„Konur eru sannarlega jafnokar karla“

„Það var dálítil áskorun fyrir mig þegar ég var beðin um að taka við sem formaður FKA, sem þá stóð fyrir Félag kvenna í atvinnurekstri en stendur nú fyrir Félag kvenna í atvinnulífinu. Ég hafði tekið þátt í stofnun þess árið 1999 og var beðin um að koma í ritnefnd, svo stjórn og í framhaldinu að leiða félagið sem formaður. Ég sá samt ekki eftir því að hafa ekki skorast undan þeirri áskorun því þetta var frábær tími, bæði fyrir Hagvang og um leið ómetanlegt að vera talsmaður þessa sterka félags og vinna að framgangi þess. Ég kynntist líka fjölmörgum dugnaðarforkum í rekstri, stækkaði mitt tengslanet og eignaðist um leið nýjar einstaka vinkonur. En ekki síst fannst mér gaman að eiga þátt í að breyta þeim hugsunarhætti að konur væru ekki jafnokar karla, því það eru þær svo sannarlega,“ segir Katrín S. Óladóttir eigandi ráðninga- og ráðgjafafyrirtækisins Hagvangs í forsíðuviðtali nýjasta tölublaðs Vikunnar.

Í viðtalinu ræðir Katrín meðal annars um uppvaxtarárin í burstabæ í Öræfasveit, draumana sem rættust, stofnun Hagvangs, ráðningar sem eiga hug hennar allan og breytingar í atvinnulífinu á tveimur áratugum. Aðspurð segist Katrín aldrei hafa pælt í því að hún sé kona í karlaveldi.

„Kannski, og jafnvel örugglega hefur það hjálpað til að ég hef aldrei verið upptekin af þessu með hvaða kyn er um að ræða og ég hef aldrei litið á karlmenn sem einhvern andstæðing. Ég hef alltaf reynt að gera mitt besta og ég held að þetta sé líka spurning um það hvernig maður ber sig að við hlutina. Eins og varðandi ráðningar, þá hefur Hagvangur notið trausts til þess að sjá um krefjandi ráðningar í stjórnunarstöður og viðkomandi starfsmaður, hvort sem það er karl eða kona, hefur leyst verkefnið vel af hendi. Og þegar öllu er á botninn hvolft, er það auðvitað það sem á að skipta mestu máli. Ekki hvaða kyn um ræðir.“

Hægt er að lesa viðtalið við Katrínu og nýjasta tölublað Vikunnar á áskriftarvef Birtíngs. Sjö daga fríáskrift er í boði fyrir nýja áskrifendur.

Auglýsing

læk

Instagram