Auglýsing

Arnar Dór:,,Risastór ballaða sem fjallar um ást, söknuð og von“

Söngvarinn og rafvirkinn Arnar Dór lenti í 2.sæti í The Voice árið 2017. Síðan þá hefur hann sett upp nokkra tónleika, m.a. til heiðurs Hauki Morthens og Michael Bublé. Þeir félagarnir, sem unnu að þessum tónleikum, stofnuðu saman hljómsveitina DRAUMAR og í dag fimmtudaginn 20.ágúst kom út þeirra fyrsta lag. Lagið heitir „Ég trúi því“ og er risastór ballaða sem fjallar um ást, söknuð og von.

Höfundur lags og texta, Pétur Erlendsson, er einnig gítarleikari hljómsveitarinnar en þar að auki eru þeir Rafn Hlíðkvist, hljómborðsleikari, Páll E. Pálsson, á bassa, og Jón Borgar Loftsson, trommuleikari, einnig í bandinu.

,,Við erum allir svo góðir vinir, við vinnum vel saman og mikill kærleikur ríkir inni í hópnum,“ segir Arnar Dór. ,,Við erum byrjaðir að vinna að næstu lögum, en núna er „Ég trúi því“ aðalatriðið. Við erum virkilega stoltir af þessu fallega lagi.“

Arnar Dór er giftur söngkonunni Ölmu Rut en þau kynntust í Idol Stjörnuleit árið 2003.

,,Það var stjörnuleit og við fundum hvort annað,“ segir Arnar og hlær. ,,Við tölum um og pælum í tónlist nánast alla daga og hjálpumst að þegar við erum að vinna að giggum og verkefnum. Það er alveg ómetanlegt að vera með svona sameiginlegt áhugamál sem er líka vinnan okkar.“

Nýja hljómsveitin, Draumar, var komin með áætlun um tónleika en vegna samkomubannsins ákváðu þeir að einbeita sér meira að nýrri tónlist. Þegar Arnar Dór er ekki að syngja vinnur hann sem rafvirki og rekur fyrirtækið ADH-raf, svo það má segja að hann sitji ekki auðum höndum.

,,Það er sko aldrei lognmolla hjá mér í neinu, því ég er svolítið ofvirk típa,“ skellir Arnar upp úr.

,,En ég er líka afar þakklátur fyrir að það sé svona mikið að gera hjá fyrirtækinu mínu og í tónlistinni.“

Nýja lagið „Ég trúi því“ er komið á Spotify og allar helstu streymisveitur.

https://open.spotify.com/track/4Tp65GOhULzGORUGXP55la?si=C-AdrW8JQJWDKN_WOH9vTw

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing