Strætó biður unga móður afsökunar, keyrði af stað með barnavagn í dyrunum

Fram­kvæmda­stjóri Strætó bs. hef­ur beðið móður ungs drengs af­sök­un­ar en dreng­ur­inn var hætt kom­inn í gær þegar barna­vagn hans fest­ist hálf­ur inni í stræt­is­vagni sem var ekið af stað. Þetta kemur fram á mbl.is.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., segir í samtali við mbl.is að það verðið skoðað hvað fór úrskeiðis í þessu tilfelli.

Í fyrsta lagi eiga dyrn­ar ekki að geta lokast ef eitt­hvað er á milli þeirra, og í öðru lagi á vagn ekki að geta farið af stað ef dyrn­ar eru opn­ar.

Móðirin Klara Arnalds sagði í færslu um málið á Facebook í gær að vagnstjórinn hafi ekki beðist afsökunar á atvikinu. Í nýrri færslu segist hún hafa skilað til Jóhannesar að vagnstjórinn hefði gjarnan mátt sýna betri viðbrögð, biðjast afsökunar eða athuga með hana og son sinn.

„Eftir að mér er runnin mesta reiðin vona ég kannski ekki lengur að hann „éti það sem úti frýs“, en hann má amk fá að vita að hann var ekki sérlega kurteis eða manneskjulegur við skelkaða unga mömmu í gær,“ segir hún á Facebook.

„Að lokum bauð hann mér áfallahjálp í boði Strætó sem ég afþakkaði reyndar, nokkur knús frá familíunni og bros frá snáðanum mínum ættu alveg að duga. En mér fannst það fallega boðið.“

Í fyrri færslu sinni vildi hún koma á framfæri þökkum menntaskólastúlku sem kom henni til hjálpar eftir atvikið.

„[Hún] kom og settist hjá grenjandi, snöktandi horfjallinu mér, spjallaði við mig alla leiðina og fór út einni stoppustöð síðar en hún ætlaði til þess eins að geta hjálpað mér út með vagninn. Þessi fröken er greinilega með hjarta úr gulli, og mér þótti verulega vænt um þetta.“

Mbl.is greinir frá því að í ljós hafi komið að hún þekkti systkini um­ræddr­ar stúlku. Henni tókst því að koma þökk­um á fram­færi í gegn­um þau.

Auglýsing

læk

Instagram