„Ég hef fengið að kynnast hliðum af sjálfum mér sem ég hefði ekki kynnst hefði Covid ekki komið til“

„ÞÍN EIGIN LEIГ er hlaðvarp þar sem Friðrik Agni kynnist áhugaverðu fólki sem fer sínar eigin leiðir. Tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýrsson er gestur Friðriks að þessu sinni.

70% tekjufall á Covid

„Covid hefur snert okkur öll,“ segir Páll Óskar en hann er kominn á úrræði stjórnvalda varðandi peningamál, eins og flestir aðrir listamenn á landinu. Hann var þó aldrei kvíðinn yfir þessu og hefur aldrei orðið einmana. „Ég fattaði að ég er introvert og nýt þess að vera heima, kynnast heimilinu og semja. Ég hef fengið að kynnast hliðum af sjálfum mér sem ég hefði ekki kynnst hefði Covid ekki komið til,“ segir hann.

Tími til að losa sig við óþarfa

„Fókusinn er á hvernig hef ég það? Er ég að sinna mínum grunnþörfum? „ spyr hann sig. Þetta var fyrsta árið í lífi hans sem hann keypti engin föt og líður vel með það. Hann skar bara af eyðslu. Eins og hann segir: „Tími til að losa sig við óþarfa.“

Þakklæti í hámarki

„Stundum líður mér eins og ég hafi ekki gert neitt, þá fer ég á Spotify. Maður lærir að vera bara stoltur og þakklátur með árunum.“ Það er á tímum eins og þessum sem minnir hann á mátt þakklætis. „Ég er þakklátur í hvert skipti sem síminn hringir og það er verið að bóka gigg.“

Allt fyrir ástina var comeback fyrir þjóðina en ég fór ekki neitt

Flestir þekkja Pál Óskar sem poppstjörnu Íslands en hann byrjaði ungur og hættir aldrei að æfa sig. „Allt fyrir ástina var comeback fyrir þjóðinni en ég fór ekki neitt. Ég var tilbúinn með beltin spennt. Ég var undirbúinn, var að æfa.“

Hæfileiki, sýn og metnaður

„Hæfileiki, sýn og metnaður“ er uppskriftin til að ná forskoti, komast á verðlaunapall eða ná geggjuðum árangri samkvæmt Palla. „Ég held sem betur fer að ég sé með þetta allt – ástæðan fyrir að ég er hérna ennþá.“ Hann vill einnig bæta ástríðu í þetta mix. „Ástríða drullar fólki á næstu æfingu.“

Allar manneskjur hafa einhverja gjöf

Hann hvetur alla krakka að taka þátt í öllu sem þau hafa áhuga á. Prófa allt því á þessum árum finna þau hvar þau fá viðbrögð við því sem þau eruð að gera. Eins og Palli segir: „Allar manneskjur hafa einhverja gjöf. En sum okkar þurfa smá hjálp til að fatta í hverju gjöfin felst.“

Þú getur ekki stjórnað viðbrögðum annarra

„Þú getur ekki stýrt hvort fólk fílar þig,“ lýsir Palli, því annars myndi allt sem maður gerir slá í gegn. Hann hefur átt við mikla fullkomnunaráráttu að stríða en lætur hana ekki stoppa sig. „Ekki leyfa fullkomnunaráráttunni að stjórna ferðinni. Ég og áráttan erum bestu vinir núna. Maginn segir mér hvenær verkið er tilbúið og hvenær ekki.“

Samfélagsmiðlar eru lygar og segja FOKKJÚ

„Ég fæ hnút í magann ef ég pósta einhverju. Ég er svo hooked á viðurkenningu annarra,“ segir Palli og segir að hann hafi alltaf verið þannig að einhverju leyti en hann sé að reyna að taka þennan gaur föstum tökum því honum líði ekki vel á samfélagsmiðlum. „Næsta kynslóð verður að fatta að samfélagsmiðlar eru lygi og segja fokk jú. Þetta er ekki samtal. „

Palli vill meina að nú vanti bara umferðarljós, eins og þegar bíllinn kom fyrst. Það komu slys og því urðum við að búa til reglur sem allir skilja. „Við eigum eftir að gera umferðamerki á samfélagsmiðlum.“

Ég hefði ekki viljað koma út við þessar aðstæður

„Ég hefði ekki viljað koma út 1987 við þessar aðstæður. Fúkyrðin sem ég upplifði á þeim tíma á eigin skinni hefðu verið 1000-föld ef Facebook hefði verið til á þessu tíma.“  Palli lýsir harkalegum viðbrögðum foreldra sinna þegar hann sagði þeim frá kynhneigð sinni en hann hefur eytt öllu lífinu að afsanna þeirra bölbænir. „Það tók mig tíma að fyrirgefa þeim þeirra viðbrögð.“

„Ég dó ekki úr aids, hef aldrei verið rekinn úr íbúð og vinnu. Gaman að fá bölbænir 17 ára og afsanna þær allar með tölu. Það að ég sé hommi er ekki upphafið né endirinn á mínum ferli.“

Frá Hörpu í að syngja í jarðarförum

Páll Óskar fór úr því að fylla viðburði í Laugardalshöll og Hörpu yfir í að syngja í jarðarförum. „Jarðarför er þjónusta þar er enginn að slá í gegn heldur kemur þjónustuhlutverk listamanna í gegn,“ segir Palli og segir að streymið sé komið til að vera í jarðarförum, sérstaklega fyrir eldra fólk sem á erfitt með að komast á milli staða.

Hann lýsir árunum 2007 til 2015 sem galin ár þar sem vinnuálagið var mikið, jafnvel 4 til 5 gigg á viku. „Í dag svimar mér við tilhugsunina. Ég skil ekki hvernig ég gat þetta og langar alls ekki á þennan stað aftur.“

Í dag er hann sáttur við eitt gigg í viku. „Ég vil eiga einkalíf. Njóta og slaka á í skrokknum.“

Jólin eru sjálfstestið

Þessi jól verður hann sáttur ef hann fær þennan frið í magann kl. 18 á aðfangadag. „Þegar klukkurnar hringja inn og allir landsmenn andvarpa. Þegar 350.000 manneskjur andvarpa og hugsa það sama á sömu sekúndu þá kemur jólafriðurinn. Jólin er sjálfstestið – hvar stend ég ?“

Traustið kemur ekki fyrr en bóluefnið kemur

„Ég hlakka til að bóluefnið komi. Þá kemur traustið aftur hjá áhorfendum.Traust til að vera nálægt öðru fólki. Traust til að dansa, vera utan í öðrum. Traustið kemur ekki fyrr en bóluefnið kemur.“

Hlusta má á viðtalið á Spotify og á öllum helstu hlaðvarpsmiðlum.

 

Auglýsing

læk

Instagram