Pabbi minn er sterkari en pabbi þinn — nei, ég meina ÉG er sterkari en pabbi þinn

Auglýsing

Ég byrjaði þennan ágæta föstudag á því að setja persónulegt met í front squat (hnébeygja með stöngina framan á öxlunum). Lyfti 95 kílóum nokkuð auðveldlega svo ég veit að 100 kílóa múrinn verður rofinn fljótlega.

Þegar ég byrjaði í Crossfit árið 2011 þá lyfti ég 43 kílóum í front squat. Ég hef s.s. bætt styrk minn um 52 kíló í þessari lyftu á þessum fimm árum. Svipaðar bætingar hef ég séð á öllum öðrum sviðum Crossfit og ég elska þessa tilfinningu. Að finna það að maður sé orðinn betri í dag en í gær, að vita það að æfingarnar séu að skila árangri er bara ógeðslega góð tilfinning. Ég ætlast ekki til að fólk sem hefur ekki upplifað þetta skilji hverju ég er að reyna að lýsa en þetta er ekki ósvipuð tilfinning og þegar námsmaður fær góða einkunn á prófi eftir að hafa lagt mikið á sig við lærdóminn, þegar hljóðfæraleikari nær valdi á erfiða kaflanum í ákveðnu lagi eða þegar golfari spilar sinn besta hring. Ógeðslega góð tilfinning!

Ég byrjaði í Crossfit til að koma mér í betra form, til að verða mjórri aðallega. Ekki til að snara rúmlega 60 kílóum eða lyfta nærri 120 kílóum í réttstöðulyftu. Ég byrjaði algjörlega á byrjunarreit, var aum en gat þó hreyft mig vel. Ég hafði engar væntingar til þess að þykja þetta skemmtilegt enda hafði mér aldrei fundist gaman í líkamsrækt þó ég hafi í gegnum tíðina farið í ótal hóptíma í hinum ýmsu líkamsræktarstöðvum og eytt sennilega nokkrum vikum samanlagt á hlaupabrettum þessara stöðva, gjörsamlega að drepast úr leiðindum — allt til að verða mjórri, því það er auðvitað markmiðið sem við eigum allar að hafa (!)

Mér fannst strax gaman í crossfit, kynntist fullt frábæru fólki og allir voru svo jákvæðir, hvetjandi og skemmtilegir. Markmiði mínu, að verða mjórri, náði ég fljótlega þar sem ég fór að æfa af krafti daglega og huga að mataræði mínu. Það sem gerðist samhliða var að hægt og rólega styrktist ég og líkami minn hefur tekið töluverðum breytingum, lærin og hendurnar massívari einhvern veginn en ég er samt ennþá í dag í minni stærðum af fötum en ég var í áður en ég byrjaði svo ég hef klárlega ekki stækkað. Samt er fólk þarna úti sem finnst komið nóg og spyr hvenær ég ætli að stoppa. Spurning sem t.d. hlaupari sem hleypur hraðar með hverju hlaupinu fær aldrei.

Auglýsing

Af hverju ætti ég að stoppa þegar mér líður vel og þegar ég er að ná árangri? Af því að einhverjum öðrum finnst ég ekki nógu kvenleg? Ekki nógu grönn?

Ég elska að vera sterk og ég elska frelsistilfinninguna sem fylgdi því að hætta að reyna að grennast. Í dag borða ég hollan og góðan mat til þess að hugsa vel um líkama minn, svo ég geti staðið mig betur á æfingum, orðið enn sterkari. Mér finnst sterkar konur fallegar. Mér þykir líka margar grannar og smágerðar konur fallegar. Einnig margar mjúkar og stærri konur. Fyrst og fremst finnst mér sjálfsöruggar konur fallegar, sama hvaðan sjálfsöryggi þeirra kemur. Ég sjálf fyllist sjálfsöryggi þegar ég næ markmiðum mínum.

Ég er í frábærri vinnu þar sem ég fæ að hafa jákvæð áhrif á líf fjölda fólks. Það gefur mér óendanlega mikið að sjá fólk ná markmiðum sínum. Að fá að fylgjast með fólki á öllum aldri ná að gera eitthvað sem það átti aldrei von á að það gæti eru forréttindi. Vænst þykir mér um tækifærin sem ég fæ til að hafa áhrif á viðhorf ungu krakkanna sem ég þjálfa. Þessum ungu sálum þykir ekkert eðlilegra en að stelpur standi jafnfætis strákum í líkamlegri getu. Ungu dömurnar sem ég þjálfa eiga sér fyrirmyndir sem eru heilbrigðar og sterkar. Ef þessir krakkar finna sér hreyfingu sem þeim þykir skemmtileg, læra að hugsa vel um líkamann sinn, næra sig rétt og vel og hvíla sig þegar þörf er á og sleppa tímabilinu sem ég tók á hlaupabrettinu, tímabilinu þar sem ég fór glöð að sofa ef garninar gauluðu hátt og vel eftir að hafa verið svo „dugleg“ þann daginn og borðað lítið sem ekkert þá verð ég óendanlega hamingjusöm.

Mér er hjartanlega sama hvort fólki finnist ég of feit, grönn eða of mössuð. Mér líður vel í eigin líkama. Mér líður vel með að vera sterkari en flestar stelpur (á samt fullt af vinkonum sem eru mikið sterkari en ég!) og mig langar að verða enn sterkari. Ég er sennilega sterkari en pabbi minn og mér finnst það geggjað. Ég veit ekki hvort hann sé sammála enda af sömu kynslóð og Rósa Ingólfs en það skiptir mig engu máli.

Mér þætti það samt frábær þróun ef fólk myndi hafa skoðanir sínar á líkömum eða áhugamálum annarra bara fyrir sig.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram