Heillaðist af sögu Vigdísar Finnbogadóttur

Auglýsing

„Ég sá norðurljósin þegar ég kom til Íslands í fyrsta skipti og því mun ég aldrei gleyma. Þvílík upplifun! Það var bara eins og ég hefði stigið inn í eitt af ævintýrum H.C. Andersen, sem ég las mikið sem barn.“

Þetta segir óperusöngkonan og tónskáldið Alexandra Chernyshova. Alexandra tók þátt í nokkrum söngvakeppnum á meðan hún lærði söng við tónlistarháskólann og segist þannig hafa fengið nokkra athygli.

 Þetta er brot úr lengra forsíðuviðtali Vikunnar. 

Finna má viðtalið í heild sinni á áskriftarvef Birtíngs.
Sjö daga fríáskrift er í boði fyrir nýja áskrifendur.

 

„Eftir aðeins eitt ár í söngnámi var mér boðið að syngja með úkraínsku útvarpssinfóníuhljómsveitinni í Kænugarði og ég tók upp nokkur lög með henni. Ég man sérstaklega eftir úkraínska laginu „Bile misto“, Hvíta borg, eftir O. Shapovalenko sem var mjög vinsælt í útvarpinu. Eftir tvö og  hálft ár í söngnámi, þegar ég var orðin átján ára, var mér boðið að syngja einsöngshlutverk í nýrri úkraínskri óperu, Ivasik – Telesik eftir O. Zerbakov í Kiev Musical Academical Theater of Opera and Ballet, sem var algjörlega ógleymanleg upplifun. Ég söng nokkrar óperusýningar við óperuhúsið en þessi sýning vakti rosalega athygli og gerði mikla lukku.“

Auglýsing

Um sumarið bauðst Alexöndru að fara með stúlknakór Kiev Glier á tónlistarhátíðina Marktoberdorf Sacra Music Festival í Þýskalandi. „Eftir velheppnaða tónleika á hátíðinni kom til mín Adolf Rabus, stjórnandi Akademíunnar í Marktoberdorf. Hann bauð mér að koma á Masterklass hjá Pr. Hanno Blascke en ég fékk fullan styrk, svokallað stipendium frá Marktoberdorf-akademíunni, þrjú ár í röð og lærði kammermúsik með prófessornum. Það var ógleymanlegt reynsla og þekking. Ég kláraði tónlistarháskólann með hæstu einkunn og komst svo inn í óperunám í Odessa-tónlistarkademíunni og fékk þar líka fullan styrk sem efnilegur söngnemandi. Á þessum árum vann ég alþjóðalega óperukeppni í Rhodes á Grikklandi og í Úkraínu var ég valin „Nýtt nafn Úkraínu“ í söng. Ég sá svo auglýsingu frá Óperu- og ballettleikhúsi Kænugarðs þannig að ég ákvað að fara í áheyrnarprufu og fékk í framhaldinu fastráðningu þar. Guð, ég var svo glöð að komast inn í óperuleikhús og fara að vinna með það sem mér finnst ég gera best, að syngja og leika,“ segir hún brosandi.

„Þar söng ég fjölbreytt óperueinsöngshlutverk, flest voru á úkraínsku úr úkraínskum óperum, sem voru samin sérstaklega fyrir börn og unglinga, en svo voru líka settar upp óperur eins og Rigoletto eftir Verdi. Ég var einmitt að undirbúa óperuhlutverk Gildu í Rigoletto áður en ég flutti til Íslands. En svo hitti ég Jón á Spáni og allt breyttist í lífi mínu: Ég var yfir mig ástfangin og það eina sem mér fannst skipta máli fyrir mig var að vera með honum. Ég var svo hamingjusöm með Jóni þannig að ég ákvað að flytja til Íslands og stofna fjölskyldu með honum.“ 

En Alexandra hætti ekki að syngja þótt hún væri flutt til Íslands. Hún hefur sungið víða og auk þess hefur hún samið þrjár óperur, þar á meðal um íslenska kvenskörunga. Ein þeirra fjallar um Ragnheiði Brynjólfsdóttur og önnur um frú Vigdísi Finnbogadóttur.

Hvers vegna þessi áhugi á að semja óperur um íslenskar konur?
„Ég er alltaf að reyna að mennta mig meira í söng og tónlist. Þegar ég bjó á Hofsósi heyrði ég um evrópskt meistaranám, New Audience and Innovative Practise (NAIP), í samstarfi fimm helstu tónlistarakademía í Evrópu og Listaháskóla Íslands. Mér fannst það hljóma mjög spennandi því þar gat ég lært tónsmíði, kynnst nýju efnilegu tónlistarfólki og ef til vill fundið nýjar leiðir til að vinna við eitthvað sem færi aðeins út fyrir minn klassíska óperusöngsramma.

