Merking á milli hluta

Mánudaginn 14. september opnar Guðlaug Mía Eyþórsdóttir (f. 1988) sýninguna Milli hluta í Listasal Mosfellsbæjar. Guðlaug Mía er með BA-gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands og mastersgráðu frá Koninklijke Academie í Belgíu. Hún hefur haldið fjölmargar sýningar hérlendis og erlendis og sinnt ýmsum myndlistartengdum verkefnum, m.a. stofnað og rekið gallerí og unnið að útgáfu myndlistarbóka.

Á sýningunni Milli hluta eru aðallega þrívíð verk, framúrstefnulegir skúlptúrar sem dansa á mörkum myndlistar og hönnunar. Guðlaug Mía vinnur með ýmis efni og áferðir og notar gjarnan skala og sjónarhorn til að skapa sjónræna blekkingu. Verkin eru kunnugleg, þau minna á hversdagslega hluti en eru samt eitthvað furðuleg, bera með sér keim af algengum nytjahlutum sem má samt ekki nota. Rýmið fær yfirbragð herbergis en hvort það er skrifstofa eða stofa eða anddyri er erfitt að segja. Verkin eru á milli hluta.

Síðasti sýningardagur er 9. október. Athugið að engin opnun verður haldin sökum Covid-19. Listasalur Mosfellsbæjar er staðsettur inn af Bókasafni Mosfellsbæjar, Kjarna, Þverholti 2. Opið er kl. 12-18 á virkum dögum og kl. 12-16 á laugardögum. Gott hjólastólaaðgengi er að salnum.

Auglýsing

læk

Instagram