Playstation Portal: Spilaðu PS5 leikina þína hvar sem er, hvenær sem er!

Eitt nýjasta tækið frá Sony er Playstation Portal en um er að ræða handhæga tölvu með 8 tommu skjá sem tengist Playstation 5-leikjatölvunni þinni í gegnum þráðlaust net. Nútíminn er búinn að prófa tækið en ég bjóst í rauninni við því að geta aðeins notað það á sama þráðlausa WiFi-neti og PS5 væri tengd en neinei – það er hægt að nota þetta tryllitæki hvar sem er svo lengi sem þú ert með ágætis hraða á netinu.

Bara svo það sé á hreinu að þá þarftu að eiga PS5 til þess að geta notað Playstation Portal.

Skjárinn er eins og áður segir 8 tommur og býður upp á 1080p í upplausn með 60Hz endurnýjunartíðni. Gæðin eru virkilega góð en sitthvorum megin við skjáinn eru stýripinnar – það má eiginlega segja að hinn týpíski DualSense-stýripinni hafi verið skorinn í tvennt og skjárinn settur á milli þeirra.

Þessi snilldargræja er frábær viðbót við PS5 en hún er gríðarlega vinsæl vestanhafs.

Ég hafði smá áhyggjur af því að græjan yrði of þung með tilheyrandi álagi á hendur og úlnliði en það kom mér á óvart hversu létt hún var í raun og veru. Portal-inn liggur líka helvíti vel í lófa og auðvelt er að nota alla takka – í raun bara eins og að halda á DualSense stýripinna. Allavega ekki langt frá því. Ekki skemmir svo fyrir að Portal býr yfir sömu haptísku viðbragða-tækninni og við sjáum í fjarstýringum í dag.

Lygilegt hversu vel Portal virkar

Það er sagt að þú getur aðeins spilað þá leiki sem eru „samhæfir Playstation Portal“ en ég hef ekki enn rekist á leik sem ekki er hægt að hlaða upp í þessari handhægu tölvu. Ég prófaði COD, Fortnite og FC24 svo eitthvað sé nefnt og það var ekkert vesen – bara núll. Það eina sem þú þarft að gera þegar þú færð þennan grip í hendurnar er að para hann saman við PS5 tölvuna þína og þá ertu bara „good 2 go“ – svo maður sletti aðeins. Það eina sem ég myndi mæla með er að vera með PS5-tölvuna þína beintengda við routerinn til þess að geta streymt leikina hnökralaust í Portalinn. Ég prófaði til að mynda að fara með hana til félaga míns – tengdist WiFi heima hjá honum og spilaði Fortnite eins og enginn væri morgundagurinn. Hálf lygilegt hversu vel þessi gripur virkar og það fyrir ekki meiri pening en raun ber vitni.

Batteríið er líka flennifínt en það dugar í rúma sex til átta klukkutíma í spilun en það er enga stund að hlaða græjuna með USB-C snúrunni sem fylgir í kassanum.

Portal-græjan gefur frá sér ágætishljóð en hátalarnir eru á bakvið tölvuna sem er eiginlega eini mínusinn við þessa græju – þeir snúa frá þér. En það er hægt að bjarga því á núlleinni því hún er með 3.5mm heyrnartólatengi og því auðvelt að skella bara á sig heyrnartólum og búmm, vandamálið leyst. Batteríið er líka flennifínt en það dugar í rúma sex til átta klukkutíma í spilun en það er enga stund að hlaða græjuna með USB-C snúrunni sem fylgir í kassanum.

Þessi snilldargræja er fullkomin fyrir þá sem vilja spila PS5 á fleiri stöðum en fyrir framan sjónvarpið eða tölvuskjáinn og líka fyrir þá sem eru mikið á flakkinu en langar að grípa í tölvuleik hér og þar. Ég mæli þó eindregið með því að kaupa tösku fyrir gripinn en verð að viðurkenna að ég hef ekki fundið slíka tösku til sölu hér á landi. Nokkrar tegundir eru þó í boði á veraldarvefnum á sölusíðum á borð við Amazon. Þú getur ýtt hér til þess að skoða slíka tösku á Amazon.

Til að gera langa sögu stutta þá er Playstation Portal algjör snilld fyrir alla þá sem vilja ekki vera að burðast með PS5-tölvuna sína út um allt en vilja samt geta tekið leik hvar sem er og hvenær sem er! Playstation Portal fæst meðal annars í ELKO, NOVA og Tölvutek hér á Íslandi á 44.995 kr.- en þess ber að geta að þessi gripur er uppseldur víða um Bandaríkin.

Auglýsing

læk

Instagram