slíkum málum frá. Ég sendi því inn frávísunarkröfu í von um að dómstólar tryggi sanngjarna málsmeðferð. Samkvæmt lögum átti að fara fram sáttameðferð og þá hefði verið úrskurðað um umgengni móður. Maður hefði haldið að dómstólar tryggðu réttindi fólks og að farið sé að lögum. Segir meðal annars í hegningarlögum, 130gr. að handhafi dómsvalds, eigi að tryggja sanngjarna málsmeðferð, ella sé viðkomandi brotlegur við lög sem varða við allt að 6 ára fangelsi. Sanngjörn málsmeðferð hefði vitaskuld verið sáttameðferð enda lögbundin, og að Sýslumaður hefði á þeim tíma úrskurðað um umgengni. En dómari fer ekki bara gegn dómafordæmum og hafnar því að vísa málinu í réttmæta sáttameðferð, heldur byrjar hann með dylgjur og ásakanir í minn garð, án þess að hafa nokkru sinni hitt mig fyrir. Sakar hann mig, þó varla sé málið nema nýlega þingfest (með ólöglega útgefnu sáttavottorði) um að vera að reyna að tefja málið. Ekki dugar það, heldur rökstyður hann réttindamissi minn, með því að barnsmóðir mín dvaldi í Kvennaathvarfinu. Hann tekur semsagt afgerandi afstöðu gegn mér, og með barnsmóður minni, löngu áður en ég skila inn gögnum málsins o.s.frv. og eingöngu út frá ásökunum í stefnu um ofbeldi, sem hún viðurkennir svo síðar að séu ekki réttar. Síðar legg ég fram ítarleg gögn, tugi afgerandi dæma þar sem sýnt er fram á ósannyndin, en dómari las aldrei gögn málsins, hann var búinn að stimpla mig með sleggjudómum sem ofbeldismann.
Ekki var þetta allt og sumt. Með þessu kom dómari því við að barnsmóðir mín gat áfram haldið barninu að mestu frá heimili sínu. Í hálft ár frá þvinguðu fyrirkomulagi hjá Sýslumanni tilkynnti barnsmóðirin nefnilega barnið mitt ítrekað veikt og hélt því þannig frá heimili sínu. Hún eyðilagði jólin fyrir okkur, barnið var veikt á jóladag þegar það átti að hitta systur sína og stórfjölskyldu (þó í sjúkraskrá segir að barnið sé frísklegt, þegar hún reyndi að fá læknisvottorð til að réttlæta fjarveru barnsins). Hún reyndi síðar að framvísa læknisvottorðum til að rökstyðja tálmunina. Ég fór því, sem lögheimilisforeldri og bað um útkeyrslu á sjúkraskrá barnsins. Það sem kom í ljós olli mér algjöru sjokki. Enn eru svokallaðir fagaðilar tilbúnir að brjóta lög til að aðstoða konu að halda barni frá lögheimili sínu. Þrír læknar FALSA læknisvottorð og segja að barnið sé veikt, en í sjúkraskrá skrifa þeir að barnið sé frískt við skoðun, en að móðir þess, sem dvelji í Kvennaathvarfinu, hafi beðið um vottorð og fengið. Þetta eru hrein og klár brot við 19gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn. Með ólíkindum að fagaðilar skuli taka þátt í þessu. Af hverju? Jú, samfélagið er gegnsýrt af meðvirkni með mæðrum sem brjóta á réttindum barna, þetta hef ég séð í samtölum við rúmlega hundrað karlmenn sem taka nú þátt í baráttu fyrir jöfnum rétti barna til beggja hæfra foreldra sinna á #DaddyToo. Samfélagið allt tekur þátt í þessu, því það er stimplað inn hjá fólki að mæður hafi meira tilkall til barnanna okkar! (Tölfræðin ein og sér staðfestir þetta, 98,3% mæðra fara einar með forsjá barna á meðan aðeins 1,7% karla fara einir með forsjá)
En réttindabrotin halda áfram. Dómari, til að „fegra“ það að vísa málinu ekki frá í lögbundna sáttameðferð, boðaði til sáttafundar. Eftir fundinn var ég og lögfræðingurinn minn rasandi. Búið var að skipa tvo sálfræðinga sem meðdómendur og á þessum fundi veittust þessir svokölluðu dómarar hreinlega að mér. Það var algjörlega klárt, löngu áður en nokkuð dómsmál var haldið, að þeir voru búnir að gera upp hug sinn. Fjölmiðlaumfjöllun og rangar sakargiftir barnsmóður minnar dugðu til að stimpla mig sem einhvern hrotta. Einn meðdómarinn, Álfheiður Steinþórsdóttir, sagði beinum orðum, að nú þyrfti bara að skoða hverjum barnið væri tengdara, og var þannig búin að gera sér upp afstöðu án þess að ég væri búinn að skila inn neinum gögnum og líkt og barnsrán, tálmanir og öll lögbrotin (rangar sakargiftir og fleira) væru núll og nix. Hún var búin að ákveða sig, því það var alveg ljóst að barnsmóðirin hélt barninu frá mér og það átti nú að verðlauna brotamanneskjuna fyrir að hæna barnið með ofbeldi að sér. Þetta er hrein og klár rökleysa að mínu mati. Það á aldrei að láta barnaræningja njóta þess, jafnvel þó barn hafi hænst að viðkomandi aðila á meðan brotunum varði. Til viðbótar kemur svo í ljós að Álfheiður er hið minnsta kunningi Ágústu Gunnarsdóttur sálfræðings, sem reyndi að brjóta lög um einkasáttameðferð og kom sem vitni fyrir dómstóla þó hún hefði enga tengingu við forsjármálið. Á umræddum sáttafundi hafði Álfheiður ekki kynnt sér málavexti, ekki fengið gögn frá mér, en var þó vel upplýst um þátt Ágústu í málinu. Var Ágústa Gunnarsdóttir búin að hafa áhrif á mat dómara? Tek það fram að ég hef kært Ágústu til siðanefndar sálfræðinga og landlæknisembættisins og bíð þess að þeir taki á þessum alvarlegu brotum hennar.
Í framhaldi veltum við því upp að óska eftir nýjum dómurum, en þorðum því ekki. Við óttuðumst hreinlega samtryggingu dómara.
Óskað var eftir úrskurði til bráðabirgða um forsjá og umgengni. Ég vonaðist til að dómari myndi tryggja barninu jafna umgengni við foreldra sína á meðan aðalmálinu stæði, en barnið hafði alist upp hjá okkur báðum og fráleitt að verðlauna barnsmóður mína fyrir það að hafa haldið barninu ólöglega frá mér. En aldeilis ekki, dómari staðfestir ekki bara þvingað fyrirkomulag frá sýslumanni, sem átti að vara í 2-3 vikur, og hunsar skrifleg gögn um samkomulag um jafna umgengni frá því áður, heldur virðist hann ekki hafa lesið bráðabirgðagreinargerð sem við skiluðum inn né gögn málsins. Hann þekkir ekki staðreyndir málsins, meðal annars skriflega niðurstöðu finnskra dómstóla um barnsrántilraun konunnar og fer ítrekað ranglega með staðreyndir málsins. Hann nefnir alvarleg brot hennar, barnsrán o.s.frv. ekki í niðurstöðu sinni, heldur segir þvert á þá staðreynd að móðirin hélt syni mínum í burtu, að „barnið hefur verið meira hjá móður sinni sökum ungs aldurs“ (algjörlega fráleitt, barnið hafði verið meira hjá móður vegna barnsráns) og kemur svo með gildishlaðna afstöðu „… barnið verður að vera hjá móður sinni.“ Er þetta hægt? Hann hreinlega lokar augunum fyrir gögnum máls. Dómari getur ekki dæmt í máli ef hann les ekki málsgögn og horfir ekki til staðreynda þess. (Í Svíþjóð voru nýlega 2 dómarar reknir fyrir gildishlaðna afstöðu, á Íslandi gerist nákvæmlega ekkert).
Sem betur fer sneri Landsréttur þessum ófögnuði við. Þeir úrskurðuðu um jafna umgengni og loksins hófst tími þar sem barnið gat verið til helminga heima hjá sér. Naut það móður, föður og systur næstu vikurnar …
Nú vandaðist málið. Ég vissi sem var að dómari í héraði var löngu búinn að taka afstöðu með móðurinni áður en málið var flutt. En gögn málsins eru afgerandi. Barnsrán, tálmanir, ofbeldi móðurinnar, andleg veikindi og rangar sakargiftir!
Eins og áður sagði bar barnsmóðir mín ekki upp á mig ofbeldi í Finnlandi, þó rík ástæða hefði verið fyrir því, ef um raunverulegt ofbeldi væri að ræða. Því ofbeldi getur komið í veg fyrir framsal barns. Barnsmóðir mín bar ekki heldur upp á mig ofbeldi í greinargerðum sendum til Sýslumanns. Það var ekki fyrr en hún fékk nýjan lögfræðing hjá Kvennaathvarfinu sem ásakanirnar byrjuðu. Þá átti ég að hafa beitt hana andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi. Að vísu hætti hún við ásakanir um líkamlegt ofbeldi á miðri leið, viðurkenndi fyrir lögreglu og sálfræðingi að ég hefði aldrei beitt hana líkamlegu ofbeldi. En byrjaði svo aftur núna í áfrýjun til Landsréttar að bera upp á mig líkamlegt ofbeldi. Halló? Manneskjan stendur ekki í lappirnar með þessar ásakanir og sveiflast til allra átta, en hvað gerist. Jú, dómari, þrátt fyrir að það komi ítrekað fram í gögnum og skýrslu sálfræðings o.s.frv. að ég hafi aldrei beitt hana líkamlegu ofbeldi, hún viðurkennir það þar að auki hjá lækni þegar hún fær ávísuð þunglyndislyf, að hún hafi hvorki verið beitt líkamlegu né andlegu ofbeldi. En dómarar þekkja ekki málgögn sem liggja fyrir og tala um líkamlegt ofbeldi gagnvart konunni í niðurstöðu sinni. Hann semsagt las ekki gögn málsins og hlustaði ekki heldur í þingsal, því þar kom þetta líka fram og í miðri ræðu lögfræðings barnsmóður minnar, var dregið í land með þessar ásakanir og þær strokaðar út. Dómarinn hlustaði ekki á þinghaldið, því hann var löngu áður búinn að ákveða sig… en í dómsal var hún spurð út í ofbeldi og bar aldrei upp neinar ásakanir um líkamlegt né kynferðislegt ofbeldi! Rangar skargiftir eru vel liðnar fyrir íslenskum dómstólum. Ég hef lagt fram kæru til lögreglu en lítið gerist…

Það sem réði úrslium með að ég óskaði ekki eftir nýjum dómurum á þeim forsendum að þeir væru vanhæfir og hefðu sýnt ítrekað gildishlaðna afstöðu með móður og verið með dylgjur í minn garð o.s.frv. var að skipaður var dómskvaddur matsmaður. Niðurstöður dómskvadds matsmanns voru afgerandi. Barnið myndi njóta beggja foreldra og systur sinnar á Íslandi (sem samræmist barnalögum) en eingöngu móðurinnar í Finnlandi (fer gegn réttindum barnsins). Réttindi barnsins væru best tryggð á Íslandi.
Þar að auki var barnsmóðirin gagnrýnd fyrir móðursýki, komið inn á andleg veikindi hennar og anorexíu og fleira í skýrslu aðalvitnis málsins, dómskvadds matsmanns. Sálfræðingur sem hitti málsaðila oft og gerði ítarlega greiningu á þeim.
Ég ákvað því að treysta á réttlæti. Á að dómarar væru fagaðilar, sem væru ekki að fara að aðskilja börnin mín og brjóta á mannréttindum þeirra, að þeir væru ekki að fara að hrifsa son minn aftur í burtu. Og kannski ekki síst, að dómarar létu segjast, enda var úrskurður Landsréttar afgerandi. Barnið á rétt á reglulegri umgengni við báða foreldra sína, sagði í þeim úrskurði!
En þar skjátlaðist mér. Dómari neitaði að gefa lögfræðingnum mínum tíma til að undirbúa aðalmálsmeðferðina, svo hann þurfti að segja sig frá málinu. Nótabeiðni, þetta var lögfræðingur nr. 2 sem sagði sig frá málinu vegna þess að dómarinn djöflaði því áfram. Eitt dæmi um það, var að einungis nokkrum dögum eftir að tugi blaðsíðna skýrsla matsmanns lá fyrir, ætlaði dómari að klára málið með þinghaldi. Þetta náðist vitaskuld ekki, enda áttum við eftir að fara yfir mikilvægasta gagn málsins. En dómara fannst það bara formsatriði að hafa þinghald, hann var löngu búinn að gera upp hug sinn. Nýr lögfræðingur þurfti að setja sig inn í málið á mettíma og kostnaðurinn minn rauk upp. Ég er líkelga kominn upp í 10 milljónir lögfræðikstoanð fyrir það eitt að verjast lögbrotum stjórnsýslu, dómstóla og barnsmóður minnar. Er þetta virkilega réttarríki sem ég bý í?
Við þinghald varð mér endanlega ljóst hverskonar réttindabrot voru í gangi. Þegar ég átti að gefa aðilaskýrslu, sagði dómarinn að ég þyrfti ekki að gefa aðilaskýrslu fyrir dómi í þessu mikilvægasta máli lífs míns (ég hafði óskað eftir að fá að tjá mig í um 1,5 klukkutíma enda viðamikið mál). Ég veit ekki til þess að nokkrum manni hafi verið meinað að flytja aðilaskýrslu áður í forsjármáli, enda nauðsynlegt að dómarar hlusti á skýrslur foreldra barnsins. Dómari sagðist hafa lesið skrifleg gögn og skýrslu mína og það væri nóg. Ég ákvað að treysta honum og lét því vera að tjá mig um þetta hjartans mál en sat undir spurningum lögfræðinganna. Síðar kemur í ljós að dómari hefur ekki lesið skriflega aðilaskýrslu mína, þar sem vísað er í gögn og á afgerandi hátt sýnt fram á ýmsa hluti, sem dómari er ekki upplýstur um. Hann hefur semsagt af mér grundvallarréttindi til að verja börnin mín og mig sjálfan fyrir dómi, fyrir þeim réttindabrotum sem voru í aðsígi. Hann hefur af mér grundvallarréttindi í réttarríki, að fá að koma mínum sjónarmiðum á framfæri! Hann vildi ekki hlusta á mig! Þetta er ekkert annað en dómsmorð og enn eitt brotið á 130gr. hegningarlaga. Ekki nóg með þetta! Þegar ég sat undir svörum, og reyndi að svara, var gripið frammí fyrir mér 73 sinnum! 73 sinnum! Viðstöðulaust. Þetta er til á hljóðupptöku og maður fær hreinlega ógleði af því að hlusta á þessar árásir á hendur einstaklingi sem reynir að verja barnið sitt fyrir réttindabrotum! Ég fékk ekki að svara spurningum sem voru lagðar fyrir mig, það var bara verið að troða ofan í mig ásökunum. Dómari, og lögfræðingur barnsmóður minnar, voru með ofanígjafir og frammígrip svo ég fékk aldrei að tjá mig óáreittur fyrir rétti. Hvorki að gefa aðilaskýrslu, það sem ég hafði sjálfur að segja, né svara spurningum. Dómari sat undir því að lögfræðingur barnsmóður minnar leyfði mér ekki að svara spurningunum, og í eitt skipti gekk þetta svo langt, að lögfræðingurinn (lögfræðingur Kvennaathvarfsins) lét barnsmóður mína setja ofaní mig í miðri aðilaskýrslu minni. Dómari sagði ekki orð. En dómari stöðvaði lögfræðinginn minn ítrekað, þegar hann reyndi að spyrja barnsmóður mína spurninga. Aldrei var gripið frammí fyrir barnsmóður minni, en samt var lögfræðingi mínum meinað að spyrja hana, meðal annars út í rangar sakargiftir. Hann vildi ekki að sannleikurinn kæmi í ljós. Ekki nóg með þetta. Finnskar vinkonur barnsmóður minnar fengu að tjá sig að vild, og lögfræðingurinn minn fékk ekki að spyrja spurninga. Hann var beinlínis stöðvaður af dómara. En þegar vitnin mín ætluðu að tjá sig, voru þau stöðvuð! Fólk sem hafði mun meira að segja um okkar samskipti, enda hitt okkur reglulega saman (ég hafði hitt vinkonur hennar 2-3 sinnum á ævinni og þekki þær ekki neitt). Vitnin hennar fengu semsagt að gaspra út ásökunum, en mínum vitnum var sagt að þau þyrftu ekki að segja það sem stæði í gögnum máls.
En aðalvitni málsins, dómkvaddur matsmaður, talaði máli barnsins og að það hefði báða foreldra á Íslandi. Það samræmist lögum. Það samræmist ekki lögum að rífa barn í burtu frá föður sínum og systur. En dómarar fara gegn aðalvitni málsins og öllum gögnum þess, og verðlauna barnaræningja! Þetta gera þeir eingöngu vegna gildishlaðinnar afstöðu og þeirri meðvirkni sem ríkir á Íslandi. Jafnréttisbrot er varða við stjórnarskrá Íslands hafa verið framin, og öllum virðist sama …

Þetta er einsdæmi á heimsvísu. Hvergi hefur barnaræningja áður verið leyft að rífa barn aftur í burtu frá fjölskyldu sinni, því barnaræninginn hafi jú verið meira með barninu! T.d. 8 dögum eftir þennan réttarskandal hér á Íslandi féll dómur í danmörku. Barnaræningi, kona, var dæmd í 1,5 ár fangelsi. Á Íslandi er barnaræningi verðlaunaður.

Nú er alls óvíst að sonur minn eigi nokkru sinni afturkvæmt til Íslands. Ég hef áfrýjað til Landsréttar en lítið virðist gera. Lögreglan virðist ekkert gera með þær kærur sem ég hef lagt fram. Fjölmiðlar hafa rústað mannorði mínu, og jafnvel þó ég hafi sent inn gögn til Stundarinnar sem sýna að hún fer fram með ósannyndi, neita þeir að leiðrétta skrifin. Enginn fjölmiðill fjallar um mál mitt, þeir hafa engan áhuga, það er allt í lagi að barni sé stolið frá föður þess, en allt samfélagið fór á hliðina þegar dætrum Soffíu Hansen var stolið. Eða þegar átti að koma í veg fyrir að Hjördís Svan gæti haldið börnunum á Íslandi. Okkur er nefnilega alveg sama, ef brotið er á feðrum, en við áttum okkur á alvarleikanum þegar máið snertir mæður.
Í þessu samhengi finnst mér fráleitt ríkisstyrkt Kvennaathvarf tók þátt í aðför sem ég varð fyrir, starfsmenn þess birtust í tveimur fjölmiðlum ásamt barnsmóður minni þar sem hún sakar mig ranglega um ofbeldi. En dómari segir að starfsfólk þess, sem kom fyrir dóminn, sé afgerandi vitni í málinu. Ég hafði aldrei hitt þessa starfskonu og hún er svo sannarlega ekki hlutlaus, hafandi birst í umfjöllun Stundarinnar þar sem ráðist var að mannorði mínu. En dómarinn er gjörsamlega úti að aka og fer á sveig við lög, en honum er skilt að taka afstöðu til vitna og meta trúverðugleika þeirra. Það gerir hann ekki enda ljóst að manneskja sem er að ráðast á mig með barnsmóðurinni í umfjöllun o.s.frv. er ekki trúverðugt vitni. En dómari er á öðru máli, því hann hefur engin önnur gögn til að réttlæta mannréttindabrotin sem hann ætlaði sér alla tíð að fremja.

Nú er dagur að renna upp og tími til að láta af þessum skrifum. Ég bíð eftir að áfrýjun verði tekin fyrir í Landsrétti og alls óvíst hversu lengi þetta mál velkist um í kerfinu. Réttarstaða mín hefur verið gjöreyðilögð af stjórnsýslu og dómstólum og það sér ekkert fyrir endann á því. Viljum við búa við svona réttarkerfi? Grundvallarréttindi einstaklinga til sanngjarnrar málsmeðferðar hafa ekki verið virt á nokkurn hátt í þessu máli og gildishlaðin afstaða dómara gegn mér verið ljós frá upphafi. Mannréttindabrot hafa verið framin á börnunum mínum sem eiga þann lögvarða rétt að alast upp og þekkja hvort annað og föður sinn. Sonur minn getur ekki lengur talað við mig! Barnsmóðir mín virti ekki umgengni barnsins við mig í haust. Lögfræðingurinn minn segist aldrei hafa séð neitt álíka á 30 ára ferli og fer ítarlega yfir lögbrot dómarans í áfrýjun til Landsréttar. Lögfræðingar gera það ekki að gamni sínu að ásaka dómara um lögbrot. Dómarinn er brotlegur við fjölmörg lög og hvað köllum við þá sem brjóta lög? Eru dómarar yfir lög hafnir? Eru þessir glæpir í lagi því stjórnsýslan ver sína? Ég kvika ekki frá því að viðkomandi aðili, á að mínu mati að sæta nokkurra ára fangelsisvist, en réttlæti fæst ekki hér á Íslandi, því miður. Stjórnsýslan hefur öll pakkað í vörn og Dómsmálaráðuneytið snýr út úr og neitar að taka á staðfestum lögbrotum fulltrúa Sýslumanns. Umboðsmaður Alþingis vill ekkert gera, Sýslumaður sjálfur svarar ekki, og ekki heldur ráðherra þessa málaflokks. Allir með einhverjar afsakanir. Ég er jú bara karlmaður, og þær reglur virðast gilda í samfélaginu, að það má stela börnunum okkar! Maður er réttindalaus í landi lögbrotanna.

Verst finnst mér að börnin mín hafa verið aðskilin, þau eiga ekki eftir að þekkjast þegar þau verða eldri. Sonur minn er hættur að geta tjáð sig við fjölskylduna sína á íslensku og áður en ég fór að sofa í gær sagði dóttir mín döpur, „ég sakna bróður míns.“

Ljóta mannvonskan sem fellst í réttindabrotum stjórnsýslu og dómstóla.

Auglýsing

læk

Instagram