Niðurstöður skimana birtar rafrænt

Frá og með deginum í dag mun Leitarstöð Krabbameinsfélagsins birta allar rannsóknarniðurstöður skimana í persónulegu pósthólfi kvenna á island.is.

Þetta á jafnt við um niðurstöður úr brjóstamyndatökum Leitarstöðvarinnar og leghálsstrokum óháð því hvar þau eru tekin.

„Hingað til hefur Leitarstöðin einungis sent konum bréf með niðurstöðum þegar eitthvað hefur fundist óeðlilegt við skimun fyrir leghálskrabbameini. Þeim bréfsendingum verður hætt í pappírsformi og niðurstöðurnar einungis sendar rafrænt. Með þessari breytingu munu nú allar konur fá niðurstöður úr rannsóknum, hvort sem þær eru jákvæðar eða neikvæðar og hvort sem er um skimun fyrir brjósta- eða leghálskrabbameini er að ræða,“ segir í tilkynningu frá leitarstöðinni.

„Þetta er viðleitni okkar til að mæta nýjum tímum og auka skilvirkni um leið og við hugum að umhverfissjónarmiðum og kostnaði við að senda bréf með hefðbundum hætti,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir og sviðsstjóri leitarsviðs Krabbameinsfélagsins.

Boðsbréf einnig send rafrænt

Á síðasta ári hóf Leitarstöðin að senda öll bréf um boð í skimun rafrænt inn á island.is jafnhliða því að senda boðsbréfin í bréfpósti. Það fyrirkomulag mun verða áfram í gildi um einhvern tíma.

Þetta kom fram á krabb.is

Auglýsing

læk

Instagram