today-is-a-good-day

„Aldrei of seint að breyta venjunum sínum“

Sálfræðingurinn Heiða Brynja Heiðarsdóttir starfar hjá Auðnast og sinnir meðferð við kvíðaröskunum, áfallastreituröskun, lágu sjálfsmati og fíknivanda ásamt aðstandendum þeirra sem glíma við fíknivanda og leggur sérstaklega áherslu á samkenndarmiðaða meðferð eða Compassion Focused Therapy (CFT). Auðnast hefur frá árinu 2014 þjónustað fyrirtæki með það sem snýr að andlegri, félagslegri og líkamlegri heilsu og sinnir t.d. úttektum á vinnustöðum, heilsufarsviðtölum, stjórnendaþjálfun, ráðgjöf og fræðslu. Auk þess starfar fjölbreyttur hópur fagaðila á Auðnast klíník þar sem boðið er upp á þjónustu á borð við sálfræðiviðtöl, fjölskyldu- og parameðferð, sálgæslu, markþjálfun og handleiðslu. Blaðamaður Vikunnar settist niður með Heiðu Brynju sem ræddi m.a. mikilvægi þess að sýna sjálfum sér mildi og samkennd.

Janúar getur reynst mörgum erfiður mánuður, sérstaklega eftir annasaman desember með öllum sínum útgjöldum, útstáelsi, óhóflegu áti, of litlum svefni og öllu því sem hátíð ljóss og friðar færir okkur. Þegar blaðamaður byrjar á að spyrja Heiðu Brynju hvort hún finni mun á skjólstæðingum sínum eftir árstíma svarar hún játandi: „Já ég geri það. Samfélagslegu „skyldur“ okkar í daglegu lífi eiga það til að aukast verulega í desember. Kröfur samfélagsins, hraðinn, aðgengið að okkur og harkan bæði í umhverfinu og innra með okkur hefur aukist töluvert síðustu ár og við gefum okkur oft lítinn tíma og rými til að staldra við.

Ekki minnka kröfurnar á okkur í janúar, hvað skal gera á nýju ári? Nýtt ár, ný ég! Fara í detox, aukakílóin burt, edrú í janúar, veganúar, byrja í sjósundi og fleira og fleira og allt þetta í lengsta, dimmasta og oft kaldasta mánuðinum. Það er því mjög algengt að fólk detti dálítið niður og maður finnur vissulega aukin einkenni depurðar, kvíða fyrir vetrinum og hugsanlegt samviskubit og niðurrifshugsanir yfir því að hafa leyft sér of mikið í desember. Að auki detta oft grunnþarfirnar út hjá fólki í desember; þ.e. að sofa nóg, nærast og sinna sjálfu sér. Líðan okkar á það til að sveiflast svipað og öldurnar í sjónum; stundum er lygn sjór og stundum brjálaðar öldur. Til að minnka líkurnar á því að sveiflast með öldunni er mikilvægt að hlúa að sér og sýna sjálfum sér skilning og mildi, gæta þess að eiga nærandi samskipti við fólk og fara í endurheimtina með því að gera það sem skiptir mann máli.“

Streita nauðsynleg upp að vissu marki
Endurheimt er ef til vill orð sem ekki allir þekkja en Heiða Brynja útskýrir það nánar: „Endurheimt snýr að því sem við gerum til að upplifa öryggi og ró til að safna upp orku, næra okkur, andlega og líkamlega, og það er mjög mismunandi hversu langan tíma fólk þarf til þess. Þegar viðvarandi álag hefur verið til staðar í lengri tíma, getur verið gott að tileinka sér hjálplegar aðferðir til að ná aftur ró, en það getur verið misjafnt, og einstaklingsbundið, hvað veitir okkur hana. Hjá sumum er það hreyfing, öðrum eru það félagsleg samskipti, tengsl, róandi tónlist eða gönguferðir. Fyrir suma getur endurheimtin falist í samveru með fólki sem þeim þykir vænt um. Það er mikilvægt að átta sig á því að við erum stanslaust að eyða af batteríinu okkar yfir daginn og það verða að vera ákveðnir hlutir annaðhvort inni í deginum eða á milli daga sem miða markvisst að því að hlaða batteríið.“

Hún segir að í umræðunni í dag sé því miður búið að sjúkdómsvæða ýmis hugtök og gefa þeim neikvæða merkingu sem sé ekki alltaf þess eðlis, streita sé eitt af því. „Streita sem slík er ekki hættuleg en of mikil streita í of langan tíma án þess að komast inn í endurheimt og þegar við erum komin með líkamleg einkenni, þá er hún hugsanlega farin að vera skaðleg. Ef við værum ekki með neina streitu í lífi okkar myndi okkur bara leiðast. Hún er nauðsynleg upp að vissu marki, ákjósanlegt stress og heilbrigð spenna veldur því að við fyllumst kappsemi, getur aukið einbeitingu og veitt okkur gleði og núvitund. En svo er það mikilvægt að endurheimtin komi þess á milli svo við förum ekki yfir línuna og streitan verði of mikil og skaðleg.“

Einstaklingur getur til dæmis verið með gott sjálfsmat í vinnunni sinni og fundist hann alveg vera með allt á hreinu þar. En svo kannski á hann í erfiðleikum með náin samskipti við maka, eða er einhleypur og hefur áhuga á því að eignast félaga eða maka en hefur bara enga trú á sér á því sviði.“

Heilinn hannaður til að „lifa af“
Heiða Brynja segist mikið hafa unnið með samkenndarmiðaða meðferð sem hún segir meðal annars snúast um að átta sig á því og skilja að heilinn vinni á ákveðinn hátt, hann sé hannaður til að „lifa af“ og hann komi því auga á allt sem gæti skapað ógn eða hættuástand og festir það í minnið. „Ef þú til dæmis lendir í árekstri ertu alltaf meðvituð um hættuna sem getur leynst í umferðinni eftir það, ert á verði, jafnvel svolítið viðbrigðin, sem getur verið gott en getur líka gert þig að hvimleiðum aftursætisbílstjóra.

Þetta er ekki okkur að kenna, því svona starfar heilinn okkar, en við þurfum að axla ábyrgð á hegðun okkar. Þetta dæmi er tiltölulega einfalt en svo flækist það aðeins þegar við erum að tala um félagslegar aðstæður. Við erum nefnilega félagsleg „dýrategund“ og félagslegar aðstæður þess vegna flóknari fyrir okkur. Við erum næm fyrir því hvaða augum aðrir líta okkur, fyrir félagslegum „hættum“, að vera ekki með, vera hafnað, eða lítils virði á einhvern hátt, standa okkur ekki, eða vera ekki jafn góð og aðrir. Það hefur svo bein áhrif á sjálfsmatið okkar og þess vegna er mikilvægt að vita að við verðum að hafa fyrir því að muna eftir því góða og verðum markvisst að rifja upp góðu hlutina. Eitt þeirra verkfæra sem við getum notað er að líta yfir daginn og finna þrjá hluti sem við erum þakklát fyrir, eða þrjá hluti sem við erum ánægð með að hafa gert þann daginn.

Til dæmis gæti það verið að hafa sýnt vinnufélaga samkennd eða hrósað honum. Ég ráðlegg mínum skjólstæðingum að byrja á því að tileinka sér eitthvað eitt nýtt og sendi fólk gjarnan út með eina æfingu sem það á þá bara að æfa sig í, til dæmis að bjóða afgreiðslufólkinu góðan dag þegar það fer í búðina og horfa í augun á því. Þetta eru lítil skref en áður en fólk veit af er það farið að bjóða mun fleirum góðan dag en það gerði áður og jafnvel farið að spyrja hvernig fólk hafi það, sem það hefði ekki gert áður. Það er aldrei of seint að breyta venjunum sínum til hins betra og vinna í því að öðlast hærra sjálfsmat.“

„Það er aldrei of seint að breyta venjunum sínum til hins betra og vinna í því að öðlast hærra sjálfsmat.“

Eigum oft auðveldara með að sýna öðrum samkennd en okkur sjálfum
Talandi um sjálfsmat. Skyldi það vera algengt að fólk sýni öðrum meiri mildi og samkennd en sjálfu sér? Heiða Brynja svarar því játandi. „Við erum líka hönnuð þannig að oft eigum við auðveldara með að sýna öðru fólki skilning og mildi og gerum mun óraunhæfari og ósanngjarnari kröfur á okkur sjálf, og sýnum okkur jafnvel alls enga mildi. Raunin er sú að við erum ekki síður móttækileg fyrir þeim skilaboðum sem við gefum okkur sjálf en þeim sem við fáum úr umhverfinu. Segjum sem svo að manneskja eigi það til að gera eitthvað vitlaust og rífi sig svo næstu tvo tímana niður fyrir það, þá eðlilega líður henni ekki vel. Þess vegna er mjög mikilvægt að átta sig á því að við erum öll mannleg og gerum öll mistök og það skiptir mjög miklu máli að við reynum að horfa líka á þá hluti sem við gerum vel og skiljum aðstæðurnar okkar í stærra samhengi.“

Getur sjálfsmat okkar breyst, til hins verra jafnvel, hvenær sem er á ævinni?

„Já, sjálfsmatið er mjög breytilegt alla ævi. Þar sem sjálfsmat snýr helst að þeirri skoðun sem þú hefur á þér og það gildi sem þú hefur um sjálfa þig sem manneskju þá eru góðu fréttirnar þær að þetta eru bara skoðanir og skoðunum er hægt að breyta. Sjálfsmat einstaklings getur líka verið breytilegt á milli hlutverka í lífinu, en hver og einn gegnir mörgum hlutverkum. Einstaklingur getur til dæmis verið með gott sjálfsmat í vinnunni sinni og fundist hann alveg vera með allt á hreinu þar. En svo kannski á hann í erfiðleikum með náin samskipti við maka, eða er einhleypur og hefur áhuga á því að eignast félaga eða maka en hefur bara enga trú á sér á því sviði. Þannig að þetta getur verið misjafnt en þetta er svo sannarlega hægt að leiðrétta og laga. Það eru til mörg verkfæri sem geta hjálpað þér við að koma þessu í betra horf, en þú verður líka að nota þau. Eins og með margt annað er þetta auðvitað mjög einstaklingsbundið líka.“

Lesa má viðtalið við Heiðu Brynju úr Vikunni í heild sinni hér.

Texti: Guðrún Óla Jónsdóttir
Myndir: Rakel Rún Garðarsdóttir

Auglýsing

læk

Instagram