Þegar mér var boðið að gerast ritstjóri Séð & heyrt — Nútíminn er tveggja ára!

Nútíminn er tveggja ára í dag. Það er geggjað en alls ekki sjálfsagt. Nútíminn varð nefnilega næstum því ekki að veruleika. Það munaði meira að segja mjög litlu. Þannig séð.

Spólum til baka til sumarsins árið 2014. Ég var nýhættur í vinnunni og vissi ekki alveg hvað mig langaði til að gera næst. Eina sem ég vissi var að ég var á leiðinni til Krítar með kærustunni minni og vinafólki. Lífið var frekar einfalt en við sjóndeildarhringinn beið stór ákvörðun: Átti ég að taka eina starfinu sem bauðst? Átti ég að gerast ritstjóri Séð & heyrt?

Ég var ekkert mikið farinn að pæla í nýrri vinnu þegar ég fékk símtal. Á hinni línunni var vinaleg kona sem sagði að Séð & heyrt vantaði ritstjóra. Viðkomandi átti ekki aðeins að ritstýra blaðinu heldur stóð til að opna vef þar sem efni úr blaðinu og annað efni átti að birtast daglega. Ég var ekki spenntur en varð auðvitað að taka öll atvinnutilboð alvarlega.

Ég treysti mér ekki til að gefa svar áður en ég hélt til Krítar og dvaldi þar í tíu unaðslega daga. Þegar ég sneri heim var svo búið að ráða Eirík Jónsson í starfið. Þrátt fyrir að vera ekki með neitt í höndunum var þetta ákveðinn léttir. Þetta starf var ekki fyrir mig þó ég sé reyndar handviss um að ég hefði geta búið til skemmtilegt blað.

En Nútíminn var sem sagt stofnaður þegar ég vissi í rauninni ekki hvað ég vildi gera. Ég man ekki alveg hvað ég var að gera þegar hugmyndin kom. Ég man bara að Lilja kom heim úr vinnunni á þriðjudegi og ég tilkynnti henni að ég ætlaði að stofna vefmiðil. Þar með var það ákveðið og ferlið fór af stað.

Nú tveimur árum síðar hefur vefurinn náð ákveðnu jafnvægi. Reksturinn er góður, tekjurnar aukast stöðugt og í dag skiptist vefurinn í fjóra meginhluta:

Fréttir

Þungamiðja Nútímans. Til stendur að efla þennan hluta vefsins verulega um mánaðamótin þegar nýr blaðamaður tekur til starfa. Hún heitir Lára og hefur starfað á mbl.is undanfarin ár. Ég hef hingað til séð sjálfur um að skrifa allar fréttirnar þannig viðbótin er kærkomin (!). Vefurinn verður ekki bara öflugri heldur líka fjölbreyttari og skemmtilegri. Nútíminn gerði líka nýlega samning við Símann um fréttaflutning á útvarpsstöðinni K100. Við erum því ekki bara á netinu heldur líka daglega á öldum ljósvakans.

Myndbönd

Myndbönd Nútímans eru einstök. Enginn íslenskur vefur framleiðir jafn mikið af afþreyingarmyndböndum fyrir netið og Nútíminn. Í september í fyrra gerði Nútíminn samning við framleiðslufyrirtækið Skot um að byggja upp sjónvarpshluta Nútímans. Samstarfið gengur vel og Nútíminn hefur sent frá sér fjölda myndbanda og áhorf skipta milljónum. Skot keypti svo 35% hlut í útgáfufélagi Nútímans í mars og innsiglaði þannig samstarfið sem á eftir að blómstra enn frekar í haust. Við fengum hóp af ungu fólki með okkur í að framleiða myndböndin og þau hafa staðið sig stórkostlega enda hafa viðtökurnar verið frábærar.

Alvarpið

Alvarpið er öflugasta hlaðvarpsþjónusta landsins. Samstarf Nútímans og Alvarpsins hófst í lok árs 2014 og síðan þá hafa hundruð hlaðvarpsþátta um allt mögulegt birst á Nútímanum. Alvarpsstjórinn Ragnar Hansson er duglegur við að bjóða upp á nýja þætti ásamt því að vinsælir þættir á borð við Fílalag og Englaryk hafa sópað að sér dyggum hlustendum.

Foreldrar

Dæmin sýna að það er ekki auðvelt að bjóða upp á efni sem er sérsniðið fyrir foreldra og ekki ógeðslega leiðinlegt. Kristrún Heiða, umsjónarkona Nútímans foreldra, á hins vegar einstaklega auðvelt með það. Nútíminn opnaði sérstaka undirsíðu helgaða foreldrum í janúar og þar hefur verið boðið upp á skemmtilegt og vandað efni fyrir þennan hóp sem, þvert á alla skynsemi, tekur á sig að fjölga sér. Segi svona.

Hugmyndir verða ekki að veruleika án þess að þeim sé fylgt eftir. Oftast þurfa fleiri en hugmyndasmiðurinn að keyra allt saman í gang og ég er mjög þakklátur fyrir alla aðstoðina og stuðninginn sem ég hef fengið úr svo ótrúlega mörgum áttum. Ég treysti mér ekki til að taka saman alla klukkutímana sem hafa farið í að halda sjó þessi tvö ár en eitt er víst að þeir hefðu verið til einskis ef Lilja mín hefði ekki staðið við bakið á mér.

Og ég er gríðarlega þakklátur fyrir störf forritarans Guðmundar Sigursteins Jónssonar sem hefur séð til þess að allt virki, barist við hakkara, uppfært, lagað og bætt við. Gummi kom inn sem hluthafi í upphafi en seldi hlut sinn til Skots í mars. Hann er samt sem betur fer ekki langt undan og kíkir enn þá reglulega undir húddið. Takk, Gummi.

Í september tekur Nútíminn stærri skref en hann hefur áður gert með tilkomu nýs blaðamanns á ritstjórnina ásamt því að nýr samningur við útgáfufélag Fréttatímans, um sölu á auglýsingum, tekur gildi. Þar með eykst þjónusta við auglýsendur en auglýsingarnar hafa hingað til verið á minni könnu og ég hef stundum bölvað því að geta ekki sinnt þeim betur vegna tímaskorts.

Á sama tíma eykst þjónusta við lesendur en ég reikna með að í vetur verði vefurinn betri og öflugri en nokkru sinni. Og þar með erum við komin að mikilvægasta punktinum: Lesendum. Án ykkar væri Nútíminn ekki til. Án ykkar væri ég eflaust á hnjánum inni á skrifstofu Birtíngs að grátbiðja um að vera tekinn til greina á ný sem ritstjóri Séð & heyrt.

Ég vil því þakka ykkur fyrir að lesa, deila, læka, senda mér ábendingar, gagnrýna stafsetningu, hrósa, tísta, skamma, elska og hata. Þetta er allt mikilvægt.

Takk!

Auglýsing

læk

Instagram