Auglýsing

Mikilvægi þess að endurskoða kennsluaðferðir kennara

Mismunun í kennslu í garð kvenna er hrikalega mikil. Veltum því aðeins fyrir okkur hverjir það eru sem eru valdamestir í heiminum í dag. Eru það karlar eða konur? Það eru karlar. 76 prósent af leiðtogum heimsins eru karlar en aðeins 24 prósent konur. Ég get ekki staðfest það en ég get ekki ímyndað mér að í 76 prósent af öllum kosningum til forystu hafi karlinn verið hæfari en konan á móti honum Það er líka hægt að spyrja sig hvort konur hafi yfirhöfuð fengið leyfi til að bjóða sig fram.

Sjá einnig: Útrunninn Hugsunarháttur

Dæmi má taka um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir að Hillary Clinton sé ekki gallalaus þá er hún miklu hæfari til þess að sinna starfi forseta heldur en Donald Trump. Ég tala aðeins ú frá minni skoðun en mín skoðun er byggð á neikvæðum fréttum og viðburðum sem að hafa átt sér stað í Bandaríkjunum eftir að Trump tók við.

Auðvitað eru ekki allir karlkyns leiðtogar óhæfir. Ég vil alls ekki halda því fram. Ég hef fylgst með ótrúlega flottum körlum í pólitík eins og Bernie Sanders, Barack Obama og okkar ástkæra forseta Guðna Th. Alls ekki allar konur geta verið góðir leiðtogar, frekar en karlar, en það eru þó nokkuð margar sem hafa fullkomna hæfni til þess.

Tökum sem dæmi Vigdísi Finnbogadóttur sem við vitum öll hver er, Alexandriu Ocasio Cortez þingkonu í Bandaríkjunum og Sahle Work Zewde nýkjörinn forseta Eþíópíu. Allar þessar konur þurftu að klífa himinhá fjöll til þess að komast á þann stað sem þær náðu. Þetta eru auðvitað myndlíking en þessi himinháu fjöll byggjast í raun að stærstum hluta á þeirri staðreynd að þær eru konur. Ég get varla ímyndað mér hvernig heimurinn væri í dag ef konur hefðu fengið sömu möguleika á stjórnunarstöðum og karlar í gegnum árin. Það eru góðir dagdraumar ef ég á að segja eins og er.

Það er þó aldrei of seint að berjast fyrir jafnrétti. Þrátt fyrir að kvenréttindi hafi náð ótrúlega langt í dag þá er ennþá líklegra fyrir karl að sigra í kosningum á móti konu aðeins út af þeirri staðreynd að hann er karlmaður en ekki hún. Ég hef séð þetta gerast í stjórnarkosningum í Menntaskólanum á Akureyri og síðan hef ég einnig tekið eftir þessu hjá viðhorfi nemenda til kennara. Við einhvernvegin leggjum meira traust til karlmanna til að stjórna.

En af hverju?

Í sögu, heimspeki, siðfræði, íslensku og öðrum fögum er okkur kennt um þá karla sem hafa sett mark sitt á söguna. Ég held áfram að spyrja mig hvar eru konurnar? Ég vil taka eitt dæmi úr glærupakka sem mér var sýndur af nemanda þar sem stóð með stórum stöfum á fremstu glærunni „Ferðalag hugmynda. Lýðræði og Mannréttindi“. Ekki ein manneskja á þessum lista var kona. Eitt stærsta baráttumál í mannréttindum heimsins er kvenréttindabarátta. Eins og Hillary Clinton orðaði það “human rights are woman rights, and woman rights are human rights”.

Kvenréttindabaráttan er einnig ein af sigursælustu mannréttindabaráttum heims og hefur orðið til þess að lögum hafa verið breytt, menning hefur tekið breytingum, gildi og viðmið hafa aðlagast nýjum tímum sem að höfðu verið föst í samfélaginu í mörg hundruð ár. Þær konur sem komu að þessari baráttu um heim allan eiga skilið að vera nefndar í sögutíma, heimspeki, siðfræði eða þar sem það á við. Því kvenréttindabaráttan er jú afar mikilvægur hluti af sögunni, ekki aðeins fyrir allar konur heimsins heldur einnig mikilvæg fyrir alla jarðarbúa. Við skulum því ekki gleyma þeim konum sem umbreyttu heimi vísindanna eins og til dæmis Marie Curie og Rosalind Franklin, heimi heimspekinnar eins og Simone de Beauvoir og svo mætti lengi telja.

Um daginn fór ég inn á heimasíðu Menntaskólans á Akureyri og skoðaði lýsingu allra söguáfanga og hvaða áherslur voru lagðar í hverjum áfanga fyrir sig og eins þau tímabil sem voru til kennslu. Á hverju einasta þessara tímabila voru uppi konur sem ættu það jafnmikið skilið að vera nefndar á nafn alveg eins og þeir karlar sem nefndir eru. Ég er ekki að leggja til að við bætum við meira námi (þar sem búið er að skera framhaldsskólann niður í þrjá vetur) heldur aðeins að við endurskoðum kennslu hættina í skólunum okkar. Ef við kennum unga fólkinu okkar aðeins um þá karlmenn sem hafa stjórnað og breytt heiminum á tímum stríðs og öðru sem markvert er í sögu heimsins þá auðvitað mun traust okkar liggja hjá þeim í framtíðinni.

Eiga konurnar ekki líka skilið að vera nefndar á nafn og frá afrekum þeirra sagt? Hvað haldið þið að gæti breyst ef við breyttum aðeins til? Hvað ef við kenndum unga fólkinu okkar til jafns um þær konur og þá karla sem hafa lagt sitt af mörkum í gegnum tíðina? Við getum einnig vakið áhuga ungra kvenna, gefið þeim fyrirmyndir af sama kyni til að líta upp til. Með þessu gætum við haft gríðarleg áhrif á undirmeðvitund nemenda í garð kynjanna og valdastöðu þeirra. Við gætum byggt upp traust til kvenna til stjórnvalda líkt og við höfum verið að gera svo lengi í garð karlmanna. Með kennslu byggða á jafnréttislegum grundvelli græða allir.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing