Atvinnulausum verður gert kleift að fá atvinnuleysisbætur í námi

Í til­kynn­ingu frá fé­lags­málaráðuneyti segir að at­vinnu­leit­end­um verði gert kleift að hefja nám og fá full­ar at­vinnu­leys­is­bæt­ur í eina önn að ákveðnum skil­yrðum upp­fyllt­um.

„Frí­tekju­mark vegna skatt­skyldra tekna ein­stak­linga sem koma af vinnu­markaði hef­ur verið hækkað úr 4,1 m.kr. í 6,8 m.kr. til að tryggja [þeim sem koma inn í nám af vinnu­markaði] rýmri rétt til náms­lána. Aðgerðirn­ar eru hluti af átak­inu Nám er tæki­færi en mark­miðið er að koma til móts við at­vinnu­leit­end­ur með mark­viss­um aðgerðum og hvetja þá til þess að sækja sér form­lega mennt­un til að styrkja stöðu sína á vinnu­markaði. Aðgerðirn­ar eru hluti af til­lög­um í mennta- og vinnu­markaðsmá­l­um sem áætlað er að verja sam­tals 6,2 millj­örðum króna í“, seg­ir í til­kynn­ingunni.

„Fjármögnun er tryggð fyrir allt að 3.000 atvinnuleitendur sem hafa verið án atvinnu í sex mánuði eða lengur og vilja skrá sig í nám í dagskóla á vorönn 2021, haustönn 2021 eða vorönn 2022. Kjósi atvinnuleitendur að hefja nám mun það ekki hafa áhrif á bótarétt og nýtingu hans.“

„Við vitum að næstu misseri verða krefjandi á ýmsum vígstöðvum en við ætlum að blása til sóknar og gera atvinnuleitendum betur kleift að stunda nám án þess að missa rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Við ætlum þannig að koma til móts við atvinnuleitendur með markvissum aðgerðum, skapa þekkingu og virkja kraft til framtíðar. Það er skynsamlegt fyrir okkur sem samfélag að verja fjármunum í að virkja atvinnuleitendur til náms. Slíkt skilar sér í aukinni færni, þekkingu og verðmætum fyrir samfélagið allt til lengri tíma,” segir Ásmund­ur Ein­ar Daðason, fé­lags-og barna­málaráðherra.

Auglýsing

læk

Instagram