Auglýsing

Stærstu lygarnar um heilsu sem mér voru kenndar í æsku

Wim Hoff hefur sýnt fram á að kuldinn er þinn besti vinur.

Ég er að vakna upp við það þessi árin – að flest sem mér var sagt í æsku um mataræði og heilsu hafi verið kjaftæði. Lítið dæmi. Klassíski fæðuhringurinn sem var hengdur upp á töflu í skólanum og kenndur í heimilisfræði? Lítið annað en vel sponsoruð auglýsing. Vantaði bara lógóin inn á hann.

”Passaðu nú að það slái ekki að þér.”, var svo kallað á eftir manni í hvert skipti sem maður fór út á peysunni. Blessuðum kuldanum kennt um allar veirur og pestir. Áttaði mig á því 20 árum seinna að það væri kjaftæði. Daglega hef ég hef verið allt frá 3 mínútum upp í korter í köldu keri – eða sjó. Á þessum tveimur árum hef ég ekki fengið svo mikið sem nefrennsli! Aldrei liðið betur. Kuldinn nefnilega styrkir ónæmiskerfið. (Takk Wim Hoff) Ég átti að hlaupa út í kuldann ber að ofan.

Rússneskar fjölskyldur sem leika sér fáklæddar í snjónum voru spurðar af hverju í ósköpunum þær væru nú að þessu:

”Við höfum ekki efni á læknum.“

Einmitt það.

Hvað er þá líklegra til að valda veikindum heldur en kuldi? Svarið er einfalt. Sykur! Já blessaður sjarmörinn, séra sykur. Þessi sem maður á stundum að verðlauna sig með. Hann er bara ekki neitt sérstaklega góð verðlaun …

Sykurinn sendir ónæmiskerfið á fyllerý. Flensan elskar sykur. Bakteríur og veirur valsa innan um blindfull og drafandi hvít blóðkorn sem ættu að vera að verja okkur. Og svona í léttan bónus þá elska krabbameinsfrumur sykur. Hann hjálpar þeim að verða stórum og sterkum. „Mmmm … takk fyrir mig“, segja þær!

Ég fór á námskeið á Gló hjá Unu Emilsdóttur, sem hefur nýlokið læknanámi í Kaupmannahöfn– en hefur haft sérstakan áhuga á mataræði og heilsu almennt. Þekkingu sína um mataræði hefur hún samt ekki sótt mest í læknisfræðinámið. Nei það er enginn sérstakur áhugi á næringarfræði þar á bæ. Una þurfti að viða þessa þekkingu að sér sjálf fyrir utan námið. Við erum nefnilega komin ansi langt frá ráðleggingu Hippókratesar sem sagði: ”Láttu matinn vera meðalið þitt – og meðalið matinn þinn.” Lyfjafyrirtækin sem standa að fjölda læknisfræðilegra rannsókna segja nefnilega: „Láttu meðalið okkar vera meðalið þitt, og meðalið þitt, peningana okkar.“

Í fyrirlestri sínum á Gló fletti Una ansi stórri hulu af því sem maður hélt að væri rétt og satt í nútíma samfélagi. Við erum á villigötum á svo mörgum sviðum. Ég var eiginlega í áfalli.

Meira um lygar æsku minnar

Tölum aðeins um fitu. Hún var nú þvílíki skúrkurinn hér í denn. Maður átti að gera allt til að halda sig frá henni. Hún var ábyrg fyrir öllum heimsins bumbum. En hún var líkt og kuldinn ranglega dæmd. Kókosolía, ólívuolía og avókadó, stútfullt af fitu, og gera til dæmis bara hreinustu kraftaverk. Við fitnum ekki af fitu. Hvílíkt konsept. Hægt og rólega erum við að fatta þetta.

Eftir að hafa stúderað mismunandi stefnur í mataræði undanfarin ár, stendur þetta nefnilega eftir:

Hættu að fokka í blóðsykrinum!

Hár blóðsykur gerir okkur feit. Veldur bólgum í líkamanum. Bólgur valda sjúkdómum. Fita fokkar ekki í blóðsykrinum. Fita er góði kallinn. Kuldi styrkir ónæmiskerfið og dregur úr bólgum. Kuldi er góði kallinn.

Sykur er vondi kallinn.

”Við erum alltaf að slökkva elda með lyfjum – í staðinn fyrir að fyrirbyggja veikindi með því að rækta heilsuna”, segir Una.

Heilbrigðiskerfið er nefnilega byggt þannig upp að við gerum oft ekkert í neinu fyrr en við erum komin í vanda.

Ég spurði eitt sinn íslenskan sálfræðing hvað væri markmiðið með sálfræði. Hann svaraði:

”Að gera einstaklinginn færan til að takast á við samfélagið aftur.”

Ég spurði hvort markmiðið væri ekki hamingja?

”Jú líka …”

Nei það þarf að vera eitthvað að okkur til að við getum leitað ráða varðandi heilsuna, andlega og líkamlega. Og þá er ráðist á einkennin en orsökin látin vera.

Við ástundum slæmar venjur, andlegar og líkamlegar í mörg ár, þangað til það er of seint. Þá mætum við til lækna sem gefa okkur lyf. Læknar sem stúderuðu vísindi, byggð á rannsóknum á lyfjum, fjármögnuð af lyfjafyrirtækjum. Og eftir sitjum við með vonda skammtímalausn við langtímavanda – og endalausar aukaverkanir.

Svona í grófum dráttum …

Samfélagið í heild þarf alvarlega að endurskoða stefnuna. Það byrjar á okkur sjálfum. Að við vöknum af blundinum. Af því tilefni mæli ég með fyrirlestrinum sem Una Emilsdóttir er að halda aftur í Gló Fákafeni núna á miðvikudaginn næstkomandi – en nánar má sjá um hann HÉR!

Helgi Jean – áhugamaður um heilsu. Fylgjast má með fleiri viðlíka speki HÉR

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing