Kominn í neyslu 12 ára – Var handrukkari, fíkniefnasali og rak vændishús

Baldur Freyr Einarsson er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. 

Baldur ólst upp við hrottalegar aðstæður, þar sem harkalegt ofbeldi og neysla voru daglegt brauð.

,,Þegar ég fór að sækja skýrslurnar mínar hjá barnavernd sagði lögmaðurinn þar við mig: ,,Fyrirgefðu, það er eins og þú hafir gleymst.“ Þetta sat í mér og ég þurfti að vinna á faglegan hátt með alla æskuna mína aftur eftir að hafa lesið skýrslurnar. Ekki það að ég vilji á nokkurn hátt nota þetta sem afsökun fyrir því sem ég gerði en þetta er útskýring á hegðuninni. Þegar ég les barnaverndarskýrslurnar mínar, þá sé ég að í kringum 9 ára aldur sjáist greinilega á mér að ég sé vandræðabarn. Ég er orðinn alveg grjótharður 10 ára og 12 ára er ég kominn í neyslu. Ég sniffaði tippex og gas og fleira, allt til þess að losna við þennan stanslausa kvíðahnút sem var búinn að vera í maganum á mér frá því að ég man eftir mér. Ég gerði hvað sem er til þess að líða ekki svona illa. Hnúturinn í maganum hvarf þegar ég notaði efni og ég varð háður því að losna við hann og þróaði með mér fíknihegðun út frá því. Þegar maður elst upp við aðstæður eins og ég, er tengingin við hjartað orðin beygluð strax í barnæsku og maður fer í vörn við allt sem heitir mótlæti. Ég komst yfir ,,Anarchy´s Cookbook“ þegar ég var 13 ára og þar lærði ég að búa til sprengjur, lærði um þrýstipunkta á fólki og fleira. En þetta snerist í grunninn allt um að enginn gæti meitt mig. Í mörg ár var það þannig að alltaf þegar ég kom inn í herbergi með fólki var ég búinn að reikna út hvar öskubakkinn væri og fleira sem ég gæti notað til að verja mig með ofbeldi ef eitthvað kæmi upp á. Ég var í raun í stanslausu ,,Fight or Flight“ ástandi,“ segir Baldur, sem ólst upp við hluti sem fæstir þurfa nokkurn tíma að horfa upp á.

,,Systkini mín voru tekin af heimilinu, en ég var skilinn eftir. Ofbeldið sem ég horfði á sem barn var hrottalegt og stjúpfaðir minn stundaði það að láta mig horfa á þegar hann var að beita mömmu ofbeldi. Ég man eftir því þegar hann lét mig horfa á þegar hann var að lemja hana þegar ég var 6-7 ára gamall. Svo les ég barnaverndarskýrslur núna þar sem hann heldur því fram að ég hafi verið vandamálið í sambandi hans og mömmu. Í dag hugsa ég hversu lasinn þessi maður var en það var hræðilegt að vera þessi litli strákur sem upplifði þetta.“

Baldur fór snemma af leið í lífinu og varð sjálfur ofbeldismaður, sem endaði með því að hann varð manni að bana og sat í fangelsi fyrir verknaðinn. Í þættinum lýsir hann atubrðarrásinni eftir slagsmálin sem höfðu þessar afleiðingar.

,,Þessi slagsmál sem urðu til þess að þessi drengur lét lífið voru miklu minni en margt annað sem ég hafði gert. Ég hafði skömmu áður en þetta gerðist verið í öðrum slagsmálum sem enduðu með heilablæðingu. Eftir það varð ég hræddur og ákvað að fara ekki aftur í miðbæinn en þetta kvöld hlýddi ég ekki innsæinu. Morguninn eftir þegar ég frétti að hann væri lífshættulega slasaður fór ég til eiginmanns systur mömmu minnar, sem var eins konar föðurímynd fyrir mig. Um leið og ég labbaði inn um dyrnar og sá hann brotnaði ég saman og fór að gráta. Ég var á þessum tíma handrukkari og fíkniefnasali og þarna var ég hágrátandi. Svo sat ég þarna hjá honum reykjandi út í eitt að reyna að ná mér niður áður en ég myndi gefa mig fram. Ég sat þarna með kveikt á textavarpinu, þar sem stóð að ungur maður lægi þungt haldinn á gjörgæslu eftir líkamsárás í Hafnarstræti. Svo er ég kominn í gæsluvarðhald út af þessu og lúgan var opnuð og ég fæ síma í hendurnar og það er lögmaðurinn minn. Hann segir mér að málið sé breytt af því að strákurinn sé dáinn. Þar með var hans kafli búinn og ef ég hefði hætt fyrr væri hann enn á lífi. Að bera það að hafa tekið lífið af einhverjum var mín refsing. Það var ekki mín refsing að sitja inni á Litla Hrauni. Mín refsing var að þurfa að horfast í augu við það að hafa tekið 22 ára gamlan strák úr þessu lífi. Fjölskyldan hans þarf að lifa með því og fjölskyldan mín þurfti að lifa með því að ég væri orðinn dæmdur ofbeldismaður.“

Baldur sat inni fyrir verknaðinn en segist þrátt fyrir allt sem á undan var gengið ekki enn hafa verið orðinn breyttur maður þegar hann kom út úr fangelsinu.

,,Ég var hættur að beita ofbeldi og var allt annar karakter en ég var í raun ekki breyttur. Ég var edrú í eitt ár inni í fangelsinu en var enn að díla þarna inni. Svo var maður í stríði við yfirvöld og fannst allt voða ósanngjarnt. Það er ekki fyrr en í janúar 2007 sem ég fer að verða hræddur. Ég var búinn að vera að flytja inn fíkniefni og reka vændishús, með nóg af völdum og peningum. En ég fattaði að mér leið ömurlega inni í mér. Ég fór inn í 12 spora samtök í byrjun apríl og sá einhverja blaktandi von eftir öll þessi ár. Fyrstu skrefin sem maður tekur er að finna æðri mátt og þar fann ég eitthvað sem mig hafði vantað alla ævi. Þá fæ ég ennþá meiri von og þar byrjaði breytingin fyrir alvöru.“

Yngri systir Baldurs lést skömmu eftir að hann var kominn úr fangelsi.

,,Hún var í partýi þar sem henni var boðið eitrað MDMA og lést eftir að hafa tekið það. Það munaði litlu að ég færi í gamla gírinn eftir það. Löggan hélt mér fyrir utan það hvað gerðist, sem eftir á að hyggja er kannski gott. Ég fékk þessar fréttir og það var bara eins og ég fengi rýting í gegnum hjartað. Hún var hetjan okkar, var í landsliðinu í fótbolta á leiðinni í háskólann. Svo datt hún í það á afmælisdaginn sinn þegar hún var tvítug og fór í vitlaust partý. Svo frétti ég það löngu síðar að þeir sem létu hana hafa efnin hafi verið með video-vél og hún ber að ofan. Löggan sagði mér þetta ekki, sem var kannski eins gott. Gömlu félagar mínir komu til mín eftir að þetta gerðist og buðust til þess að sjá um þennan gaur sem lét hana hafa eiturlyfin. Þeir sögðu mér að ég þyrfti ekkert að hugsa um þetta aftur en ég þyrfti bara að kinka kolli og þá myndu þeir ganga frá henni. Ég kinkaði kolli í öllum sársaukanum en daginn eftir fór ég út að hlaupa og allt í einu leið mér eins og hún væri með mér og ég heyri inni í höfðinu á mér röddina hennar segja við mig:

,,Hvernig viltu muna eftir mér“

„Þannig að ég hringdi strax í strákana og sagði þeim að láta þennan mann í friði. Mér líður eins og þarna hafi guð komið til mín og sagt mér að ég væri að fara í ranga átt. Þarna var restin af einhverju gömlu að deyja innra með mér.“

Baldur hefur í áraraðir unnið við að hjálpa fólki sem villst hefur af braut í lífinu. Hann segir það einu leiðina til að reyna að bæta fyrir það sem hann hefur gert.

,,Ég geri mér grein fyrir því að einhverjir munu dæma mig í þessu viðtali. Ég get ekkert gert til þess að bæta upp fyrir það sem ég hef gert. Ég fór og talaði við fjölskyldu mannsins sem dó og sagði við þau að ég áttaði mig á því að ég gæti aldrei bætt fyrir það sem ég gerði en ég vildi láta þau vita að mitt líf myndi snúast um að stuðla að því að forða öðrum frá því að gera það sem ég gerði. Mitt líf mun snúast um það á meðan ég er á lífi að reyna að forða öðrum frá því að fara þá braut sem ég fór.“

Í þættinum ræða Sölvi og Baldur um æsku Baldurs, atvikið þar sem Baldur varð ungum manni að bana, stöðuna í íslensku samfélagi 2021 og margt fleira.

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan:

Auglýsing

læk

Instagram