Narsissismi ósýnilegt ofbeldi: „Ófærir um að líta í eigin barm“

Börn eru næm, þau skynja meira en maður heldur. Hversu oft hefur maður ekki heyrt þessa fullyrðingu og hún er sönn. Hins vegar hafa börnin oft hvorki orðin né þroskann til að segja frá upplifunum sínum fyrr en löngu síðar. Í bók sinni, Daughter, gerir Alda Sigmundsdóttir einmitt það. Með augum fullorðins einstaklings rekur hún barnæsku sína og þau áhrif sem narsissismi hafði á hana.

Bókin hefur vakið mikla athygli og skilur lesendur eftir með margvíslegar tilfinningar og þörf fyrir að ígrunda efni hennar. Nú er alþekkt innan sálfræðinnar að mæðgur geti átt í stormasömum samböndum eða togstreita skapist milli foreldris og barns af sama kyni. Í þínu tilfelli ristir þetta dýpra. Að hvaða leyti er narsissismi ólíkur?

„Þetta er tvennt ólíkt,“ segir Alda. „Því er ekki saman að jafna að alast upp með foreldri sem er upptekið eða hefur ekki tíma og að alast upp með narsisísku foreldri. Það er allt önnur orka í gangi. Ef ég til dæmis ber saman föður minn og móður mína, má segja að hann hafi líka brugðist, var ekki til staðar, en ég efaðist hins vegar aldrei um að honum þætti vænt um mig. Þegar ég fór svo að gera þetta allt upp hlustaði hann á mig, tók ábyrgð og reyndi að skilja það sem ég var að segja meðan móðir mín skellti sökinni bara á mig. En það er einmitt eitt af einkennum narsissisma að geta ekki tekið ábyrgð á gerðum sínum. Narsissistar eru ófærir um að líta í eigin barm. Að alast upp með foreldri sem er narsissíkst og sérstaklega falið veldur því að að mikil togstreita skapast milli skynjunar og þess sem þú sérð. Foreldrið leitast við að láta allt líta vel út á yfirborðinu.

Ég fann að hún var að reyna að móta mig í sinni mynd, ef svo má segja, og reis upp á móti á meðan ég var í aðstöðu til þess, þ.e. þegar ég hafði stuðning frá umhverfinu. En eftir að ég flutti með henni til útlanda var það ekki lengur í boði og þá kom þessi samruni sem ég lýsi í bókinni, þar sem ég varð framlenging af henni og hafði ekkert sjálf. En það var ekki fyrr en um tvítugt sem ég byrjaði að átta mig og það var eftir tvö og hálft ár af mjög intensívri meðferð hjá geðlækni. Þá loksins náði ég að brjótast í gegn um afneitunina.“

Þetta er brot úr ítarlegra viðtali sem finna má á vef Birtings í heild sinni.

Texti: Steingerður Steinarsdóttir
Myndir: Heiða Helgadóttir
Förðun: Erna Rut Sigurðardóttir
Auglýsing

læk

Instagram