Ég elska börnin mín, en stundum eru þau svo leiðinleg að ég þarf bara að ryksuga

Ég fékk ryksugu í jólagjöf. Bað um hana reyndar og ósk mín rættist. Halelúja. Þetta er dásamleg ryksuga sem ég veit núna að hefur óvænta kosti. Málið er að yngra barnið zónar út þegar hún er í gangi – white-noise-hljóð hafa róandi áhrif á ungabörn, og eldra barnið er ekki hrifið af hljóðinu heldur og dregur sig í hlé þegar ég set hana í gang. Þess vegna hef ég verið alveg virkilega dugleg að ryksuga að undanförnu. Lái mér hver sem vill.

En ekki misskilja mig. Þau eru æði og ég elska þau mikið. En að eiga barn er á köflum eins og að sinna sólarhringskvörtunarþjónustu hjá illa reknu stórfyrirtæki. Það er alltaf eitthvað að. Beiðnir um þjónustu/aðstoð/athygli berast mér að meðaltali á 2-3 mínútna fresti og suma daga þá hreinlega hef ég ekki úthald í þær.

Þessi linnulausi ágangur er samt mitt eigið sjálfsskaparvíti. Ég bara sá þetta ekki fyrir. Velmeinandi réttir maður litla fingurinn … en áður en varir er maður búin að gera virkilega krefjandi (og dásamlegan) einstakling verulegan háðan sér. Og þau gera svo óraunhæfar kröfur! Börn eru barnaleg.

Þegar ég þarf friðinn sem dætur mínar hafa ekki þroska eða þekkingu til þess að veita mér þá ryksuga ég. Þá er nefnilega mjög skýrt að ég er upptekin. Stundum ryksuga ég mjög lengi og plotta á meðan leiðir til þess að auka sjálfstæði þeirra og minnka suðið á heimilinu.

Svo ef þú kemur í heimsókn og gólfin hjá mér eru gjörsamlega rykfrí og glansandi þá er það líklega vegna þess að börnin hafa verið aðeins of óþolandi. Ekki spyrja mig út í þetta samt. Það er algjört tabú að játa að börnin manns geti verið leiðinleg.

Auglýsing

læk

Instagram