Aðalheiður vill breytingar innan skólakerfisins: „Þetta eru engin geimvísindi“

Aðalheiður Jensen, þjálfari og heilsuráðgjafi í Primal Iceland, er í forsíðuviðtali nýjustu Vikunnar sem kemur út í dag.

Aðalheiður varð ung móðir og segir það hafa mótað sig mest í lífinu. Hún hellti sér í fitness og vaxtarrækt m.a. til að ögra sér og koma sér úr boxinu en fann svo sína hillu annars staðar. Hjá Primal Iceland kennir hún heildræna heilsu, þ.e. samspil líkama, hugar og hjarta, og hefur sú nálgun hjálpað mörgum. Hún vill að þessi nálgun verði færð inn í skólakerfið, því það sé mikilvægt að börn og ungmenni læri inn á líðan sína og kunni að velja sér viðbragð í mismunandi aðstæðum, það geti komið í veg fyrir margvísleg vandamál seinna meir.

„Við getum gert svo miklu betur. Það má t.d. fara meira inn á dýptina hvað varðar mikilvægi heilbrigðs lífsstíls og andlegrar líðanar þannig að þau hafi verkfæri til þess að grípa í þegar þess þarf. Ég efast ekki um það að ef það væri lögð jafnmikil áhersla á að þekkja líkamann og huga sinn eins og það að sinna bóklegu námi, myndum við skila mun sterkari einstaklingum út í samfélagið,“ segir Aðalheiður.

„Þetta eru engin geimvísindi og mjög margir einstaklingar og kennarar að gera frábæra hluti hvað þetta varðar en það er alltaf hægt að gera betur. Ég myndi vilja sjá námsgreinar sem snúa að íþróttavísindum og heilsuvísindum, þar sem verið er að fjalla um líkamann, heilann og hvernig hann fúnkerar og tengslin þar á milli sem og að fræða um stoðkerfið, taugakerfið, líkamsbeitingu, mismunandi hreyfingu og mikilvægi hvíldar, svefns og hugræktar, svo eitthvað sé nefnt. Það er magnað að við séum ekki komin lengra en eigum við ekki bara að trúa því að góðir hlutir gerist hægt,“ segir Aðalheiður viss í sinni sök.

Lesa má viðtalið í fullri lengd á vef Birtings.

Auglýsing

læk

Instagram