today-is-a-good-day

Morð, endur og sálfræðihjálp

Nokkrar endur hafa gert sig heimakomnar í sundlaug einhvers staðar í New Jersey fylki Bandaríkjanna. Hálfsköllóttur maður í nærbuxum og náttsloppi veður út í og reynir að gefa þeim brauð. Hann er stoltur af gestunum og eyðir góðum tíma í að gefa þeim. Svo fljúga þær burt. Maðurinn horfir forviða á þangað til hann fær kvíðakast af stærri gerðinni og fellur í yfirlið.

Í gær voru tuttugu og þrjú ár síðan þetta blasti við sjónvarpsáhorfendum. Fyrsti þátturinn af The Sopranos sló rækilega í gegn og sýndi einungis brotabrot af hvers þættirnir voru megnugir. Hugmyndin kom frá höfundinum David Chase, en hún þróaðist úr hugmynd að lítilli kvikmynd yfir í sjónvarpsþætti á nokkrum árum.

Í þáttunum er sagt frá raunum mafíósans Tony Soprano, en hann þarf að halda nokkrum boltum á lofti, þá helst tveimur fjölskyldum; sinni eigin og svo hinni fjölskyldunni, sem stundar skipulagða glæpastarfsemi í fylkinu.

Sex seríur voru sýndar á bilinu 1999 til 2007 og fá lof enn þann dag í dag, ef einhver miðill telur upp bestu sjónvarpsþætti sögunnar er glæpadramað oftar en ekki í topp fimm. Það er vel hægt að færa rök fyrir því að þættirnir hafi breytt landslagi sjónvarps til muna, hvað varðar sagna- og kvikmyndagerð, persónusköpun og svo auðvitað ofbeldi.


ÓTVÍRÆÐ ÁHRIF

Þegar Sopranos kom fyrst út vöktu þeir athygli fyrir grímulaust ofbeldi. Það líður ekki langt á fyrsta þátt þegar tékkneskur glæpamaður er tekinn af lífi á nokkuð hrottalegan hátt.

Í seinni tíð hafa gagnrýnendur og spekúlantar horft á þáttaröðina sem byltingarkennda á svo marga aðra vegu. Þegar Sopranos fjölskyldan kom til sögunnar varð allt í einu hægt að segja langa sögu í mörgum bútum. Fyrsta serían er ekki nema þrettán klukkutíma langir þættir sem var fáheyrt á þeim tíma.

Sjónvarpsstöðin HBO var að ná nýjum hæðum á seinni hluta tíunda áratugarins. Beðmál í borginnihófu sýningar árið 1998 og slógu rækilega í gegn. Bandaríkjamenn flykktust til að kaupa sér kapalsáskrift.

Þegar Sopranos hóf sýningar ári síðar var toppnum náð. HBO sýndi bæði áhorfendum og öðrum sjónvarpsframleiðendum að það mátti gera eitthvað nýtt með miðilinn.


RAUNVERULEGAR BIRTINGARMYNDIR

Sagan í sjálfu sér er ekkert svakalega óhefðbundin. Mafíósaforingi þarf að halda jafnvægi á milli einnar fjölskyldu og svo hinnar.

Það eru persónurnar, hliðarsögurnar, ofbeldið og myndmálið sem ýtir Sopranos á stall sinn sem ein besta sjónvarpsþáttasería sem við höfum séð. Hlutir sem við teljum sjálfsagða í dag voru brautryðjandi þegar þeir komu fram í Sopranos.

Við fengum að sjá forhertan glæpamann, svo að segja siðlausan morðingja, þjást í stól sálfræðings með raunveruleg og viðtengjanleg vandamál. Endurnar sem flúðu úr sundlauginni hans myndlíking fyrir togstreituna á milli þess að halda mafíufjölskyldunni gangandi annars vegar og raunverulegri kjarnafjölskyldunni hins vegar.

Tony Soprano var engan veginn góð manneskja, en maður fann til með honum. Hann hafði ábyrgð heimsins á herðum sér, var verulega skaddaður eftir uppeldi og með drykkjuvandamál ofan á það.

Skrímsli hafa tilfinningar líka, segja Sopranos. Að einhverju leyti.

Einnig hefur mikið verið mært hvernig ungmenni voru sýnd á skjánnum, þá helst í formi barna Tony og Carmela, AJ og Meadow. Börn aðalpersóna í þáttum eru oftar en ekki staðalmyndir af börnum og unglingum. Strákurinn er venjulega prakkari af guðs náð og stelpan er uppreisnargjörn og gengur gegn gildum fjölskyldunnar.

Staðan er svona að vissu leyti, þau passa bæði í sína hvora staðalmyndina. Það er hins vegar dýpt í þeim báðum, AJ prakkarast og stundar afbrotahegðun því hann þjáist af sömu kvíðaröskun og pabbi sinn.

Uppreisnargirni Meadow varpaði ljósi á sjálfsmynd hinna karakteranna sem afkomendur ítalskra innflytjenda.

Þetta er gegnumgangandi þema í þáttunum. Persónurnar mæra mjög svo ítalska arfleifð sína, borða pasta og kjötbollur, segja slanguryrði og stunda skipulagða glæpastarfsemi, à la heimalandið.

Meadow hins vegar setur allt í uppnám þegar hún lærir um Christopher Columbus í skólanum. Mörgum árum áður en umræðan fékk almennilegan hljómgrunn í Bandaríkjunum talar kennarinn hennar um að Columbus, sem er mikið sameiningartákn ítalskra-Bandaríkjamanna, hafi ekki verið annað en fjöldamorðingi í för sinni um Ameríkurnar.

Einkenni og sjálfsmynd þessara persóna er mjög mikilvægur hluti af þáttunum. Hvað þýðir það að vera afkomandi af þessu tagi og vinna í skipulagðri glæpastarfsemi? Kemst maður nokkurn tímann út?


„STÓRSKOTALIГ LEIKARA

Leikaralið þáttanna var skipað að miklu leyti af fólki sem hafði ekki öðlast neina sérstaka frægð fyrir kvikmyndaleik. James Gandolfini sem lék aðalkarakterinn Tony Soprano hafði birst í fáeinum kvikmyndum og þá oftast í hjáverkum, frægastur ef til vill fyrir aukahlutverk í True Romance. Edie Falco sem lék konu hans Carmela hafði aðeins lengri ferilskrá, þá helst úr þáttaröðum. Hún var í mörg ár í bæði Homicide: Life on the Street og Law & Order.

Með öðrum leikurum var skotið til mafíósamynda níunda og tíunda áratugar síðustu aldar. Nokkrir aðalleikarar léku í kvikmynd um ævi mafíósans John Gotti árið 1996 og enn fleiri voru með hlutverk í einni frægustu mafíósamynd okkar tíma, Goodfellas.

Þar má helst nefna Lorraine Bracco, en hún leikur sálfræðinginn Jennifer Melfi. Bracco lék eiginkonu Henry Hill í Goodfellas og sló þar í gegn.

Einnig úr Goodfellas voru Frank Vincent og Michael Imperioli, til að nefna örfá dæmi.

Eitt áhugaverðasta leikaravalið er í formi Silvio Dante, sem er annar af nánustu samstarfsmönnum Tony. Hann er leikinn af söngvaranum og gítarleikaranum Steve Van Zandt, best þekktur fyrir að spila með Bruce Springsteen. Hann hafði aldrei leikið neitt áður og var valinn í þungavigtarhlutverk, svo að segja beint af götunni.

Seinna meir lék hann aftur glæpon í þáttunum Lilyhammer.

HBO vann aðeins með þetta í öðrum seríum, annar meðlimur E Street bandsins hans Bruce Springsteen, Clarence Cleamon, lék aukahlutverk í The Wire.


AFLEIÐINGARNAR

Tveimur árum eftir að HBO veðjaði á hugmynd David Chase var framleidd ný sería úr smiðju handritshöfundarins Alan Ball. Sú fjallaði um raunir fjölskyldu sem rekur útfararheimili.

Ári síðar var samþykkt að framleiða þætti um Baltimore borg frá sjónarhorni lögreglunnar og undirheimanna.

Þessir tveir þættir, Six Feet Under og The Wire eru jafnan taldir upp á meðal bestu tíu sjónvarpsþátta allra tíma. Það má færa rök fyrir því að ef Sopranos hefðu aldrei komið til sögunnar, hefðum við ekki fengið tímamóta seríur á borð við þessar tvær, allavega ekki strax.

Sopranos breyttu forminu og fóru yfir strikið í mjög mörgu. Hið mikilvæga í því samhengi er að fólk horfði og hélt áfram að horfa. Svigrúm varð fyrir stórum og metnaðarfullum seríum með flóknum karakterum sem voru ekki endilega hetjur. Án Tony Soprano hefði vegferð Walter White líklega ekki verið eins vinsæl.

Sopranos kenndi okkur mjög margt, allt frá fyrsta þætti að umdeilda lokaþættinum. Aðdáendur glæponasagna fengu sinn skerf en hinn almenni áhorfandi fékk að njóta sögunnar og karakteranna. Meingallaðir eins og allir þessir karakterar eru, þá fann maður til með þeim.

Eins og kom fram áður, þá hafa skrímsli líka tilfinningar. Að einhverju leyti.

 

Texti: Arnór Steinn Ívarsson
Auglýsing

læk

Instagram