Á fyrsta námsári við LHÍ í Reykjavík bjó ég hjá Guðrúnu Ásmundsdóttir, leikkonu og vinkonu minni. Svo keyrði ég heim á Hofsós tvisvar í viku til að sinna stráknum mínum og söngskólanum mínum, Söngskóla Alexöndru. Það var mér mikil gæfa að kynnast Guðrúnu, þessari flottu leikkonu, leikstjóra og rithöfundi. Mér fannst ég vera heima og ég gat einbeitt mér að náminu líka í Reykjavík. Þegar ég sagði Guðrúnu að ég væri að leita að skemmtilegum sögum um íslenskar konu til að skrifa óperu fyrir útskriftarverkefni mitt, sagði hún mér þessa sögu, sem allir Íslendingar þekkja, um Brynjólf og Ragnheiði, Daða og Hallgrím Pétursson. Ég varð strax mjög snortin af sögunni og lögin fæddust við píanóið heima hjá Guðrúnu eitt af öðru. Þannig byrjaði þetta. Það var saga Guðrúnar Ásmundsdóttir um vináttu Hallgríms Péturssonar og Ragnheiðar Brynjólfsdóttur sem snerti hjarta mitt svo djúpt að það varð til heil ópera í tveimur þáttum fyrir 11 einsöngvara, óperukór og hljómsveit,“ segir Alexandra og brosir.

„Óperan var frumsýnd árið 2014 á staðnum þar sem Hallgrímur Pétursson var prestur og samdi Passíusálmana, í Hvalfirði, Hallgrímskirkju í Saurbæ, við frábærar undirtektir.“ 

Ópera Alexöndru um frú Vigdísi Finnbogadóttur, fyrsta lýðræðiskjörna kvenforseta í heiminum, var þriðja óperan sem hún samdi. Hún segir það vissulega hafa verið mikla vinnu að skrifa um jafn stórbrotna persónu og frú Vigdísi. „Ég þurfti mikinn tíma til að lesa mér til um Vigdísi en ég skrifaði sjálf handritið að óperunni, auk tónlistarinnar. Ég heillaðist algjörlega af sögunni hennar; líf hennar var öðruvísi en ég hafði haldið, tíminn á Íslandi sem hún fæddist á, hennar æska í sjálfstæðu ríki, ævintýralegt stúdentalíf, draumur hennar um að fá að verða móðir á tíma kvennabaráttunnar á Íslandi. Mér fannst líka svo greinilegt, og aðdáunarvert, hvað Vigdís elskaði fólkið og landið sitt Ísland. Mér fannst auðvitað gaman að lesa um söguna hennar en ég var bæði snortin og heilluð af henni. Mig langaði að koma sögunni hennar á framfæri og fannst frábært að gera það með því að semja óperu fyrir leikhús en leikhúsið var og er einmitt stór partur af lífi Vigdísar. Mig langaði að veita konum, og körlum líka, innblástur með sögu hennar. Ef hún gat, þá getur þú líka! Úr varð óperan Frú forseti, sem var skrifuð í þremur þáttum fyrir tólf einsöngvara, óperukór og hljómsveit og frumsýnd í Grafarvogskirkju í konsertuppfærslu 23. október í fyrra.“

Nýtt verk í smíðum

„Já, ég er að semja óperuballett fyrir börn um jólasveinana þrettán. Áður samdi ég óperuballettinn „Ævintýrið um norðurljósin“ út frá barnasögu eftir móður mína, sem var frumsýnd í Norðurljósasalnum í Hörpu. Út frá þeirri óperu gerði ég minni sýningu með tónlist úr henni sem heitir „Ópera fyrir leikskólabörn“ og núna á þessu ári gaf ég út rafrænt námsefni fyrir söngnemendur og tónmenntakennslu. Ég er líka að vinna að upptökum fyrir tvær plötur. Á annarri þeirra verður tónlist úr óperunni Skáldið og biskupsdóttirin. Rétt fyrir stríðið í Úkraínu var óperan tekin upp með úkraínskri hljómsveit og núna standa yfir upptökur með íslenskum einsöngvurum á Íslandi. Ég vonast til að platan komi út fyrir næstu jól. Önnur plata er svo í smíðum til að fagna tuttugu ára starfsferli mínum sem óperusöngkona, frá því ég fékk fastráðningu í Kænugarði. Ég stefni á að gefa þá plötu út á þessu ári til að fagna þeim áfanga.“


Hefur aldrei togað í þig að flytja aftur út?
„Nei. Ísland er heimalandið mitt.“

 

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram