Tökum er lokið á íslensku þáttaröðinni Systrabönd

Tökum á þáttaröðinni Systrabönd lauk nú um helgina. Þættirnir eru framleiddir af Sagafilm og verða þeir sýndir í Sjónvarpi Símans Premium á næsta ári. Silja Hauksdóttir leikstýrir þáttunum sem eru skrifaðir af Björgu Magnúsdóttur, Jóhanni Ævari Grímssyni, Jóhönnu Friðriku Sæmundsdóttur og leikstýrunni Silju Hauksdóttur.

Þegar beinagrind unglingsstúlku finnst á Snæfellsnesi er fundurinn fljótlega tengdur við hvarf fimmtán ára gamallar stúlku árið 1995. Þegar farið er að grafa í málinu þurfa þrjár uppkomnar vinkonur að horfast í augu við drauga fortíðar.  

 Tökurnar gengu vonum framar en þær hafa staðið yfir frá því í lok maí. Þáttaröðin er í heild sex þættir og er mikill spenningur fyrir verkefninu hjá innlendum sem erlendum samstarfsaðilum. 

Framleiðendur þáttanna eru Tinna Proppé, Hilmar Sigurðsson og Kjartan Þór Þórðarson. Þættirnir eru unnir í samstarfi við Sjónvarp Símans, Sagafilm Nordic, Sky Studios, Viaplay sem er í eigu Nordic Entertainment Group (NENT Group), Lumiere og framleiddir með styrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands. Það er bandaríska stórfyrirtækið NBCUniversal Global Distribution sem dreifir þáttunum á heimsvísu. Verkefnið er þróað með styrk frá Media Creative Europe og nýtur 25% endurgreiðslu úr ríkissjóði af framleiðslukostnaði.  

Auglýsing

læk

Instagram