today-is-a-good-day

Of gróft fyrir bíóhúsin – Geirvörtur ekki boðlegar á plakötum

Það er vanmetin listgrein að hanna grípandi kvikmyndaplakat. Flottustu veggspjöldin geta vakið upp mikla forvitni fyrir verkinu en um leið endurspeglað fullkomlega innihald þess. En veggspjöld eru vissulega notuð fyrst og fremst í kynningar- og markaðstilgangi og geta hönnuðir af og til gengið aðeins of langt.

Oft kemur það fyrir að plaköt eru gefin út án þess að framleiðendur eða hönnuðir hafi nokkra hugmynd um að farið sé út fyrir velsæmismörk, en eftir tvær, þrjár eða fimmhundruð kvartanir er kannski þess virði að endurskoða það sem afhjúpað var. Í slíkum tilfellum eru plakötin afturkölluð og sett á kristaltæran bannlista.

Hér eru ýmis dæmi um veggspjöld sem gengu hreinlega fram af bíógestum og fleirum.

Athugið að mörg þessara veggspjalda eru ekki við hæfi barna… sem gerir þau auðvitað meira spennandi. Þetta er brot úr lengri umfjöllun.

 

 


SIN CITY: A DAME TO KILL FOR (2014)

Kynþokki selur en í Bandaríkjunum þarf að fara rétt að. Í tilfelli myndarinnar Sin City: A Dame to Kill For þótti geirvarta leikkonunnar Evu Green ekki alveg vera fólki bjóðandi. Ekki er þó hægt að saka plakatið um vörusvik í ljósi þess að Green sést á Evuklæðunum nánast alla myndina.

 


ZACK & MIRI MAKE A PORNO (2008)

Bandaríska kvikmyndaeftirlitið er heldur ekkert voðalega hrifið af því þegar ástaratlot eru gefin til kynna í kynningarefni. Ofangreint plakat fyrir gamanmyndina Zack and Miri Make a Porno var gríðarlega umdeilt vestanhafs (en prýðir enn DVD umslögin hér heima á Íslandi, þar sem enginn kippir sig upp við neitt – vei!). Leikstjóri myndarinnar, Kevin Smith, ákvað þó að svara gagnrýninni með töluvert mildari kynningarherferð og notaði þá þetta í staðinn…

 


SAW II (2005)

Þó að hér hafi verið um hryllingsmynd (eða pyntingarklám?) að ræða voru afsöguðu puttarnir aðeins of mikið af hinu góða. Í staðinn var ákveðið að gera málamiðlun og var þetta notað í staðinn…

 


TEETH (2007)

Kómíska hrollvekjan Teeth fjallar um nákvæmlega það sem plakatið gefur til kynna. Myndin segir frá ungri stúlku sem glímir við afar sérstakt vandamál, sem lýsir sér þannig að karlmenn sem stunda kynmök við hana án hennar samþykkis hljóta bítandi örlög. Það er því ekki hægt að segja að plakatið ljúgi, en sumir telja eflaust að margt sé betur geymt fyrir ímyndunaraflið. Hressandi mynd samt…

 


THE PEOPLE VS. LARRY FLYNT (1996)

Uppskriftin til að stuða bandaríska kvikmyndaeftirlitið felur það í sér að blanda saman föðurlandsást, kynlífi og trú í einni sveiflu. Þess vegna kemur lítið á óvart að kvikmyndin The People vs. Larry Flynt hafi lent á radarnum, en annað væri ekki í stíl við sjálfan manninn sem fjallað er um.

 


THE GIRL WITH THE DRAGON TATTOO (2011)

Þið vitið hvað sagt er um (bíó)markaðsmenn og geirvörtur?

Flott plakat samt.

 


SHAME (2011)

Kvikmyndin Shame segir frá kynlífsfíkli sem er túlkaður af Michael Fassbender. Segja má að myndin sé vægðarlaus og gefi opna og á tíðum truflandi sýn á líf fíkilsins. Áferðin á heiti myndarinnar á þessu plakati fór þó fyrir brjóstið á óskaplega mörgum. En ætli það sé augljóst hvers vegna?

 


BAD LIEUTENANT: PORT OF CALL NEW ORLEANS (2009)

Þetta plakat fyrir Bad Lieutenant ‘endurgerðina’ þótti einfaldlega ósmekklegt með öllu.

Líklegast vegna þess að Nicolas Cage horfrði ekki í myndavélina.

 


BEREAVEMENT (2010)

Kennsla nr. 1 í plakatsgerð: Helst ekki leyfa barni að halda á eggvopni.
Það pirrar krúttlega kvikmyndaeftirlitið víst. Allavega í Bandaríkjunum.

 


THE RULES OF ATTRACTION (2002)

Stundum þarf hvorki afsagaða útlimi né nekt til þess að fólki blöskri. Í tilfelli kvikmyndar eins og The Rules of Attraction frá árinu 2002 (kvikmynd sem snýst í grunninn um spólgröð ungmenni) var alveg nóg að ganga yfir strikið með krúttlegum leikfangadýrum í öllum heimsins stellingum.

 

 

Auglýsing

læk

Instagram