Herferð SHÍ um fjárhagslegt öryggi stúdenta

Stúdentaráð áréttar hér með kröfur sínar um rétt stúdenta til atvinnuleysisbóta og hækkun grunnframfærslu framfærslulána hjá Menntasjóði námsmanna. Til staðar verður að vera pólítískur vilji ríkisstjórnarinnar til þess að tryggja námsmönnum fjárhagslegt öryggi til frambúðar.

72% íslenskra stúdenta vinna því annars hefðu þeir ekki efni á því að stunda nám og er það hæsta hlutfall stúdenta á norðurlöndunum samkvæmt EUROSTUDENT VII. Þá eiga 31% íslenskra stúdenta í fjárhagslegum erfiðleikum og 25% telja að vinnan hafi áhrif á frammistöðu þeirra í námi. Stúdentar hafa lengi kallað eftir fjárhagslegu öryggi en fjárhagsstaða þeirra hefur verið í uppnámi vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins.

Stúdentar standa höllum fæti. Þeir geta ekki reitt sig á Menntasjóð námsmanna þar sem grunnframfærsla hjá sjóðnum er svo lág að stúdentar ná ekki framfleyta sér án þess að vinna samhliða námi. Þrátt fyrir mikla atvinnuþátttöku stúdenta og þá staðreynd að af launum þeirra sé greitt atvinnutryggingagjald í atvinnuleysistryggingasjóð, eins og hjá öllum öðrum vinnandi landsmönnum, þá eiga þeir ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

  • Námslánakerfið nægir ekki til framfærslu, af þeim sökum vinna 72% íslenskra stúdenta samhliða námi sem er hæsta hlutfall stúdenta á norðurlöndunum.
  • Rúm 46% atvinnulausra er ungt fólk á aldrinum 18-34 ára skv. atvinnuleysistölum Vinnumálastofnunnar. Ekki eru allir stúdentar meðtaldir í þeim tölum þar sem þeir eru ekki á atvinnuleysisskrá, því þeir eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum.
  • Stúdentaráð hefur ítrekað kallað eftir markvissum aðgerðum en engar langtímalausnir hafa verið boðaðar við bágri fjárhagsstöðu stúdenta. Það þarf breytingar til frambúðar.
  • Af launum stúdenta rennur atvinnutryggingagjald í atvinnuleysistryggingasjóð en þrátt fyrir það á stúdent, sem missir vinnuna sína, ekki rétt á atvinnuleysisbótum.
  • Atvinnutryggingagjöld stúdenta nema yfir 4 milljarða króna frá 2010 (4.043.326.613), ef miðað er við að 70% stúdenta Háskóla Íslands vinna samhliða námi, 50% starfi að vetri og 100% starfi að sumri á lágmarkslaunum.
  • Stúdentar nutu réttar til atvinnuleysisbóta, í námshléum, í áraraðir en voru sviptir þeim rétti 1. janúar 2010 með lögum nr. 134/2009.
  • Atvinnuleysisbótakrafa Stúdentaráðs snýst um að allir stúdentar sem þurfa að sækja sér fjárhagsaðstoðar hafi kost á því til jafns við aðra vinnandi landsmenn. Það er jafnréttismál að lagaumhverfið sé leiðrétt með stúdenta í huga.
  • Staðreynd að stúdentar leggja atvinnuleysistryggingasjóði lið með sínu vinnuframlagi en njóta ekki jafns réttar og vinnandi einstaklingur sem ekki er skráður í nám.

Vítahringur stúdenta í námslánakerfi Menntasjóðs námsmanna

Námslánakerfið á að grípa stúdenta og eru það ein rökin gegn atvinnuleysisbótakröfu stúdenta, þar sem ekki er hægt að samtvinna námslánakerfinu með atvinnuleysisbótakerfinu. Þetta eru aðskilin kerfi sem ekki hefur tekist að breyta þannig að þau gangi upp saman. Menntasjóðurinn á að sjá námsmönnum fyrir framfærslu á skólaárinu, en ekkert kerfi er til staðar sem grípur fólk á sumrin sé það án atvinnu og ekki í skóla.

Stúdentaráð telur tímabært að endurskoða og hækka grunnframfærslu framfærslulána til muna, til að tryggja að stúdentar geti stundað námið sitt áhyggjulaus. Grunnframfærslan þarf að samsvara, að lágmarki, dæmigerðu neysluviðmiði félagsmálaráðuneytisins.  Stúdentar ná ekki að mæta  útgjöldum sínum og þurfa, oftar en ekki, að vinna samhliða námi til að ná að framfleyta sér. Með námslánakerfinu, eins og það er nú, er því verið að bjóða stúdentum upp á að koma sér í vítahring sem einkennist af því að þurfa að vinna fyrir sér þrátt fyrir að vera á framfærslulánum.

4 milljarðar af launum stúdenta án þess að þeir eigi rétt á atvinnuleysisbótum

Atvinnuleysisbótakrafa Stúdentaráðs snýst um að allir stúdentar sem þurfa að sækja sér fjárhagsaðstoðar, sökum atvinnuleysis, hafi kost á því til jafns við aðra vinnandi landsmenn. Samkvæmt lögum nr. 113/1990 renna tekjur ríkisins af atvinnutryggingagjaldi, sem greitt er af launum starfsfólks, til Atvinnuleysistryggingasjóðs og Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í dag er gjaldið 1,35% af launum alls vinnandi fólks og þar á meðal stúdenta, sem eru samt sem áður undanskildir atvinnuleysistryggingakerfinu.

Ef miðað er við að 70% stúdenta Háskóla Íslands vinna samhliða námi, í 50% að vetri og 100% starfi að sumri á lágmarkslaunum, nema atvinnutryggingagjöld þess hóps yfir 4 milljarða króna frá 2010. Samkvæmt EUROSTUDENT VI vinna stúdentar þó að meðaltali 26 klst. á viku með námi sem er nær 70% starfshlutfalli og því er talan í raun töluvert hærri en 4 milljarðar sem stúdentar hafa greitt í sjóðinn. Ef við myndum snúa aftur til kerfisins fyrir 2010 myndi vinnandi námsfólk geta sótt sér þann rétt sem þeir hafa áunnið sér síðustu 10 árin. Atvinnuleysisbæturnar væru því í samræmi við hve mikið einstaklingur hefur unnið sl. 36 mánuði rétt eins og hjá öðrum sem missa vinnuna.

Þetta er mjög réttmæta krafa þar sem óskað er eftir því að jafnræðis sé gætt meðal vinnandi landsmanna og sömuleiðis að stúdentum sé ekki svipt fjárhagslegu öryggi fyrir það eitt að stunda nám. Það er staðreynd að stúdentar leggja atvinnuleysistryggingasjóði lið með þeirra vinnuframlagi og er það eitt og sér næg ástæða til að ráðast í breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu.

Gjá milli kerfa

Skörun atvinnuleysistryggingakerfisins og námslánakerfisins er þess að auki miskunnarlaus. Stúdent er nefnilega ekki heimilt að vera í meira en 12 einingum, samhliða vinnu, til að eiga rétt á stuðningi úr atvinnuleysistryggingakerfinu missi hann vinnuna. Á sama tíma verður stúdent að standast 22 einingar til að eiga kost á námslánum. Það skiptir engu máli hvort stúdent sé í námi og hlutastarfi eða í 100% vinnu, jafnvel til margra ára, og námi með, því stúdent sem missir vinnuna hefur engan rétt á fjárhagsaðstoð úr atvinnuleysistryggingakerfinu aðeins vegna þess að hann stundar nám. Það er því stór hluti námsfólks sem fellur milli kerfa og hefur ekkert annað úrræði að sækja í.

Samantekt

Í gegnum kórónuveirufaraldurinn hafa stjórnvöld, hingað til, boðið upp á skammtíma úrræði á borð við sumarstörf og sumarnám og önnur úrræði sem taka ekkert tillit til núverandi stúdenta. Þannig eru þeir látnir standa eftir á sama tíma og unnið er hörðum höndum við að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins á öðrum sviðum samfélagsins. Megináhersla er lögð á að menntun leiði þjóðina út úr þessari kreppu en það er ekki geranlegt nema að aðrar ráðstafanir séu til staðar.

Það er þörf á yfirgripsmiklum breytingum í atvinnuleysistryggingakerfinu sem og námslánakerfinu til þess að styrkja og efla stúdenta landsins. Stúdentar eiga að geta stundað nám án þess að þurfa að klóra sig í gegnum fjárhagsörðugleika og áhyggjur.

Auglýsing

læk

Instagram