Kokkaflakk Hlaðvarp fer í loftið í dag

Ólafur Örn Ólafsson veitingamaður og umsjónarmaður sjónvarpsþáttanna Kokkaflakk, sem Skot Productions framleiðir fyrir Sjónvarp Símans, er farinn af stað með nýtt hlaðvarp sem ber sama nafn og sjónvarpsþátturinn vinsæli. Hlaðvarpið er framleitt af hlaðvarpsstöðinni Hljóðkirkjan, sem sannarlega hefur slegið í gegn á þeim stutta tíma sem hún hefur verið til.
Vegna takmarkanna á ferðafrelsi er eitthvað hlé á framleiðslu ferðasjónvarpsþátta, eins og Kokkaflakks, og til þess að svala forvitni sinni hefur Ólafur Örn ákveðið að halda áfram að tala við fólk en að þessu sinni innanlands og ekki í sjónvarpi.
Hlaðvarpið Kokkaflakk byggir á sömu hugmyndum og sjónvarpsþátturinn. Ólafur Örn fer og hittir fólk sem á einhvern hátt tengist mat og drykk og ræðir við það um, jú einmitt, mat og drykk, hvaðan þetta fólk kemur og hvernig það leiddist út á þessa matarbraut. Kokkaflakk í eyrun er semsagt viðtalsþáttur þar sem hlustendur fá að kynnast viðmælendum náið.
Fyrsti þáttur fer í loftið í dag, þriðjudaginn 8. september, og mun innan tíðar vera aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum heims, svo sem Spotify og Apple Podcasts. Hlaðvarpið er svo vikulegt þannig að alla þriðjudaga mun nýr þáttur líta dagsins ljós á slaginu 00:01.
Nánari upplýsingar má finna á Facebook og Instagram síðum þáttanna (Kokkaflakk) og hjá Hljóðkirkjunni.
Auglýsing

læk

Instagram